Á dögunum heimsóttu Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari MTR, og Inga Eiríksdóttir, kennari, skólann New College Lanarkshire (NCL) í Skotlandi í tilefni af árlegri alþjóðaviku skólans. Voru þær þar í boði NCL en skólarnir hafa verið í samstarfi á undanförnum árum. Gestir í alþjóðavikunni komu víða að; frá Brasilíu, Egyptalandi, Filippseyjum, Hollandi, Ítalíu, Kína og Íslandi. Fluttar voru kynningar um alþjóðasamstarf og kynntu okkar konur MTR og mikilvægi alþjóðaverkefna í starfi skólans. Kynningarnar voru frá bæði framhaldsskólum og háskólum og þótti okkar fulltrúum áhugavert að heyra hvernig ólíkir skólar nýta sér alþjóðasamstarf til að auka fjölbreytni í skólastarfinu og valdefla nemendur.
Einnig var boðið upp á kynningar í skólanum NCL, sem er með 3 mismunandi starfsstöðvar og mjög öflugt verknám. Fulltrúar okkar litu m.a. inn í upplýsingatæknitíma í tveimur starfsstöðvum þar sem Inga kynnti nemendum fyrirkomulag náms og kennslu hjá okkur. Einnig heimsóttu þær starfsbraut skólans sem er mjög stór og með fjölbreytta starfsemi. Var sú heimsókn mjög áhugaverð sem ferðin í heild sinni.