Fréttir

“Hið”... listsýning

Laugardaginn 13. apríl kl.14:00 opna fimm listnemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga samsýninguna ,,Hið"... Sýningin er í Bláa húsinu Gallerý við smábátahöfnina á Siglufirði Nemendurnir eru allir í áfanganum MYL3B og hafa verið að skoða myndlist frá sjónarhóli fagurfræðinnar. Sýningin samanstendur af verkum sem fjalla um hið fagra, hið háleita og hið gróteska. Túlkun þeirra er ólík og nálgast þau viðfangsefnið hver með sínum hætti. Sýningin verður opin helgina 13. - 14. apríl og síðan eftir samkomulagi. Allir eru velkomnir!
Lesa meira

Æfing í fjallamennsku

Fjallamennska er hluti af því sem nemendur læra til að fá réttindi sem Björgunarmaður 1. Kennslan er bæði bókleg og verkleg. Uppsetning trygginga í snjó, að bremsa sig af með ísexi og ganga og klifra á mannbroddum var meðal þess sem æft var í Múlakollu um síðustu helgi. Kennari var Freyr Ingi Björnsson, fjallamaður frá Landsbjörgu.
Lesa meira

Gefstu aldrei upp!

Kristján Guðmundsson, ungur Dalvíkingur slasaðist mjög alvarlega í vinnuslysi fyrir tæpum tveimur árum. Hann var nær dauða en lífi eftir slysið. Kristján greindi nemendum frá því í fyrirlestri í dag hve langt er hægt að komast á jákvæðninni einni. Frásögn hans var átakanleg en líka full af húmor.
Lesa meira

Söngkeppni framhaldsskólanna

Keppnin fer fram á Akureyri um aðra helgi og verður fulltrúi MTR Lilja Björk Jónsdóttir með lagið Take me or leave me úr söngleiknum RENT. Keppnin verður stærri og með nokkuð öðru sniði en síðustu ár. Undankeppnin fer fram föstudagskvöldið 19. apríl og komast 12 skólar áfram. Aðalkeppnin verður svo á laugardagskvöldið og verður henni útvarpað beint á Rás 2.
Lesa meira

Nemendur MTR sýna í USA

Listljósmyndasýning fimm nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga var opnuð í Quixnotic kaffihúsinu í St Paul í Minneapolis, Minnesota á laugardaginn. Graycloud Rios listljósmyndari sem kom og kenndi hér í miðannarviku, hreifst mjög af verkum nemenda og bauð þeim að sýna þar undir þemanu "My Iceland". Myndirnar eru í kaffihúsinu og litlum sýningarsal við hlið þess og njóta sín mjög vel.
Lesa meira

Framboðskynning

Gestir í stjórnmálafræðitíma á Kleifum kl. 13:30-14:30 í dag: Aðalheiður Ámundadóttir, 1. sæti á lista Pírata, Höskuldur Þórhallsson, 2. sæti á lista Framsóknarflokks og Jónína Rós Guðmundsdóttir, 3 sæti á lista Samfylkingar. Tíminn er opinn – nemendur úr öðrum áföngum og starfsmenn skólans eru velkomnir á kynningurna.
Lesa meira

Óhefðbundið tónlistarnám

Í Inngangi að listum læra nemendur meðal annars að semja tónlist og leika á hljóðfæri. Krakkar sem aldrei höfðu leikið á nokkurt hljóðfæri lærðu á einum mánuði fjögur lög. Þau notuðu trommur, bassa, gítar, hljómborð og málmspil og skiptust á um hljóðfærin. Sami hljómagangur var í öllum lögunum.
Lesa meira

Páskafríi að ljúka.

Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá á morgun. Tómlegt hefur verið á göngum skólans yfir hátíðina og ærin Dolly og lömbin hennar, Barny og Bonny, hafa getað hlaupið um að vild. Erla, Fanney Björg, Hulda og Lóa Rós gerðu myndbandið WHEN THE WOODEN LAMBS RAN AWAY í miðannarvikunni undir leiðsögn Alice Liu.
Lesa meira

Uppákoma

Nemendafélagið Trölli stóð fyrir uppákomu í anddyri skólans í hádeginu til að létta lundina á þessum síðasta kennslusdegi fyrir páska. Leikir, þrautir og léttar æfingar voru á dagskránni og hægt að vinna gjafabréf frá ýmsum fyrirtækjum auk miða á árshátíð skólans sem haldin verður á Kaffi Rauðku í kvöld. Kristinn Arnar Hauksson nemandi á listabraut tók myndirnar.
Lesa meira

Bakkabræður keppa

Úrslit ráðast í stuttmyndakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna í kvöld. Framlag nemenda á starfsbraut MTR er myndin Bakkabræður og silfur hafsins sem tekin var á Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík á haustönninni. Allir nemendurnir hafa hlutverk í myndinni og sumir fleiri en eitt. Nemendur önnuðust einnig klippingu og frágang myndarinnar.
Lesa meira