Stúnentar hópmynd GK
Sautján nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í morgun og hafa þá 160 lokið námi á þeim sjö árum sem skólinn hefur starfað. Sjö þeirra sem brautskráðust í morgun voru fjarnemar og voru þeir allir viðstaddir utan einn sem býr í Ameríku. Þetta er stærsti fjarnemahópur sem skólinn hefur útskrifað. Á vorönn voru nemendur við skólann um 340 og hafa aldrei verið fleiri. Þar af voru fjarnemar um 240. Átta nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut – íþróttasviði, tveir af náttúruvísindabraut, tveir af listabraut – myndlistarsviði og tónlistarsviði, tveir af starfsbraut og einn lauk viðbót við starfsnám til stúdentsprófs.
Lára Stefánsdóttir, skólameistari ræddi hraðar breytingar á vinnumarkaði og í samfélaginu í heild á líflegan hátt með dæmum úr eigin lífi þegar hún ávarpaði útskriftarhópinn. Hún sagði að mörg þau störf sem menn hefðu stundað í Ólafsfirði og á Siglufirði þegar hún kom þar fyrst væru ekki til í dag. Margvísleg ný störf hefðu orðið til sem menn hefði ekki órað fyrir þá. Hún hvatti nemendur til að læra það sem þeim þætti skemmtilegt og væru til í að vakna til á morgnana og gera allan daginn. Finnið ykkur líf sem þið njótið, lærið að vera hamingjusöm og eignist litríka daga með ástvinum, sagði Lára. Hún þakkaði að lokum fjarnemum fyrir að hafa lagt á sig langt ferðalag til að taka þátt í brautskráningarathöfninni. Starfsmenn litu á komu þeirra sem verðlaun til sín.
Tveir nýstúdentar fluttu ávarp, Erla Marý Sigurpálsdóttir, fyrir hönd staðnema og Hafrún Eva Kristjánsdóttir fyrir hönd fjarnema. Erla Marý sagði það besta við skólann hvað starfsfólkið væri alltaf hlýlegt og vingjarnlegt, hugsaði vel um andlega líðan nemenda og veitti góðan stuðning. Þá væri alltaf góður aðgangur að kennurum og ef vandamál kæmu upp hugsuðu starfsmenn bara í lausnum. Hafrún Eva sagði að vikufyrirkomulagið hentaði fjarnemum einstaklega vel. Það gerði þeim kleift að vinna og sinna börnum og fjölskyldu samhliða náminu. Hafrún Eva sagðist hafa fyllst eldmóði og metnaði í náminu og væri staðráðin í að gera eitthvað gott úr lífi sínu og dóttur sinnar. Hún þakkaði kennurunum fyrir að hafa trú á nemendum og styðja þá í blíðu og stríðu.
Sérstök verðlaun fyrir afburða námsárangur hlaut Erla Marý Sigurpálsdóttir sem var dúx skólans með 9,17 í meðaleinkunn. Hún fékk einnig verðlaun fyrir árangur í dönsku, ensku, íþróttum og stærðfræði.
Tvö tónlistaratriði skreyttu útskriftarathöfnina. Starfsmennirnir Edda Björg Jónsdóttir og Lísebet Hauksdóttir og nemandinn Haukur Orri Kristjánsson fluttu Víkivaka Valgeirs Guðjónssonar. Þá fluttu Ave Toninson og Zsuzsanna Bitay Love´s Greeting e. Edward Elgar.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari stýrði útskriftarathöfninni. Hjá henni kom meðal annars fram að starfsmenn á vorönn voru tuttugu og fimm. Í vetur hefur skólinn tekið þátt í mörgum fjölþjóðlegum verkefnum. Starfsmenn hafa farið víða, kynnt skólann og sótt fundi og ráðstefnur og fjöldi gesta frá mörgum ríkjum hefur sótt skólann heim og kynnt sér nám og kennslu. Þá veitti skólinn menntamálaráðuneytinu í Grænlandi ráðgjöf um skipulag fjarnáms á framhaldsskólastigi. Sjá tölulegar upplýsingar um skólastarfið og helstu viðfangsefni.