Fréttir

Vinasambönd án tillits til landamæra

Eins og við sögðum frá á dögunum þá dvaldi 15 manna hópur lettneskra nemenda, þrír kennarar þeirra og skólastjóri í Fjallabyggð alla síðustu viku til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Verkefnið er styrkt af Nordplus og snýst um að kynna sér óáþreifanlegan menningararf Íslands. Hinir erlendu gestir komu frá bænum Saldus, þar sem búa um tíu þúsund manns, og voru þeir í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR.
Lesa meira

Samstarfsverkefni um menningararf

Þessa viku dvelur 15 manna hópur lettneskra nemenda og þrír kennarar þeirra í Fjallabyggð til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Þetta er Nordplus verkefni sem snýst um að kynna sér menningararf Íslands, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Hinir erlendu gestir koma frá Saldus vidusskola sem er í bænum Saldus þar sem búa um tíu þúsund manns. Nemendurnir eru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fá þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.
Lesa meira

Nýtt nemendaráð tekið til starfa

Nemendafélagið Trölli er starfrækt við skólann og sér það um að skipuleggja félagsstarf nemenda. Fyrir nokkru var skipað í nýtt nemendaráð, hefur það þegar haldið fyrstu viðburði vetrarins og fleiri eru á döfinni ásamt nýju spennandi verkefni. Í ráðinu frá síðustu önn eru Hanna Valdís Hólmarsdóttir og Víkingur Ólfjörð Daníelsson og ný komu inn Auður Guðbjörg Gautadóttir, Guðrún Ósk Auðunsdóttir og Ólafur Styrmir Ólafsson. Sem fyrr var hugað sérstaklega að kynjahlutfalli við val í ráðið. Nýtt nemendaráð mun halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið síðustu ár þ.e. að krydda daglegt líf í skólanum með ýmsum minni viðburðum á skólatíma og standa fyrir stærri viðburðum á kvöldin. Hinir vinsælu þemadagar á miðvikudögum eru t.d. komnir í gang þar sem nemendur og starfsfólk mæta í skólann klædd eftir mismunandi þemum og nýnemadagurinn var haldinn í byrjun september. Tveir stærstu viðburðirnir í félagslífinu eru í lok hvorrar annar, jólakvöld í byrjun desember og svo árshátíð að vori, er mikið í þá lagt og hefur þátttaka verið mjög góð síðustu ár. Nýja verkefnið sem nemendaráð er nú að vinna að er ferð ráðsins til Danmerkur. Þar er hugmyndin að heimsækja skólann Ørestad Gymnasium í Kaupmannahöfn, kynna sér starfsemi hans og ekki síst hvernig nemendaráðið þar starfar. Vinnur ráðið nú að umsókn að Erasmus+ styrk til ferðarinnar. Nemendaráði til halds og trausts við skipulag viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi skólans, en rík áhersla er lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.
Lesa meira

Góðar umræður á Forvarnardeginum

Menntaskólinn á Tröllaskaga er heilsueflandi framhaldsskóli og hér er hugað að andlegri- sem líkamlegri heilsu nemenda og starfsfólks með ýmsum hætti. Fastur liður í forvarnarstarfi skólans er þátttaka í Forvarnardeginum sem settur er þann 2. október ár hvert en hann er nú haldinn í 19. sinn. Dagskráin er hugsuð fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Yfirskrift Forvarnardagsins í ár er Hugum að verndandi þáttum og vellíðan í lífi barna og ungmenna með kærleik!
Lesa meira

Listamaður mánaðarins - Pia Rakel Sverrisdóttir

Undanfarin ár hefur listafólki af nærsvæði skólans verið boðið að sýna verk sín í sal skólans og nú hefur ný sýning verið sett upp þar. Sýningin kallast ÍSA-VATNA-HEIMUR og samanstendur af glermyndum, ljósmyndum og blýantsteikningum á pergamentpappír eftir Piu Rakel Sverrisdóttur. Eftir nám í arkitektúr og hönnun er samspil listaverka og rýmis henni afar hugleikið og í verkunum á þessari sýningu sækir hún m.a. innblástur til landslagsins í Ólafsfirði; fjöllin háu og vatnið inn af firðinum með furðufiskum og leyndum ævintýrum. Sýningin verður opin út október, á opnunartíma skólans, og er öllum velkomið að líta inn og skoða.
Lesa meira

Flaggað á fánadegi heimsmarkmiðanna

Fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun er 25. september og er hann nú haldinn í annað sinn á Íslandi. UN Global Compact og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að deginum hér á landi. Menntaskólinn á Tröllaskaga vinnur markvisst með heimsmarkmiðin og var því flaggað við skólann í tilefni dagsins.
Lesa meira

517 nemendur stunda nú nám við MTR

Á þessari önn eru 517 nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga og eru það heldur fleiri en á síðustu önn. Flestir þeirra stunda fjarnám við skólann en eru samt sem áður með MTR sem aðalskóla. Fjarnemarnir eru búsettir víðsvegar um landið og nokkrir erlendis en meginþorri þeirra kemur af suðvesturhorninu. Kjörnámsbraut er fjölmennasta brautin þar velja nemendur þá sérhæfingu sem þeir vilja leggja áherslu á og skipuleggja námið í samráði við námsráðgjafa. Næst fjölmennust er félags- og hugvísindabrautin. Starfsfólk skólans telur tæplega 30 manns og er það svipaður fjöldi og síðustu ár.
Lesa meira

Fræðsla um frið og mannréttindi

Í tilefni af Alþjóðlegum degi friðar, sem haldinn er 21. september ár hvert, var þessi vika í skólanum tileinkuð fræðslu um málefni friðar og unnin voru ýmis verkefni sem tengjast boðskap fyrir friði. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Nemendur og kennarar í áfanga sem fjallar um umhverfismál og sjálfbærni skipulögðu dagskrá vikunnar í samstarfi við Idu Semey, kennara skólans, sem hefur verið leiðandi í vinnu með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna innan skólans.
Lesa meira

Friðarvika í MTR

Alþjóðlegur dagur friðar er haldinn 21. september ár hvert. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Árið 2001 var dagurinn gerður að alþjóðlegum degi friðsamlegra aðgerða og vopnahlés. Sameinuðu þjóðirnar bjóða öllum þjóðum og íbúum heims að stöðva átök og hernaðaraðgerðir á deginum og að öðru leyti minnast dagsins með vitundarvakningu í menntastofnunum og hjá almenningi um málefni er snúa að friði. Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli en UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization) er Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Á vegum hennar er starfrækt alþjóðlegt samstarfsnet skóla sem kallast UNESCO-skólar. Meginmarkmið UNESCO er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tekur ákvörðun um að ákveðnir dagar, vikur, ár og jafnvel áratugir skuli helgaðir tilteknum málefnum á vettvangi samtakanna. Síðastliðið vor völdu nemendur og kennarar MTR þrjá þessara daga til að vinna með á haustönn. Einn þeirra sem varð fyrir valinu var alþjóðadagur friðar og var ákveðið að núverandi vika væri helguð fræðslu um málefni friðar og unnin yrðu ýmis verkefni sem tengjast boðskap fyrir friði. Nemendur og kennarar í áfanga sem fjallar um umhverfismál og sjálfbærni skipulögðu vikuna í samstarfi við Idu Semey, kennara skólans, sem hefur verið leiðandi í vinnu með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna innan skólans. Dagskráin hófst að morgni þriðjudags með því að heimsmarkmiðafáninn var dreginn að húni og síðan voru sýnd nokkur stutt myndbönd sem vöktu nemendur og starfsfólk til umhugsunar um mikilvægi friðar. Að þeim loknum tóku við skapandi smiðjur þar sem unnið var með friðarmerki. Ólafsfirðingurinn, Klara Mist Pálsdóttir, flutti loks erindi þar sem hún sagði frá starfi sínu hjá samtökunum Læknar án landamæra. Sagði hún frá því hvernig samtökin starfa og lagði áherslu á að það væru ekki bara læknar og hjúkrunarfólk sem starfaði fyrir samtökin því ýmis önnur störf þarf að inna af hendi svo hægt sé að veita þá aðstoð sem samtökin gera. Sagði hún síðan frá verkefnum sem hún hefur tekið þátt í í Afríku og brá upp myndum sem sýndu þær fjölbreyttu aðstæður sem starfsfólkið býr og starfar við. Hvatti hún nemendur til að leggja sitt af mörkum til friðar og tók undir með kennurum skólans að erlend samstarfsverkefni, eins og nemendur MTR hafa mikil tækifæri til að taka þátt í á vegum skólans, vekti þau til umhugsunar um mismunandi aðstæður og menningu meðal þjóða heimsins. Mjög gott væri að hafa slík verkefni á ferilskrá sinni ef þau ætluðu t.d. að sækja um starf hjá svona hjálparsamtökum eða annars staðar þar sem samvinna og víðsýni væru mikilvæg. Eins lagði hún áherslu á að góð tungumálakunnátta opnaði ýmsar dyr. Næstu daga verður unnið áfram að því að vekja athygli á mikilvægi friðar í heiminum. Munum við gera þeirri vinnu skil síðar í vikunni.
Lesa meira

Bryndís Klara Birgisdóttir

Vegna útfarar Bryndísar Klöru Birgisdóttur nemanda Verzlunarskóla Íslands verður flaggað í hálfa stöng í dag. Örlög Bryndísar Klöru hafa haft sterk áhrif á nemendur og starfsfólk skólans. Sendum við aðstandendum hennar, vinum, samnemendum og starfsfólki Verzlunarskóla Íslands okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Lesa meira