19.02.2025
UNESCO er alþjóða heitið á Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Meginmarkmið hennar er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Á vegum UNESCO hefur verið starfrækt alþjóðlegt samstarfsnet skóla frá árinu 1953 og kallast það UNESCO-skólar. Þeir eru nú um 12.000 talsins og starfa í 182 landi á leik-, grunn– og framhaldsskólastigi. Skólarnir vinna eftir fjórum meginþemum; alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og friður og mannréttindi.
Lesa meira
18.02.2025
Fimmtudaginn 20. febrúar kl 13:15 ætla Inga og nemendur að vera með kynningu á gervigreind fyrir eldri borgara.
Aðrir áhugsamir er þó auðvitað velkomnir.
Lesa meira
14.02.2025
Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnti um valið á Stofnun ársins 2024 við hátíðlega athöfn í gær. Titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir og starfsstaðir sem þykja skara fram úr á sviði mannauðsmála að mati starfsfólks. Stofnun ársins nær til 35 þúsund starfsmanna á opinberum vinnumarkaði og tilgangurinn er fyrst og fremst að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Styrkja þannig starfsumhverfi starfsfólks út frá þeirra sjónarhorni og veita í leiðinni stjórnendum mikilvæg verkfæri til að vinna að umbótum á sínum vinnustað.
Lesa meira
13.02.2025
FRÍS kallast rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla og er hún nú haldin í fimmta sinn. Flest árin hafa 14 skólar tekið þátt í mótinu og svo er einnig nú. MTR hefur verið með frá upphafi og í fyrra komst lið skólans í 8 liða úrslit og keppti þar með í beinni útsendingu á sjónvarpsrásinni Stöð 2 eSport.
Mótið í ár hófst þann 20. janúar sl. og er keppt í þremur tölvuleikjum, Counter Strike 2, Rocket League og Fortnite. Lið MTR skipa sex drengir og tvær stúlkur og hafa þau flest tekið áfanga í rafíþróttum við skólann undanfarnar annir. Þau hafa mætt liðum frá Fjölbrautaskólum Garðabæjar og Snæfellinga síðustu vikur en biðu ósigur í báðum viðureignum. Að sjálfsögðu er stefnt á sigur í næstu viðureign.
Lesa meira
12.02.2025
Í skólanum er leitað ýmissa leiða til að gera kennsluna sem árangursríkasta. Kennarar nota m.a. fjölbreyttar kennsluaðferðir og ýmis kennsluforrit í þessum tilgangi. Undanfarin ár hafa enskukennarar skólans töluvert notað vefsíðu sem kallast Vocabulary.com sem nýtist mjög vel til að auka orðaforða nemenda. Forritið er bandarískt og undanfarin ár hafa þeir skólar í Bandaríkjunum og Kanada sem bestum árangri hafa náð við notkun forritsins verið verðlaunaðir. Á síðustu önn var ákveðið að hafa einnig verðlaun fyrir skóla utan þessara ríkja og viti menn Menntaskólinn á Tröllaskaga var þar meðal þeirra tíu efstu. Fékk skólinn sent sérstakt flagg á dögunum þessu til staðfestingar.
Lesa meira
10.02.2025
Upplýsingatækni fyrir eldri borgara nk. fimmtudag fellur niður í skólanum en til stendur að nemendur heimsæki íbúa Hornbrekku og aðstoði þá.
Tíminn fimmtudaginn 20. febrúar verður tileinkaður fræðslu um gervigreind. Þar munu Inga og nemendur vera með fræðslu um gervigreindina, núverndi stöðu, til hvers er hægt að nýta hana og hvert hún gæti stefnt.
Lesa meira
30.01.2025
AFS eru alþjóðleg sjálfboðaliða- og fræðslusamtök. Meginviðfangsefni þeirra eru nemandaskipti landa á milli og bjóða samtökin upp á þvermenningarleg námstækifæri þar sem hægt er að öðlast þá þekkingu, færni og skilning sem þarf til að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. AFS samtökin hafa verið í fararbroddi á sviði námstækifæra erlendis fyrir ungt fólk um árabil og starfið er stutt og rekið af þjálfuðu starfsfólki og sjálfboðaliðum.
Lesa meira
29.01.2025
Í fyrstu kennslustund í hinu spennandi verkefni hér í skólanum sem miðar að því að auka tæknilæsi meðal íbúa Fjallabyggðar sem eru 60 ára og eldri vildi svo skemmtilega til að þrír ættliðir voru saman komnir í skólanum til að mennta sig. Hjónin Svava Björg Jóhannsdóttir og Björn Kjartansson mættu með símana sína til fyrstu kennslustundar og fengu tilsögn frá dótturdóttur sinni Guðrúnu Ósk Auðunsdóttur, sem er nemandi við MTR, um ýmis öpp í símanum og hvernig væri hægt að nota þau. Á sama tíma hafði dóttir hjónanna og móðir Guðrúnar, Birna Sigurveig Björnsdóttir, fengið afnot af öðru næðisrými skólans til að sinna námi sínu við Háskólann á Akureyri.
Við stóðumst ekki mátið og fengum þau til að stilla sér upp fyrir myndatöku.
Lesa meira
23.01.2025
Undanfarin ár hefur listafólki af nærsvæði skólans verið boðið að sýna verk sín í sal skólans og hafa nokkrar sýningar verið settar upp hvert skólaár. Nú er fyrsta sýningin á þessari önn komin upp og að þessu sinni leituðum við ekki langt því listamaðurinn er Bergþór Morthens sem kennt hefur listgreinar við skólann allt frá stofnun hans árið 2010.
Bergþór útskrifaðist frá myndlistardeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2004, sótti sér nokkrum árum síðar kennsluréttindi frá Háskóla Íslands og lauk svo mastersnámi í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg í Svíþjóð árið 2015. Bergþór hefur haldið einkasýningar á Íslandi, Svíþjóð og í Rúmeníu og tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Grikklandi.
Bergþór hefur verið búsettur í Gautaborg ásamt fjölskyldu sinni síðan hann lauk mastersnámi sínu þar. Áður bjuggu þau á Siglufirði og eiga þar ennþá húsnæði. Koma þau reglulega á heimaslóðir á sumrin og Bergþór einnig í nokkrar vikur hvern vetur til að kenna við skólann. Á öðrum tímum mætir hann til vinnu frá Gautaborg í gegnum nærveru sem hann getur keyrt um skólann og sagt nemendum til í gegnum hana. Bergþór er með vinnustofur í báðum löndum þar sem hann vinnur að list sinni. Hann var útnefndur bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2010.
Á þessari sýningu eru verk sem Bergþór hefur unnið að undanfarna mánuði en auk þeirra má sjá eldri verk eftir listamanninn í sal skólans, verk sem eru í eigu skólans
Lesa meira
20.01.2025
Í síðustu viku hófst spennandi verkefni í skólanum sem miðar að því að auka tæknilæsi meðal íbúa Fjallabyggðar sem eru 60 ára og eldri. Verkefnið býður upp á einstaklingsmiðaða kennslu þar sem nemendur við skólann sjá um leiðsögn undir handleiðslu Ingu Eiríksdóttur, kennara skólans. Kennslan fer fram á persónulegum nótum og áhersla er lögð á að mæta þörfum og áhuga hvers og eins þannig að þátttakendur geta lært á eigin hraða og fengið aðstoð við þau tæki og forrit sem þeir sjá sér hag í að nota í daglegu lífi.
Vel á annan tug eldra fólks mætti í fyrstu kennslustundina, sem var sl. fimmtudag. Það mátti greina smá taugatitring og óöryggi í byrjun, bæði hjá þeim eldri sem og þeim yngri, en það breyttist fljótt og andrúmsloftið varð hið ánægjulegasta þegar tilsögnin hófst. Inga hóf stundina á því að fara yfir tilgang og framkvæmd verkefnisins og síðan voru nemendur skólans paraðir við einn til tvo af eldri kynslóðinni til að segja þeim til. Snjallsímarnir voru fyrsta verkefni flestra í fyrstu lotu og algengstu viðfangsefni voru að sýna hvernig ætti að hreinsa út óþörf öpp, setja þau helstu á heimaskjá og spá í facebook. Var virkilega gaman að sjá kynslóðirnar spá í málin saman, eiga góðar og gagnlegar samræður og gleyma sér yfir viðfangsefnunum.
Markmið verkefnisins er að styrkja tæknifærni eldra fólks og auka sjálfstæði þeirra í notkun stafrænna lausna. Með því að efla tækniþekkingu skapast tækifæri til að auðvelda samskipti við fjölskyldu og vini, nýta sér þjónustu á netinu og taka þátt í samfélaginu á nýjan hátt.
Nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga fá einnig mikið út úr verkefninu. Þeir öðlast dýrmæta reynslu af kennslu og samskiptum við fólk á ólíkum aldri og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Þetta samspil kynslóða er stór þáttur í því að styrkja tengsl í Fjallabyggð og skapa jákvæða upplifun fyrir alla þátttakendur. Verkefnið er frábært dæmi um nýsköpun í menntun þar sem skólar og samfélög vinna saman að því að bæta lífsgæði íbúa.
Öllum íbúum Fjallabyggðar 60 ára og eldri er boðið að nýta sér þetta áhugaverða úrræði og eru kennslustundir á fimmtudögum kl. 13.15 - 14.15 fram á vorið á starfstíma skólans.
Lesa meira