Fróðleg ferð til Lettlands

Hópmynd IÞW
Hópmynd IÞW

Vikuna 3. - 9. mars hélt hópur nemenda til Lettlands þar sem þeir héldu áfram þátttöku í Nordplus verkefni um menningararf. Verkefnið hófst sl. haust þegar nemendur frá Saldus vidusskola, í bænum Saldus í Lettlandi, heimsóttu okkur hér á Tröllaskaganum og kynntust íslenskum menningararfi. Var það m.a. gert með heimsóknum á söfn og setur í sveitarfélaginu auk þess sem nemendur veltu fyrir sér hvaða þýðingu menningararleifðir hefðu fyrir komandi kynslóðir, hvernig við gætum viðhaldið þeim og hvort menningararfleifðir gætu hjálpað til við að auka tengsl fólks með mismunandi bakgrunn. Lettnesku nemendurnir voru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fengu þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.

Nú var sem sagt komið að því að endurgjalda þá heimsókn og tóku lettnesku nemarnir glaðir við þeim íslensku, enda mynduðust mjög góð tengsl milli hópanna sl. haust. Að þessu sinni var viðfangsefnið lettneskur menningararfur, áþreifanlegur og óáþreifanlegur menningararfur, og var þar af nógu að taka. Hópurinn okkar flaug frá Akureyri laugardaginn 1. mars og eftir millilendingu í Amsterdam var flogið til Riga, höfuðborgar Lettlands, þar sem var gist eina nótt. Svo vel vildi til að þar var í gangi mikil hátíð þar sem veturinn var kvaddur og voru ýmsar furðuverur á ferli í miðborginni og höfðu hátt. Morguninn eftir var svo haldið með rútu til Saldus þar sem urðu fagnaðarfundir. Líkt og í heimsókn haustsins var gist á heimilum nemanna sem veitir betri innsýn í hið daglega líf gestgjafanna. Kveið nemendur nokkuð fyrir því að vera í heimagistingu en voru allir sammála því í uppgjöri ferðarinnar að það hefði í raun gert ferðina enn eftirminnilegri og tengslin við lettnesku nemana orðið meiri fyrir vikið.

Í Saldus var búið að skipuleggja þétta dagskrá og undirbúa vel. Bæjarstjórinn tók á móti hópnum í ráðhúsinu, hélt hressilega kynningu og færði þeim gjafir, farið var á listasöfn, í heimsókn í listaskóla, og tekið þátt í að elda þjóðlegan mat á veitingastað, haldið út í sveit á sérstakt verkstæði þar sem þjóðarhljóðfærið kokles er smíðað og þar var einnig farið í gönguferð með útsýni yfir Eystrasaltshafið. Í skólanum var einnig nóg að fást við og upplifa; nemendur tóku þátt í ýmiskonar hópefli, fóru í ratleik um skólann, hlýddu á tónleika skólakórsins og unnu að rafbókum sínum um ferðina.

Að margra mati var hápunkturinn að heimsækja hinn forna bæ Kuldīga í vesturhluta Lettlands með sínar þröngu götur, gömlu byggingar og iðandi mannlíf. Þar er ægifagurt, ekki síst í kringum ána Alekšupīte sem rennur í gegnum miðbæinn. Er talið að hann sé sá eini sem eftir er af 17.–18. aldar hverfi af þessu tagi í Eystrasaltsríkjunum og er á heimsminjaskrá UNESCO. Fylgdust nemendur m.a. með áhugaverðri þjóðdansasýningu í bænum og lýstu sumir heimsókninni þannig að hún hefði verið eins og að stíga upp í tímavél og fara hundruð ára aftur í tímann.

Ferðin var einstaklega vel heppnuð og áhugaverð og nemendur unnu marga persónulega sigra með því að takast á við framandi aðstæður og viðfangsefni. Þeir voru einnig duglegir að taka þátt í þeim verkefnum sem lágu fyrir og í hugleiðingum þeirra í lok ferðarinnar kom m.a. fram að þeir hefðu lært margt um sjálfa sig og staðið sig betur en þeir sjálfir þorðu að vona. Myndir