Fréttir

Mötuneyti - loksins

Mikil tímamót urðu í MTR í gær þegar opnað var mötuneyti í skólanum. Lengi hafa bæði nemendur og starfsmenn þráð að fá framreiddan heitan mat í hádeginu. Nýi salurinn, Hrafnavogar, sem vígður var fyrr í haust er forsenda fyrir rekstri mötuneytisins. Á borðum fyrsta daginn var lasagna með kjötsósu, salati og hvítlauksbrauði. Góðir gestir voru í skólanum, kennarar í Framhaldsskólanum á Húsavík og nutu þeir máltíðarinnar með heimafólkinu. Könnun sem gerð var meðal nemenda og starfsmanna fyrr í haust leiddi í ljós að þeir vilja fjölbreyttan og hollan mat. Mötuneytið verður opið frá 9-15 en einni klukkustund skemur á föstudögum. Stefnt að því að bjóða upp á morgunmat með brauðmeti, ávöxtum, hollustudrykkjum o.fl. Gestir og gangandi eru velkomnir að skoða mötuneytið og reyna þjónustuna.
Lesa meira

Skólafundur í Hrafnavogum

Nemendalýðræði var á dagskrá skólafundar í morgun. Þar fjölluðu nemendur um hvernig þeir gætu komið hugmyndum sínum að og haft áhrif á nám sitt og starfið í skólanum. Einnig ræddu nemendur hugmyndir sínar um erlend samstarfsverkefni en skólinn er aðili að nokkrum slíkum verkefnum sem ýmist eru í gangi eða að hefjast. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skal halda skólafund að minnsta kosti einu sinni á ári og eiga starfsmenn og fulltrúar nemenda rétt til setu þar samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Í MTR hefur verið litið svo á að allir nemendur ættu rétt til að sitja fundinn og þeir hafa verið hvattir til að gera það. Nemendur hafa rætt í hópum sem ekki eru allt of stórir um ýmis hagsmuna- og áhugamál sín og hvernig hægt sé að sinna þeim á vettvangi skólans. Niðurstöðurnar notar skólinn síðan til að vinna að tillögum eða hugmyndum sem fram hafa komið í þeim anda sem niðurstöður hópvinnu nemenda segja til um. Jafnframt eru niðurstöðurnar kynntar skólanefnd.
Lesa meira

Nemendur í göngum

Nemendur í áfanganum „Sveitin mín“ skelltu sér í göngur á föstudag. Flestir gengu í Ólafsfirði en tveir í Flókadal og Siglufirði. Það er hluti af námsefni í áfanganum að læra að smala fé og taka þátt í fleiri störfum í sveitinni. Þátttaka í göngum reynir á líkamlegan þrótt, að geta lesið í landið og einnig að geta fylgt ákveðnu skipulagi við verk sem margir koma að. Allir nemendur voru skráðir fullgildir gangnamenn hjá einstökum bændum, flestir hjá Sveinbirni á Kálfsá enda er hann fjárflestur. Framlag nemenda til smölunar að þessu sinn var verulegt og báru bændur lof á dugnað þeirra og úthald.
Lesa meira

Líflegur nýnemadagur

Nýnemadagurinn var haldinn í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar í fyrsta sinn og tókst prýðilega. Hæst bar keppni í sápubolta. Tíu lið kepptu, fimm frá hvorum skóla og spilaði hvert lið þrjá leiki. Ýmis glæsileg tilþrif sáust í leikjunum og almennt var gleðin við völd. Aðstaða KF í vallarhúsinu kom að góðum notum. Inni hittust félagar í Tölvuleikjaklúbbnum og tóku nokkra leiki. Öllum var boðið upp á veitingar að hætti Bjargar Trausta.
Lesa meira

Heimsbókmenntir að gjöf

Skólanum barst á dögunum kassi með fjörutíu eintökum af Brennu-Njálssögu. Bækurnar eru gjöf frá Bókasafni Grindavíkur. Andrea Ævarsdóttir, forstöðumaður þar, er frá Ólafsfirði. Hún segir að bækurnar hafi verið keyptar fyrir grunnskólann í bænum en aldrei verið notaðar. Hún spurði því á skiptimarkaði bókasafna hvort einhver hefði hugmynd um hverjum bækurnar gætu nýst og starfsmaður á Bókasafni Fjallabyggðar lagði til að hún hefði samband við MTR. Brennu-Njálssaga er kennd í áfanganum ÍSLE3FO05 sem verið er að kenna núna. Staðnemar hafa þegar fengið eintak og fjarnemar eiga kost á því. Bækurnar eru mjög vel með farnar, lítið eða ekkert notaðar. Margrét L. Laxdal, íslenskukennari segir, að þetta sé besta útgáfan af sögunni. Bækurnar eru með nútímastafsetningu, orða- og efnisskýringum, ættartölum og landakortum.
Lesa meira

Góð heimsókn

Árgangurinn frá 1966 heimsótti gamla skólann sinn, Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar, á laugardaginn var. Hópurinn rifjaði upp gamlar minningar um ýmsa atburði sem gerðust í skólalífinu á fyrri hluta níunda áratugarins. Lára Stefánsdóttir, skólameistari tók á móti hópum og gerði grein fyrir starfsemi Menntaskólans, námsframboði og skipulagi og þótti gestum fróðlegt að kynnast því enda mikið breyst í skólastarfi síðan þeir voru á aldur við nemendur MTR. Móttakan fór fram í nýja salnum, Hrafnavogum og þótti gömlu nemendunum mikið til um þessa viðbót við skólahúsið. Strax er komið í ljós hve mikla og margvíslega möguleika nýi salurinn veitir nemendum og starfsmönnum auk þess að gefa tækifæri til að taka vel á móti stærri hópum í björtum og rúmgóðum húsakynnum.
Lesa meira

Áhugaverður reki

Íþróttatíma starfsbrautar var breytt í náttúruskoðun í morgun þegar fréttist af óvenjulegum reka á Ósbrekkusandi. Í ljós kom að rekið hafði dauðan beinhárkarl. Hræið er af stærðarskepnu, um sjö metra langri. Rotnun er tæplega hafin og engin lykt af hræinu. Nemendum fannst hræið áhugavert og flestir voru að sjá slíkt í fyrsta sinn. Þeir skoðuðu hákarlinn í krók og kring og prófuðu að hoppa á honum. Kom fram sú tillaga að nota hræið sem ærslabelg við skólann. Þá hafði einn nemandinn orð á því að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af hráefnisskorti í nýja mötuneytinu. Veður er einkar blítt í Ólafsfirði og nutu nemendur útivistarinnar í fjörunni við þessa óvenjulegu náttúruupplifun.
Lesa meira

Foreldrafundur 30. ágúst 2017

Miðvikudaginn 30. ágúst 2017 kl. 17:00 verður haldinn foreldrafundur í Hrafnavogum í húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga. Þar gefst foreldrum tækifæri til að kynnast skólanum, koma með spurningar og ræða við kennara.
Lesa meira

Hrafnavogar vígðir

Vígsla nýbyggingar við skólann var einkar ánægjuleg athöfn. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra sagði í ávarpi sínu að Menntaskólinn á Tröllaskaga væri samfélaginu við utanverðan Eyjafjörð mjög mikilvægur. Frá upphafi hafi frumkvæði og sköpun einkennt skólastarfið, haft áhrif bæði nær og fjær og verið mörgum fyrirmynd. Góð útkoma skólans í könnuninni „stofnun ársins“ sýndi ánægju starfsfólks. Könnun ráðuneytis hefði sýnt veikleika í félagslífi nemenda og skort á mataraðstöðu fyrir þá og starfsmenn. Nýi salurinn myndi bæta úr þessu, bæði yrði þar félagsaðstaða nemenda og mötuneyti. Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri stýrði athöfninni. Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs þakkaði öllum sem að framkvæmdinni komu en Lára Stefánsdóttir, skólameistari ræddi mikilvægi bættrar aðstöðu og gaf salnum nafnið Hrafnavogar. Kristján Þór og Kristinn G. Jóhannsson, listmálari klipptu svo á borða og opnuðu salinn formlega.
Lesa meira

Sápuboltavöllur

Skólinn festi í sumar kaup á sápuboltavelli og hefur hann þegar sannaði gildi sitt sem leik- og skemmtitæki. Sápuboltamót var haldið 15. júlí og tókst með miklum ágætum, eins og meðfylgjandi myndir sýna. Þeir sem skipulögðu mótið og sáu um það að öllu leyti eru flestir gamlir nemendur skólans. Þátttakendur voru líka flestir núverandi eða fyrrverandi nemendur. Hópurinn sem skipulagði mótið hefur tekið að sér að gæta vallarins og sjá um uppsetningu í samstarfi við íþróttakennarana. Hugmyndin er að völlurinn nýtist til að auðga líf nemenda í MTR og Grunnskóla Fjallabyggðar með sameiginlegum viðburðum. Næsta mót gæti orðið síðar í þessum mánuði eða fyrri hluta septembermánaðar.
Lesa meira