Fréttir

Enginn sumarskóli

Vegna fjölda fyrirspurna er rétt að benda á að Menntaskólinn á Tröllaskaga er ekki með sumarskóla. Hægt er að skrá sig í fjarnám á haust- og vorönnum. Innritun á haustönn hófst 4. apríl á vef skólans.
Lesa meira

Stórkostlegt tækifæri fyrir útivistarfólk og ævintýramennsku.

Nú á haustönn mun Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) kenna annars vegar útivist og hins vegar fjallamennsku í 3 lotum yfir önnina. Tvær af lotunum verða þriggja daga og ein tveggja daga en ásamt því verður námsefni og verkefnaskil í gegnum netið (moodle). Ekki láta þetta framhjá ykkur fara. Hér að neðan eru tvö myndbönd sem gefa innsýn í starfið sem fram fer í MTR og hvetjum við þá sem hafa áhuga á að horfa á þau og hafa samband ef einhverjar spurningar eru. Útivist: https://www.youtube.com/watch?v=8uOJJL8oMK8 Fjallamennska: https://www.youtube.com/watch?v=nBM-n6mlq8U&list=PLo-ay_RwYdJeZoCJSSkfTbubgSdrf72zF&index=2 Hægt er að sækja um á heimasíðu skólans https://www.mtr.is/is/fjarnam/skraning-i-fjarnam eða senda tölvupóst á birgitta@mtr.is
Lesa meira

Áhrif og stuðningur á vinnudegi

Monica Johansson frá Gautaborgarháskóla fræddi starfsmenn um umhyggju og stuðning við nemendur með sérþarfir. Rannsóknir hennar sýna að ólíkar aðferðir við að veita þessa þjónustu skila mismunandi árangri. Það virkar vel að kennarar hafi miklar væntingar til nemenda. Víðtækari stuðningur en í kennslustundum virðist líka virka vel. Staðsetning og ýmis ytri tákn í kennslustofunni og skólahúsnæðinu almennt virðast líka hafa nokkur áhrif. Það virkar vel að sýna Nóbelsverðlaunahafa og önnur tákn um virðingu og þýðingu náms og námsgreina. Valgerður S. Bjarnadóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson fjölluðu um hvers konar áhrif nemendur geta haft á eigið nám. Rannsóknir sýna að það hefur jákvæð áhrif á skuldbindingar og árangur nemenda ef þeir hafa áhrif á námið sitt. En rannsóknir benda líka til þess að almennt hafi nemendur lítil áhrif. Kennarar eru ekki alltaf klókir að draga nemendur inn og nemendur upplifa oft að formlegu leiðirnar til að hafa áhrfi séu ekki raunverulegar. Valgerður sagði frá því að í víðtækri könnun í níu framhaldsskólum hefði verið algengt að nemendur segðu bara „við höfum aldrei hugsað um þetta“. Þetta sýnir að ala þarf nemendur upp í því að hafa áhrif. Í einum skólanna í könnuninni var var það greinilega hefðin og einn nemandi svaraði spuringunni um áhrif nemenda á þá leið að það væri „meira svona eins og við séum að vinna saman ... við erum að fara saman að sameiginlegum markmiðum“. En í öðrum skólum kom rannsakendum á óvart hve nemendur voru fjarri því að gera sér grein fyrir möguleikum til að hafa áhrif á námið sitt. Miklar og fjörugar umræður urðu í starfsmannahópnum í framhaldi af fyrirlestrunum. Síðari hluta vinnudagsins var fjallað um framtíðina eins og hún birtist á margvíslegum erlendum fræðslu- og kennslumyndböndum og hvernig við ættum sem kennarar og skólastofnun að bregðast breytingum á komandi tíð. Kennararnir Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir hafa fengið styrk úr Sprotasjóði til að þróa áfangann vélmannafræði sem er á þessu sviði og getur gagnast nemendum á öllu brautum skólans og jafnvel líka nemendum í efri bekkjum grunnskóla. Að auki var eins og venjulega á vinnudögum rætt um það sem fólki var efst í huga eftir önnin og hvað helst væri framundan á haustönninni.
Lesa meira

Fjórtánda brautskráningin

Sautján nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í morgun og hafa þá 160 lokið námi á þeim sjö árum sem skólinn hefur starfað. Sjö þeirra sem brautskráðust í morgun voru fjarnemar og voru þeir allir viðstaddir utan einn sem býr í Ameríku. Þetta er stærsti fjarnemahópur sem skólinn hefur útskrifað. Á vorönn voru nemendur við skólann um 340 og hafa aldrei verið fleiri. Þar af voru fjarnemar um 240. Átta nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut – íþróttasviði, tveir af náttúruvísindabraut, tveir af listabraut – myndlistarsviði og tónlistarsviði, tveir af starfsbraut og einn lauk viðbót við starfsnám til stúdentsprófs.
Lesa meira

Útskrift laugardaginn 20. maí kl. 11:00

Vorútskrift skólans verður laugardaginn 20. maí kl. 11:00 í Ólafsfjarðarkirkju. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Lesa meira

Fjölbreytt Vorsýning

Vorsýning skólans hófst með tónlistaratriðum. Sýningin einkennist af litagleði og gefur ágætt yfirlit yfir starfið í skólanum í vetur. Listabrautarnemar sýna meðal annars stór og tjáningarrík málverk og fjölbreyttar portrettmyndir. Það gefur til dæmis að líta portrett af Grími Grímssyni, lögregluforingja. Nemendur á starfsbraut koma sterkir inn með stuttmynd, nokkur þrívíddarverk og ljósmyndir úr starfi brautarinnar síðustu ár. Margvísleg og frumleg verkefni nemenda á náttúrufræðibraut fylla kennslustofu brautarinnar. Myndbönd nema í ferðalandafræði sýna ferðamöguleika sem nemendur hafa kynnt sér og skipulagt út í ystu æsar. Það kom þeim á óvart hvað hægt er að ferðast ódýrt ef maður kann að leita á netinu og veit hvað maður vill. Meðal verkefna er interrail ferð um Evrópu, bakpokaferð um Asíu og safariferð til Afríku. Nemar í jákvæðri sálfræði sýna efni um tilfinningar og hvernig hægt er að örva með skipulegum hætti jákvæðar tifinningar svo sem gleði, stolt, ást og þakklæti. Nemendur í frumkvöðlafræði völdu sér stað og markaðssettu hann. Eitt skilyrðanna í markaðssetningunni var að búa til minjagrip og eru nokkrir þeirra á sýningunni. Reyndur skólamaður sem skoðaði sýninguna sagðist sjá þess merki að leitað væri eftir styrkleikum nemenda í skólastarfinu. Starfsmenn og nemendur þakka þeim fjölmörgu gestum sem þegar hafa skoðað sýninguna og vekja athygli á því að hún verður opin frá 9:00-16:00 frá 15. – 19. maí.
Lesa meira

Vorsýning 2017

Vorsýning skólans verður haldin laugardaginn 13. maí frá 13:00 - 16:00, allir hjartanlega velkomnir. Nemendur verða við verk sín og ræða þau. Verkin má síðan skoða í skólanum á opnunartíma skólans til útskriftardags 20. maí.
Lesa meira

MTR – Stofnun ársins

Þriðja árið í röð er Menntaskólinn á Tröllaskaga stofnun ársins í flokki meðalstórra stofnana, með 20-49 starfsmenn. MTR var með næsthæstu einkunn allra stofnana, aðeins Persónuvernd var hærri. Viðurkenningarnar voru afhentar í höfuðstaðnum síðdegis í gær. Val á fyrirmyndarstofnunum er í höndum starfsmanna sem taka þátt í könnun á vegum SFR stéttarfélags, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og VR. Þetta er ein stærsta vinnumarkaðskönnun sem gerð er árlega hér á landi. Tilgangur hennar er að hvetja stjórnendur til að gera vel við starfsmenn. Spurt er um trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti á vinnustaðnum. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari og kennararnir Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir fóru suður og voru við afhendingu viðurkenningarinnar í gær.
Lesa meira

Frábært kvöld

Góðgjörðarkvöld á Kaffi Klöru í gærkvöldi tókst sérlega vel. Gestir voru fjölmargir og nutu þeir þríréttaðrar máltíðar sem nemendur í áfanganum „matur og menning“ elduðu og báru fram. Gestirnir nutu samverunnar og matarins og skemmtu sér hið besta. Boðnir voru upp munir sem gerðir hafa verið í Iðjunni, vinnustofu fatlaðra á Siglufirði. Samtals söfnuðust liðlega hundrað og áttatíu þúsund krónur og verður upphæðin afhent Iðjunni á Siglufirði á morgun, föstudag. Til að gera þennan viðburð mögulegan lögðu margir hönd á plóg, meðal annars með því að útvega matföng. Í þessum hópi voru kjörbúðirnar í Ólafsfirði og á Siglufirði, Kaffihúsið Fríða, Ramminn, Aðalbakarí á Siglufirði, Ölgerðin og fleiri. Þá lagði kennarinn í áfanganum, Ida Semey, fram veitingahús sitt Kaffi Klöru og alla aðstöðu þar í þágu þessa góða málefnis.
Lesa meira

Vélmennafræði

Menntaskólinn á Tröllaskaga fær eina milljón króna úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins til verkefnis sem ber þann dularfulla titil vélmennafræði. Féð verður notað til að skipulegja áfanga þar sem kennd verður samsetning og forritun á hinum ýmsu vélmennum, svo sem Little Bits, Oxobot, Lego Mindstorm, Sphero, Arduino o.fl., sem sagt fullt af græjum. Nemendur læra grunnatriði í rafmagnsfræði og forritun miðað við styrkleika hvers og eins. Unnið verður með hin ýmsu tæki og forrit í áfanganum. Áfanginn er samkenndur með starfsbraut til að auka samvinnu milli starfsbrautarnemenda og nemenda á öðrum brautum. Áfanginn getur bæði bæði verið valáfangi á hug- og félagsvísindabraut og náttúrufræðibraut. Kennarar verða Inga Eiríksdóttir og Birgitta Sigurðardóttir Að þessu sinni bárust Sprotasjóði 119 umsóknir um 266 milljónir. Veittir voru styrkir til 48 verkefna að upphæð rúmlega 61 milljón króna. Áherslur sjóðsins að þessu sinni voru „móðurmál í stafrænum heimi“, „lærdómssamfélag í skólastarfi“ og „leiðsagnarmat“.
Lesa meira