Tæknilæsi fyrir 60+ í Menntaskólanum á Tröllaskaga

Tæknilæsi fyrir 60
Tæknilæsi fyrir 60

Í síðustu viku hófst spennandi verkefni í skólanum sem miðar að því að auka tæknilæsi meðal íbúa Fjallabyggðar sem eru 60 ára og eldri. Verkefnið býður upp á einstaklingsmiðaða kennslu þar sem nemendur við skólann sjá um leiðsögn undir handleiðslu Ingu Eiríksdóttur, kennara skólans. Kennslan fer fram á persónulegum nótum og áhersla er lögð á að mæta þörfum og áhuga hvers og eins þannig að þátttakendur geta lært á eigin hraða og fengið aðstoð við þau tæki og forrit sem þeir sjá sér hag í að nota í daglegu lífi.

Vel á annan tug eldra fólks mætti í fyrstu kennslustundina, sem var sl. fimmtudag. Það mátti greina smá taugatitring og óöryggi í byrjun, bæði hjá þeim eldri sem og þeim yngri, en það breyttist fljótt og andrúmsloftið varð hið ánægjulegasta þegar tilsögnin hófst. Inga hóf stundina á því að fara yfir tilgang og framkvæmd verkefnisins og síðan voru nemendur skólans paraðir við einn til tvo af eldri kynslóðinni til að segja þeim til. Snjallsímarnir voru fyrsta verkefni flestra í fyrstu lotu og algengstu viðfangsefni voru að sýna hvernig ætti að hreinsa út óþörf öpp, setja þau helstu á heimaskjá og spá í facebook. Var virkilega gaman að sjá kynslóðirnar spá í málin saman, eiga góðar og gagnlegar samræður og gleyma sér yfir viðfangsefnunum.

Markmið verkefnisins er að styrkja tæknifærni eldra fólks og auka sjálfstæði þeirra í notkun stafrænna lausna. Með því að efla tækniþekkingu skapast tækifæri til að auðvelda samskipti við fjölskyldu og vini, nýta sér þjónustu á netinu og taka þátt í samfélaginu á nýjan hátt.

Nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga fá einnig mikið út úr verkefninu. Þeir öðlast dýrmæta reynslu af kennslu og samskiptum við fólk á ólíkum aldri og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Þetta samspil kynslóða er stór þáttur í því að styrkja tengsl í Fjallabyggð og skapa jákvæða upplifun fyrir alla þátttakendur. Verkefnið er frábært dæmi um nýsköpun í menntun þar sem skólar og samfélög vinna saman að því að bæta lífsgæði íbúa.

Öllum íbúum Fjallabyggðar 60 ára og eldri er boðið að nýta sér þetta áhugaverða úrræði og eru kennslustundir á fimmtudögum kl. 13.15 - 14.15 fram á vorið á starfstíma skólans. Myndir