Fréttir

LAN mót

Tölvuklúbbur skólans hélt svokallað "LAN" mót um helgina. Það felur í sér að tölvuleikjaspilarar koma saman með tölvur sínar og spila uppáhaldsleikina sína í góðum félagsskap. Mótið hófst á föstudagskvöld og spilað var fram undir morgunn. Leikirnir felast bæði í keppni og samspili. Þetta er þriðja LAN-mótið í skólanum í vetur.
Lesa meira

Stjórnmálafræði á starfsbraut

Kristján Eldjárn Hjartarson, fulltrúi í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar var gestur nemenda á starfsbraut í morgun. Áfanginn heitir inngangur að félagsvísindum og hefur í þessari viku og þeirri síðustu verið fjallað um stjórnmálafræði. Kosningar til Alþingis hafa beint kastljósi að stjórnmálamönnum. En að ári verður kosið til sveitarstjórna og þar er ekki síður en á þinginu unnið að mikilvægum verkefnum.
Lesa meira

Innritun eldri nema stendur yfir

Nú stendur yfir innritun eldri nemenda en þeirra sem eru að koma úr 10. bekk til 31. maí. Innritunin fer fram á síðunni menntagatt.is
Lesa meira

Bjarkey Alþingismaður

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi skólans og umsjónarkennari á starfsbraut var kjörin á þing í kosningunum á laugardag fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Hún verður 9. þingmaður Norðausturkjördæmis. Bjarkey var varaþingmaður VG á árunum 2003-2007 og aftur 2009-2013 og hefur nokkrum sinnum tekið sæti á Alþingi. Þá er hún bæjarfulltrúi í Fjallabyggð, kjörin fyrir þremur árum af T-lista Fjallabyggðar. Bjarkey hefur verið í leyfi frá störfum sínum við skólann í aprílmánuði en gerir ráð fyrir að snúa aftur 2. maí.
Lesa meira

Vorsýning undirbúin.

Nemendur á starfsbraut ætla að taka lagið á Vorsýningu skólans 11. maí. Saman æfir hópurinn lagið Lífið er yndislegt, sem var þjóðhátíðarlag í Eyjum árið 2001. Tveir nemendur, Andri Mar og Hallgrímur, syngja en aðrir leika á trommur, bassa, gítar og fleiri hljóðfæri. Myndin var tekin á æfingu í morgun.
Lesa meira

Vímuefnakönnun

Rannsókn á vímuefnanotkun nemenda í framhaldsskólum bendir til þess að áfengisdrykkja nemenda MTR sé minni en í öðrum framhaldsskólum landsins. Í könnun sem gerð var í febrúar 2013 sögðust 25% þeirra sem þátt tóku hér að þeir hefðu orðið ölvaðir síðustu 30 daga. Í öðrum skólum var hlutfallið á bilinu 30-78%.
Lesa meira

Fjarnemi verðlaunaður

Arna Rós Bragadóttir, fjarnemi í inngangi að listum og nemandi í 10. bekk Grunnskóla Húnaþings vestra vann, til verðlauna í opinni hönnunarsamkeppni um lógó fyrir “Gæði úr Húnaþingi”. Keppnin er liður í samstarfi ferðamálafélags svæðisins og ýmissa einstaklinga og fyrirtækja sem selja handverk, matvæli og þjónustu
Lesa meira

Íþróttagarpar

Þrír nemendur skólans og einn fyrrverandi nemandi náðu frábærum árangri á Íslandsmóti Íþróttafélags fatlaðra um helgina. Sigurjón Sigtryggsson vann silfurverðlaun í 200 metra hlaupi og brons í 60 metra hlaupi. Rúna (Geirrún Jóhanna) Sigurðardóttir, Heiðrun Sólveig Jónsdóttir og Sveinn Þór Kjartansson náðu mjög góðum árangri í boccia.
Lesa meira

Upplýsandi framboðsfundur

Fulltrúar frá fjórum stjórnmálaflokkum fóru yfir helstu kosningamálin og svöruðu spurningum nemenda og starfsmanna skólans í stjórnmálafræðitíma í dag. Fundurinn var málefnalegur og upplýsandi og einkenndist af kurteisi gesta og heimamanna. Mest var rætt um efnahagsmál, verðtryggingu, gjaldmiðilsmál og nauðsyn þess að koma á stöðugleika. Einnig reifuðu gestirnir líkleg stjórnarmynstur eftir kosningar. Þeir voru: Bergur Þorri Benjamínsson, frá Sjálfstæðisflokki, Brynhildur Pétursdóttir í Bjartri framtíð, Gísli Tryggvason frá Dögun og Steingrímur J. Sigfússon frá Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Myndir frá fundinum og frá framboðskynningu í skólanum fyrir tveimur vikum.
Lesa meira

Vegna söngkeppni framhaldsskóla

Að gefnu tilefni viljum við benda þeim foreldrum sem skrifað hafa undir leyfisbréf til handa börnum sínum á Söngkeppni framhaldsskólanna á eftirfarandi: Nemendur eru á eign ábyrgð á Akureyri eins og kemur fram í leyfisbréfi sem forráðamenn þeirra sem eru yngri en 18 ára hafa undirritað. Til stóð að rúta færi fram og til baka frá skólanum keppnisdagana með fylgdarmanni. Nú hefur hins vegar komið í ljós að engin nemandi ætlar að nýta þennan kost. Því fer enginn starfsmaður skólans með hópnum því miður. Þar sem leyfisbréf nemendafélagsins segir skýrt að nemendur séu á eigin vegum, telur skólinn sig ekki bera ábyrgð á þeim í tengslum við þessa keppni.
Lesa meira