MTR í efstu þremur sætunum í rúman áratug

Afhending viðurkenningar
Afhending viðurkenningar

Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu tilkynnti um valið á Stofnun ársins 2024 við hátíðlega athöfn í gær. Titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir og starfsstaðir sem þykja skara fram úr á sviði mannauðsmála að mati starfsfólks. Stofnun ársins nær til 35 þúsund starfsmanna á opinberum vinnumarkaði og tilgangurinn er fyrst og fremst að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Styrkja þannig starfsumhverfi starfsfólks út frá þeirra sjónarhorni og veita í leiðinni stjórnendum mikilvæg verkfæri til að vinna að umbótum á sínum vinnustað.

Menntaskólinn á Tröllaskaga varð í þriðja sæti í hópi smærri stofnana í Stofnun ársins að þessu sinni og hefur nú verið í einu af efstu þremur sætunum í þeim flokki í rúman áratug. Inga Þórunn Waage, Kolbrún Halldórsdóttir og Kristín Anna Guðmundsdóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hönd skólans.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og fjölmargra annarra stofnana og vinnustaða. Niðurstöður könnunarinnar veita bæði mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.