Mynd VÓE
Góðgjörðarkvöld á Kaffi Klöru í gærkvöldi tókst sérlega vel. Gestir voru fjölmargir og nutu þeir þríréttaðrar máltíðar sem nemendur í áfanganum „matur og menning“ elduðu og báru fram. Gestirnir nutu samverunnar og matarins og skemmtu sér hið besta. Boðnir voru upp munir sem gerðir hafa verið í Iðjunni, vinnustofu fatlaðra á Siglufirði. Samtals söfnuðust liðlega hundrað og áttatíu þúsund krónur og verður upphæðin afhent á Iðjunni á Siglufirði á morgun, föstudag. Til að gera þennan viðburð mögulegan lögðu margir hönd á plóg, meðal annars með því að útvega matföng. Í þessum hópi voru kjörbúðirnar í Ólafsfirði og á Siglufirði, Kaffihúsið Fríða, Ramminn, Aðalbakarí á Siglufirði, Ölgerðin og fleiri. Þá lagði kennarinn í áfanganum, Ida Semey, fram veitingahús sitt Kaffi Klöru og alla aðstöðu þar í þágu þessa góða málefnis.