Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Samkvæmt reglugerð nr. 654/2009 ber framhaldsskólum að setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Markmið námsins er að nemendur verði færir um að skilja og nota íslenskt mál. Að því leyti sem tilefni er til gildir áætlunin einnig um móttöku skiptinema.

Innritun
Nemendur innrita sig í skólann á síðunni www.menntagatt.is eða á skrifstofu skólans. Náms- og starfsráðgjafi hefur í kjölfarið samband við nemanda og foreldra eða forráðamenn og boðar til móttökuviðtals með þessum aðilum.

Móttökuviðtal
Námsráðgjafi skipuleggur viðtal með hverjum nemanda og foreldrum/forráðamönnum og umsjónarkennara. Ef með þarf er túlkur viðstaddur eða í síma frá Alþjóðahúsi. Í viðtalinu er upplýsingum um bakgrunn nemandans og aðstæður hans aflað svo skólinn geti mætt einstaklingsbundnum þörfum hans sem best. Þá er nemandanum og foreldrum/forráðamönnum veittar nauðsynlegar upplýsingar um skólann, starfsemi hans og þær reglur sem þar gilda. Einnig er stuðningur og þjónusta sem stendur nemandanum til boða kynnt, bæði hvað varðar nám og náms- og starfsráðgjöf. Félagslíf nemenda við skólann er einnig kynnt.

Samstarf við foreldra og grunnskóla
Komi nemandinn úr grunnskóla hér á landi hefur náms- og starfsráðgjafi samband við foreldra og óskar eftir því að fá viðeigandi upplýsingar frá grunnskólanum, skv. reglugerð nr. 585/2010 IV. kafla 17. gr., þannig að sem best verði komið til móts við þarfir nemandans.


Íslenskukennsla

Einstaklingsmiðað nám
Nemandinn skipuleggur nám sitt í samráði við námsráðgjafa sem metur hvort nemandinn þarf sérstakan stuðning í hverri námsgrein fyrir sig. Námsráðgjafi hefur yfirumsjón með stuðningi eða sérkennslu ef um það er að ræða. Lögð er áhersla á að nemandinn sitji í almennum áföngum til að tryggja félagslega aðlögun og styrkja félagsleg tengsl.

Jafningjastuðningur
Námsráðgjafi metur þörf á að nemandinn fái sérstakan stuðningsaðila úr hópi samnemenda. Í þeim tilvikum velur hann í samvinnu við umsjónarkennara og skólameistara einn eða fleiri nemendur sem stunda nám í sömu eða svipuðum greinum. Þessir stuðningsaðilar eru nemandanum til aðstoðar við að læra á skólann og skólaumhverfið og aðlagast menningu jafnaldra sinna. Áhersla er lögð á að stuðningur þessi sé á jafningjagrunni. Skólastjórnendur meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort jafningjastuðningur sé metinn til eininga.

Eftirfylgni og skipulag
Umsjónarkennari fylgist skipulega með námframvindu nemandans eins og annarra nemenda og er trúnaðarmaður hans gagnvart skólanum. Umsjónarkennari grípur inn í ef námsframvinda, mætingar eða félagsleg aðlögun nemandans er óviðunandi og hefur samráð við námsráðgjafa um leiðir til úrbóta.

Endurskoðað 12. ágúst 2020