Hamingjudagur mynd GK
Alþjóða hamingjudagurinn er á morgun, þann 20. mars, en við tókum forskot á sæluna og vorum með sannkallaða hamingjudagskrá í skólanum í dag. Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og tekur sem slíkur þátt í nokkrum þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum og er hamingjan eitt þeirra. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan. Ýmsir viðburðir eru skipulagðir þennan dag til að vekja áhuga á mikilvægi hamingjunnar og létu nemendur og kennarar MTR ekki sitt eftir liggja.
Dagskráin hófst með því að settur var í gang lagalisti sem innihélt lög um hamingjuna og hljómaði hann megnið af deginum í sal skólans. Hér að neðan má finna slóð á hann. Inga Eiríksdóttir, kennari skólans, hélt síðan fyrirlestur um mikilvægi hamingjunnar fyrir nemendur og ræddi um hvað við gætum gert til að auka hana. Nefndi hún þar atriði eins og að stunda reglubundna hreyfingu, hugleiðslu og slökun, að sýna þakklæti, vera dugleg að hrósa öðru, taka eftir öllu því góða sem verður á vegi okkar frekar en að einblína á það neikvæða og tala okkur sjálf ekki niður. Að fyrirlestrinum loknum völdu nemendur og kennarar þrjú orð sem þeir tengdu við hamingju og mynduðu fallegt orðaský sem fylgir í myndasafninu með fréttinni. Þá var kominn tími til að hreyfa sig og héldu nemendur í íþróttahúsið þar sem þeir tóku þátt í fjölbreyttri hreyfingu undir stjórn kennaranemanna Sunnevu Lindar og Patreks Darra sem eru í æfingakennslu við skólann þessar vikurnar.
Góð næring á líkama og sál er að sjálfsögðu nauðsynleg til að rækta hamingjuna og voru slegnar tvær flugur í einu höggi í hádegishléinu þegar Hamingjubandið, hljómsveit nemenda og kennara, lék nokkur lög tengd þema dagsins meðan nemendur nutu matarins. Hljómsveitin var einmitt stofnuð á degi hamingjunnar í fyrra og var núna að koma fram í fimmta sinn. Misjafnt er þó hvernig hún er skipuð, að þessu sinni voru það nemendurnir Hlynur og Ólafur og kennararnir Bubbi og Tóti sem mynduðu hana.
Heimsmarkmiðafána UNESCO var að sjálfsögðu flaggað við skólann í tilefni dagsins enda mörg heimsmarkmið sem tengdust dagskránni á þessum góða og sólríka degi. Myndir