Leiðsagnarmat
Í námi við skólann er símat og leiðsagnarmat. Nemendur gera verkefni í hverri viku og geta skil verið af ýmsu tagi, próf, ritsmíð, myndbönd, málverk, tónlist, vinna með hugbúnað af ýmsu tagi og fleira. Því er mikilvægt að nemendur taki áfangann „Upplýsingatækni dreifmenntar UPPD2UD05“ í upphafi náms. Gerð er krafa um að nemendur hafi tölvu allan námstímann.
Vinnuframlag
Í námi er nauðsynlegt að skipuleggja nám sitt vel og hvaða tíma ætlað er í námið. Hver námseining er skipulögð af kennara þannig að hann gerir ráð fyrir að nemandinn þurfi 3 daga miðað við 6-8 klukkustunda vinnu á dag til að ljúka henni. Fimm eininga áfangi er því miðaður við að nemandinn skili 15 daga vinnu eða 90-120 klukkustundum. Henni er síðan dreift yfir önnina.
Verkefnaskil
Nemendur fá upplýsingar á mánudagsmorgnum um viðfangsefni vikunnar, sum verkefni opna strax en önnur geta verið afleidd af viðfangsefnum fyrr í viku og opna því síðar. Verkefnum skal undanbragðalaust skila eigi síðar en á sunnudagskvöldi. Geymið ekki að skila fram á síðustu stundu, það getur alltaf eitthvað komið uppá og frestir eru ekki gefnir.
Engir frestir á verkefnaskilum
Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Lára Stefánsdóttir, lara@mtr.is er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að semja um skil utan skilatíma.