Upphefðin kemur að utan

Nemendur með viðurkenningu mynd GK
Nemendur með viðurkenningu mynd GK

Í skólanum er leitað ýmissa leiða til að gera kennsluna sem árangursríkasta. Kennarar nota m.a. fjölbreyttar kennsluaðferðir og ýmis kennsluforrit í þessum tilgangi. Undanfarin ár hafa enskukennarar skólans töluvert notað vefsíðu sem kallast Vocabulary.com sem nýtist mjög vel til að auka orðaforða nemenda. Forritið er bandarískt og undanfarin ár hafa þeir skólar í Bandaríkjunum og Kanada sem bestum árangri hafa náð við notkun forritsins verið verðlaunaðir. Á síðustu önn var ákveðið að hafa einnig verðlaun fyrir skóla utan þessara ríkja og viti menn Menntaskólinn á Tröllaskaga var þar meðal þeirra tíu efstu. Fékk skólinn sent sérstakt flagg á dögunum þessu til staðfestingar.

Vefsíðan er notuð í öllum enskuáföngum skólans og hefur reynst sérstaklega vel þar sem hún lagar sig að þörfum hvers notanda. Á skólaárinu 2024-25 hafa nemendur skólans svarað rúmlega 350 þúsund spurningum til að bæta orðaforða sinn og þar af tæplega 270 þúsund rétt! Á þeim 2300 klukkutímum sem þeir hafa samtals tekist á við orðaforðaþrautir síðunnar hafa þeir tileinkað sér tæplega 13 þúsund ný orð en það gera þeir með því að sýna fram á að þeir geti notað og skilið þau í mismunandi samhengi.

Allir geta spreytt sig á æfingum þessarar síðu og aukið þannig orðaforða sinn í ensku. Hér er slóðin https://www.vocabulary.com/