Góð heimsókn frá Dalvíkurskóla

Dalvíkurskóli í heimsókn mynd ÞH
Dalvíkurskóli í heimsókn mynd ÞH

Í vikunni komu nemendur 10. bekkjar Dalvíkurskóla í heimsókn og kynntu sér hvernig náminu hjá okkur er háttað og hvernig lífið gengur fyrir sig í skólanum. Námsráðgjafi skólans, Hólmar Hákon, bauð þessa tilvonandi framhaldsskólanema velkomna og flutti stutta kynningu áður en hópnum var skipt upp í smærri einingar sem fóru á milli stöðva í skólahúsinu. Þeirra biðu ýmis verkefni og kynningar til að fá innlit í skólastarfið. Fulltrúar nemendaráðs sögðu frá félagsstarfi nemenda, Inga Eiríksdóttir stýrði ratleik þar sem gestirnir fóru um skólahúsið og skoðuðu ýmis tæki og tól sem skólinn hefur yfir að ráða, Ida Semey sá um klippimyndagerð þar sem viðfangsefnið var hamingja í tilefni af alþjóða hamingjudeginum sem var í vikunni, nemendur skólans tóku á móti hópunum í tölvustofunni þar sem var í boði að fara í tölvuleiki og prófa sýndarveruleikagræjur og Hólmar Hákon fór yfir skipulag námsins og skólastarfsins á síðustu stöðinni. Að loknu hópastarfinu var boðið upp á pizzuveislu og þótti það ekki ónýtt.

Var ekki annað að heyra og sjá en gestirnir hafi verið ánægðir með heimsóknina og einhverjir lýstu yfir áhuga á að koma hér til náms næsta haust. Þökkum við þessum líflega hópi fyrir komuna og að hafa lífgað upp á daginn hjá okkur. Myndir