Áfram til jafnréttis

Sextán framhaldsskólar vítt og breitt um landið tóku þátt í March Forward-herferð UN Women á Íslandi með samstöðugjörningi á hádegi í gær. Gjörningurinn fólst í því að ganga nokkur skref afturábak, til merkis um bakslagið í jafnréttismálum síðustu ár, stoppa, sem tákn um að nú sé nóg komið og ganga svo rösklega áfram, því það er eina leiðin fyrir samfélög til að vaxa og dafna. Að frumkvæði nemendafélagsins Trölla tók hópur nemenda og starfsfólks MTR þátt til að leggja þessu þarfa málefni lið.

Það er ekki tilviljun að herferð þessi sé leidd af UN Women á Íslandi því að sögn Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, er Ísland það land í heiminum sem er næst því að ná fullu kynjajafnrétti og hefur verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) yfir jafnrétti kynjanna í 15 ár samfleytt. Herferðinni var ýtt úr vör á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars sl. og markmið hennar er að benda á hið alvarlega bakslag sem orðið hefur í jafnréttismálum undanfarin ár og skapa samtal og samstöðu um jafnrétti. Er henni ætlað að ná augum og eyrum fólks á öllum aldri og af öllum kynjum, óháð búsetu og er unnin í samstarfi við hinar tólf landsnefndir UN Women. Herferðin hefur m.a. náð til Kasakstan, New York, Frakklands, Ítalíu og Ástralíu.

Herferðin verður sýnileg út árið því 2025 er lykilár þegar kemur að jafnréttisbaráttunni. Í ár eru m.a. 50 ár frá fyrsta Kvennaári Sameinuðu þjóðanna og frá Kvennafrídeginum þegar konur lögðu niður launuð sem ólaunuð störf, stöðvuðu þannig samfélagið og vöktu heimsathygli.

Hér er umfjöllun UN Women um herferðina, https://unwomen.is/16-framhaldsskolar-um-allt-land-toku-thatt-i-samstodugjorningi-i-thagu-jafnrettis/