MTR vekur athygli fyrir nýsköpun

Rögnvaldur og Andri Viðar
Rögnvaldur og Andri Viðar
Menntaskólinn á Tröllaskaga var fyrsti framhaldsskóli landsins til að taka upp skylduáfanga í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Það er Tröllaskagaáfangi. Einn annar skóli, Verzlunarskóli Íslands, hefur nú gert slíkt námskeið að skyldu fyrir alla nemendur. Þetta kemur fram í nýrri skýslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í framhaldsskólum.

Menntaskólinn á Tröllaskaga var fyrsti framhaldsskóli landsins til að taka upp skylduáfanga í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Það er Tröllaskagaáfangi. Einn annar skóli, Verzlunarskóli Íslands, hefur nú gert slíkt námskeið að skyldu fyrir alla nemendur. Þetta kemur fram í nýrri skýslu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um stöðu nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í framhaldsskólum.

Könnun í framhaldsskólum sýnir að þriðjungur þeirra býður ekki upp á neitt formlegt nám í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt. Þó nokkuð sé um valnámskeið á þessu sviði sýnir könnunin að formleg kennsla í þessum fræðum er lítill hluti af menntun nemenda í íslenskum framhaldsskólum. Stjórnendur skólanna eru hins vegar almennt opnir fyrir því að efla slíka menntun. Mikil þörf er talin á því að efla skapandi hæfni og getu til að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd og nota nýjar lausnir.

Nýsköpunaráfanginn Tröllaskagaáfangi er nú kenndur í fimmta sinn en í fjórða sinn í núverandi formi. Þema áfangans síðustu tvö ár hefur ýmist verið afþreying og ferðaþjónusta eða sjávarnytjar og tengd starfsemi. Námið byggist að hluta á framlagi frumkvöðla í nærsamfélaginu sem hafa verið áhugasamir og örlátir á tíma sinn. Fyrir utan þennan áfanga er öllum MTR-nemum skylt að taka almennan inngang að listum sem hefur það meginmarkmið að efla frumkvæði og sköpun í víðu samhengi. Einkunnarorð skólans, frumkvæði – sköpun – áræði, vísa í sömu átt.

Á myndinni eru Andri Viðar Víglundsson og Rögnvaldur Jónsson sjómenn á togaranum Kleifabergi. Þeir voru meðal gesta í Tröllaskagaáfanga á vorönn 2013 þegar þemað var sjávarnytjar og tengd starfsemi.

Á þessari slóð er skýrslan:

http://nmi.outcome.is/media/187915/lokask_rsla-svanborg-innanh_sprentun.pdf

Titill hennar er: Staða nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar á framhaldsskólastigi á Íslandi og mat á þörf skóla og vinnumarkaðar fyrir fólk með slíka menntun. Höfundur er dr. Svanborg R. Jónsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.