Ánægjuleg speglun mynd ÞH
Síðastliðið haust hóf skólinn þátttöku í NordPlus-verkefni sem miðar að því að bæta félagslega sjálfbærni meðal drengja og draga úr brottfalli þeirra úr framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við tvo framhaldsskóla í Danmörku og einn á Grænlandi þar sem lögð er áhersla á að kanna ástæður fyrir lakari námsárangri drengja og hugað að mögulegum lausnum. Fyrir hönd MTR taka þau Guðbjörn Hólm Veigarsson, Ida Semey og Hólmar Hákon Óðinsson þátt í verkefninu.Hugmyndir hópsins beinast meðal annars að áhrifum samfélagsmiðla á athygli drengja, kynjaðri væntingu um hegðun og árangur og stöðluðum hugmyndum um karlmennsku sem gætu haft neikvæð áhrif á námsárangur. Með verkefninu á m.a. að kanna hvort drengir upplifi skort á stuðningi vegna staðalímynda um karlmennsku, þar sem það gæti verið litið á það sem veikleika að biðja um aðstoð og viðurkenna að maður geti ekki reddað hlutunum sjálfur.
Þátttakendur hófu verkefnið snemma sl. haust með heimsókn í GUX Nuuk framhaldsskólann á Grænlandi og í framhaldi af því var komið saman í Christianshavn gymnasium og Örestad gymnasium í Kaupmannahöfn. Í þessari viku er lokahnykkurinn og er hópurinn staddur hjá okkur í MTR til að kynna sér starfshætti og skoða hvort eitthvað í kennslumódeli skólans (Tröllaskagamódelið) gagnist verkefninu. Næstu vikur verða svo nýttar í að vinna úr upplýsingum sem safnað hefur verið í þessum heimsóknum og komið hafa fram í könnunum og viðtölum tengdum verkefninu. Munum við segja frá úrvinnslu og niðurstöðum þegar þar að kemur.
Í hópnum sem heimsótti okkur voru átta kennarar sem starfa í Danmörku og einn sem starfar á Grænlandi. Hafði hópurinn heyrt eitt og annað um skólann, frá fulltrúum okkar í verkefninu, og var ekki að kaupa allt sem þar kom fram en í heimsókninni sáu hinir erlendu gestir að þar var ekki farið með neinar ýkjur. Það sem kom þeim mest á óvart var sú ábyrgð sem nemendur í skólanum taka á eigin námi, hversu andrúmsloftið í skólanum var afslappað og þægilegt, hversu mikið frelsi nemendur hafa til að sinna náminu eftir sínu höfði og með hvað fjölbreyttum hætti nemendur geta unnið verkefni sín þar sem styrkleikar þeirra njóta sín. Gestirnir hlýddu á kynningar frá bæði nemendum og kennurum og voru þeir sérstaklega heillaðir af innihaldsríkri og upplýsandi kynningu frá nemendaráði. Gestirnir áttu einnig viðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur og það kom þeim skemmtilega á óvart hversu mikill samhljómur var með öllum þeim sem rætt var við. Allir innan skólasamfélagsins höfðu sömu sögu að segja af ágæti námsskipulagsins, höfðu sömu upplifunina af skólabragnum og þótti vænt um skólann sinn. Var heimsókn þessi hin ánægjulegasta og alltaf er gott að fá að spegla sig í augum annarra. Myndir