Fréttir

Á skíðum í hugleiðslujóga

Nemendur í áfanganum útivist í snjó lögðu loksins upp í leiðangur á fjallaskíðum og gönguskíðum í gær. Hópnum var skipt í tvennt og fór helmingurinn á fjallaskíðum upp Hólshyrnu í Ólafsfirði með Tómasi Atla Einarssyni kennara og hinn helmingurinn fór á gönguskíðum inn fyrir Hóla í Skeggjabrekkudal. Nemendur áttu góða stund úti í náttúrunni og nýttu kyrrðina til hins ítrasta og prófuðu hugleiðslujóga undir berum himni. Nemendur stóðu sig með prýði enda hörkuduglegir þó svo að það hafi setið í þeim þreyta eftir páskafrí. Næst á dagskrá hjá þeim er svo að ganga með fullbúinn bakpoka á fjallaskíðum upp í skálann Mosa sem er uppi á heiði, gista þar eina nótt og skíða svo heim.
Lesa meira

Innritun í fjarnám stendur yfir

Innritun eldri nemenda stendur yfir og þar með fjarnema fyrir haustönn 2017. Þegar áfangar eru fullir er þeim lokað svo það er um að gera að vera snemma á ferðinni. Staðnemar skrái sig á www.menntagatt.is og hafa forgang, fjarnemar skrá sig á heimasíðu skólans undir „Fjarnám“
Lesa meira

Undraheimur efnahvarfanna

Í áfanganum EFNA2EE05 læra nemendur um atóm, frumefni og efnasambönd. Þar er farið uppbyggingu atómsins og hvernig hún ákveður staðsetningu efnisins í lotukerfinu. Efnahvörf sýna hvernig atóm mismunandi frumefna haga sér þegar þau hitta atóm annarra frumefna. Þetta getur verið spennandi að læra um með því að gera tilraunir. Myndirnar sem fylgja þessari frásögn sýna hvað gerist þegar mismunandi tegundum af sykri er blandað í brennisteinssýru. Nemendur fengu fyrst að giska á hvað myndi gerast. Síðan var venjulegum sykri blandað í sýruna. Þá var komið að því að athuga hvort atburðarásin yrði önnur ef notaður væri flórsykur í stað venjulegs sykurs en þetta er alveg sama efni á lítillega breyttu formi. Í tilviki flórsykursins gerðust efnahvörfin svo hratt að nemendur misstu af atburðinum og Vera Sólveig Ólafsdóttir kennari varð að endurtaka tilraunina.
Lesa meira

Gestir úr Síðuskóla

Liðlega fjörutíu nemendur í 10. bekk Síðuskóla á Akureyri kynntu sér nám og aðstöðu í MTR í morgun. Hópurinn var áhugasamur, ekki síst um einstakar brautir svo sem útivistarbraut og einnig að hér eru fá próf og engin lokapróf. Gestirnir skoðuðu myndlistarstofuna, tónlistarstofuna, efnafræðistofuna og útikennslustofuna. Þeir fengu líka að sjá myndbönd sem sýna nemendur í útivistaráföngum klifra í klettum, renna sér á skíðum, brimbrettum og hundasleðum. Einnig ýmis skemmtileg myndbönd sem nemendur MTR hafa gert og skilað í áföngum á borð við ensku og inngang að réttarvísindum. Inga Eiríksdóttir og Vera Sólveig Ólafsdóttir sáu um og skipulögðu móttöku gestanna úr Síðuskóla.
Lesa meira

Kynhlutlaus salerni

Kynjamerkingar á salernum nemenda í MTR voru fjarlægðar í morgun og salernin eru orðin kynhlutlaus. Það voru Rebekka Ellen Daðadóttir og Marín Líf Gautadóttir í nemendaráði skólans sem fjarlægðu síðustu skiltin, sem á stóð „WC STÚLKUR“ og „DRENGIR“. Salerni kennara hafa aldrei verið kyngreind. Rebekka og Marín Líf segja að nútíminn sé bara þannig að það eigi allir að geta valið hvaða salerni þeir noti. Breytingin auðveldi lífið fyrir þá sem ekki eru vissir um kyn sitt. Þær stöllur sátu þing samtaka nemenda í framhaldsskólum um helgina og fengu þar ýmsar góðar hugmyndir. Þær fóru á fund Láru Stefánsdóttur skólameistara í gær og fóru meðal annars fram á kynhlutlaus salerni og tíðavörur, svo sem bindi og tappa. Rebekka segir að meistari hafi tekið mjög vel í málið, í skólanum sé nútímalegt starf og allir opnir fyrir því að hugmyndir nemenda verði að veruleika. Þær séu stoltar að geta tilkynnt um kynhlutlaus salerni og tíðavörur fyrir alla kvenmenn skólans.
Lesa meira

Skemmtileg ferð á Hæfileikakeppni starfsbrauta

Nemendur starfsbrautar brugðu sér á suðvesturhornið í síðustu viku til að taka þátt í hinni árlegu Hæfileikakeppni starfsbrauta. Keppnin fór að þessu sinni fram í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og 12 framhaldsskólar tóku þátt, auk þess sem nemendur tveggja skóla til viðbótar mættu til að njóta. Framlag starfsbrautar MTR var glæsileg stuttmynd sem nemendur brautarinnar tóku upp og unnu í miðannarvikunni með aðstoð grísku kvikmyndagerðarkonunnar Alkistis Terzi, sem dvalið hefur hér í sveitarfélaginu við listsköpun að undanförnu.
Lesa meira

Kennarar frá Kaliforníu

Fimm listamenn frá Kaliforníu tóku að sér alla myndlistarkennslu í skólanum í morgun. Unnið var útfrá þemanu „shared seas“ og verður afraksturinn til sýnis í Listhúsi Fjallabyggðar. Nemendur unnu með leirþrykk. Ýmsar fígúrur voru mótaðar í leirinn og hann síðan hulinn með prentbleki og þrykkt á pappír. Nemendum þótti veruleg nýbreytni að aðferðunum sem þeir lærðu í tímunum í morgun og sýndu áhuga sinn í verki eins og myndirnar sem fylgja fréttinni bera með sér.
Lesa meira

Afnám gjaldeyrishafta

Sóley Lilja Magnúsdóttir var með kynningu í stjórnmálafræðitíma í gær og valdi að gera grein fyrir afnámi hafta, sem var merkilegasta innlenda fréttin í síðustu viku að flestra mati. Sóley Lilja gerði grein fyrir átæðum þess að höftin voru sett á og hvernig þau virkuðu fyrir fólk og fyrirtæki. Fram kom að gjaldeyrishöft gætu aukið hættu á spillingu og einnig að áformað hefði verið að afnema þau miklu fyrr.
Lesa meira

Hamingja á Hallormsstað

Nokkrir nemendur nutu leiðsagnar í matreiðslu, saumum og vefnaði í Handverks- og hússtjórnarskólanum á Hallormsstað í miðannarvikunni. Auk formlegs náms kynntust þau nemendum úr Menntaskólanum á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupsstað. Tilboðið var undir hatti Fjarmenntaskólans.
Lesa meira

Ánægðir enskir gestir

Tæplega þrjátíu manna hópur frá University Campus Weston and Weston College í grennd við Bristol á Eglandi var við æfingar hér í Ólafsfirði á vegum MTR á mánudag. Nemendurnir voru á aldrinum átján til tuttugu og eins árs. Þeir eru að undirbúa sig fyrir að verða lögreglu-, sérsveitar- eða hermenn í þjónustu hennar hátignar.
Lesa meira