Fréttir

Tölvuviðgerðir í miðannarviku

Eftir námskeiðið eiga nemendur að skilja hvernig tölvur og tölvukerfi eru uppfærð, bilanagreind og hvernig viðgerðir tölvubúnaðar fara fram. Nemendur læra að hugsa um eigin fartölvu, rykhreinsa, skipta um harða diskinn og fleira. Þeir eiga líka að fá innsýn í það hvernig Windows stýrikerfi er sett upp og hver er virkni ýmiss hugbúnaðar fyrir bilanagreininigu og viðgerðir.
Lesa meira

Miðannarvika

Nemendur fást við ný og fjölbreytt verkefni í vikunni og njóta leiðsagnar nýrra kennara. Heilsuvernd og hreyfing heitir einn áfanginn þar sem markmiðið er að efla vitund um heilsusamlegt líferni, hreyfingu og holla næringu. Áfanginn er hugsaður sem góður undirbúningur fyrir nemendur sem hyggja á nám í heilbrigðis- eða íþróttafræðum.
Lesa meira

Gestir að austan

Kennarar í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupsstað nota daginn í dag til að kynna sér nám og kennslu í MTR. Þetta er í fyrsta sinn sem þeir taka sér starfsdag á miðri önn. Verkgreinakennarar fóru í VMA en aðrir kennarar komu til Ólafsfjarðar og hafa í dag flakkað milli kennslustofa og hitt kennara og nemendur að máli. Heimsóknin er hin ánægjulegasta og gott til þess að vita að kennarar í öðrum framhaldsskóla telji sig hafa eitthvað að sækja í yngsta framhaldsskóla landsins.
Lesa meira

Óvenjuleg samþætting

Það er ekki alvanalegt að samþætta nám í tungumálum og tónlist en Ida Semey spænskukennari og Guido Thomas tónlistarkennari reyndu það í morgun. Notað var lagið Bésame mucho, spilað myndband þar sem textinn var skráður og nemendur slógu taktinn með trommum og hristum og sungu með.
Lesa meira

Öskudagsglens

Gestkvæmt hefur verið í Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag og gestirnir á ýmsum aldri. Flestir hafa stillt sér upp og sungið í hljóðnema í anddyrinu. Yngsti gesturinn sem söng einn, tveggja ára strákur, tók "Burtu með fordóma" en annað vinsælt lag í ár er "Frost er úti fuglinn minn". Nemendur skólans hafa líka sumir tekið lagið og alltaf lumar Björg á sætindum fyrir sönginn. Metið í skarti á væntanlega skólameistari sem skrýddist ekta karnivalbúningi frá Río de Janeiro.
Lesa meira

Vetrarfjallamennska

Sjö krakkar í Útivistaráfanganum ÚTI2A05 dvöldu á Bjarnargili í Fljótum við æfingar um helgina. Þau reyndu nýja fjallaskíðabúnaðinn og lærðu að ganga á skinnum ásamt því að skíða í ótroðnum snjó. Einnig kynntust þau vetrarfjallamennsku, fóru í mikinn bratta og lærðu að bremsa sig af á ísöxi.
Lesa meira

Frjáls sköpun

Nemendur upplifðu gleði og frelsi í áfanganum Sköpun 2A. Þemað var "Tie dai" fatalitun og málun með frjálsri aðferð. Allir höfðu gaman af. Birgitta Þorsteinsdóttir málaði afar litríka skyrtu, sem hún segist geta útskrifast í en verði að minnsta kosti sumarskyrta. Linda Björg Arnheiðardóttir málaði við lag DubFX "Fly with me". Henni fannst skemmtilegast að upplifa frelsi með frjálsri sköpun í stórum ramma.
Lesa meira

Menningarlæsi

Nokkrir útskriftarnemendur á starfsbraut spreyta sig á þessari önn á áfanga sem hefur hlotið nafið menningarlæsi. Áfanginn er kenndur í fyrsta sinn. Í honum er fjallað um ýmsa stórviðburði og tímamót, bæði í veraldarsögunni og hér á sögueyjunni. Atkvæðamiklir gerendur sögunnar fá mikið rými, svo sem landkönnuðir, uppfinningamenn og stríðsherrar.
Lesa meira

„Brjálaðir bastarðar“ verðlaunaðir

Myndbandið „Brjálaðir bastarðar – Gemmér Bassann“ hlaut verðlaun sem best leikna myndin á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna í Fjölbrautaskólanum við Ármúla á laugardag. Grétar Áki, Örn Elí, Heimir Ingi, Ívar Örn, Hákon Leó, Konni Gotta og Jón Árni gerðu myndbandið fyrir árshátíð nemendafélags MTR á síðasta ári. Hringt var í Örn Elí af hátíðinni þegar verið var að veita verðlaunin. Hann taldi líklegt að verðlaunin hefðu fengist út á hárgreiðslu piltanna og vakti sú athugasemd hlátur viðstaddra.
Lesa meira

„Brjálaðir bastarðar“ keppa

Á þriðja tug stuttmynda keppa á Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna sem haldin verður í Fjölbrautaskólanum við Ármúla á morgun, laugardag. Menntskælingar á Tröllaskaga sendu í keppnina myndbandið „Brjálaðir bastarðar – gemmér bassann“. Lagið er eftir Heimi Inga Grétarsson.
Lesa meira