Fréttir

Viðbygging MTR vígð

Hátíðleg athöfn verður í skólanum á föstudag þegar tekin verður formlega í notkun ný bygging við skólann. Framkvæmdir hafa staðið í eitt ár og eru iðnaðar- og verkamenn að leggja síðustu hönd á fráganginn. Aðstaða nemenda mun batna mjög með tilkomu stækkunarinnar. Þar verður mötuneyti og ýmis aðstaða fyrir félagslíf nemenda og sýningar.
Lesa meira

Skólasetning

Menntaskólinn á Tröllaskaga var settur í áttunda sinn í morgun. Í skólann eru skráðir nær þrjú hundruð og sjötíu nemendur, þar af um eitt hundrað staðnemar. Þeir þurfa að venjast því að vinna með fólki sem statt er annars staðar og þeir sjá ef til vill aldrei. Bæði nemendum og starfsmönnum hefur fjölgað frá síðasta skólaári. Mörg samstarfsverkefni við erlenda skóla eru í gangi eða að hefjast og nemendur geta valið úr möguleikum til að taka þátt í áhugaverðum áföngum og ferðast til annarra landa. Lára Stefánsdóttir, skólameistari hvatti nemendur til þess í morgun að nýta þessi tækifæri til að skilja heiminn betur.
Lesa meira

Vinnudagar kennara

Að venju setti undirbúningur skólastarfsins í vetur svip á sérstaka vinnudaga kennara í upphafi haustannar. Einnig var nokkrum tíma varið til að ræða stöðu fjölmargra samstarfsverkefna við skóla í öðrum löndum. Þá var hugarflug í sambandi við undirbúning alþjóðlegu ráðstefnunnar EcoMedia 2018 sem MTR skipuleggur og heldur í Fjallabyggð í október á næsta ári.
Lesa meira

Skólasetning á föstudag

Menntaskólinn á Tröllaskaga verður settur í Tjarnarborg, föstudaginn 18. ágúst kl. 8:10 og öllum velkomið að mæta þar. Að setningu lokinni hitta nemendur umsjónarkennara sína en að því búnu hefst kennsla samkvæmt stundaskrá. Stundaskrá verður í Innu og nemendum bent á að glöggva sig á henni. skólabyrjun verður í vetur kl. 8:10 og verður skólaakstri breytt til samræmis við það. Akstur frá Siglufirði kl. 07:40 og Dalvíkurbyggð 7:50. Nýtt húsnæði verður tekið í notkun þann 25. ágúst n.k.
Lesa meira

Unnið úr biðlistum

Nú eru starfsmenn komnir úr fríi og byrjaðir að svara erindum sem bárust á meðan á leyfum stóð. Búið er að fara yfir greiðsluseðla og gert ráð fyrir að þeir sem ekki hafa greitt ætli ekki að koma í skólann í haust og byrjað að taka umsækjendur inn af biðlistum í þeirra stað. Þeir sem bíða upplýsinga um hvort þeir komast inn í skólann ættu því að fá svör á næstu dögum. Ef áform einhverra hafa breyst og þeir ætla ekki að mæta í skólann í haust eru þeir beðnir að láta vita sem fyrst þar sem aðsókn er mikil.
Lesa meira

Innritunargjöld

Allir nemendur ættu að vera komnir með greiðsluseðil vegna innritunargjalda fyrir haustönn 2017 í heimabanka. Greiðsluseðlar munu einnig verða sendir út. Með greiðslu staðfesta nemendur skólavist sína. Ógreiddur reikningur þýðir að nafn nemanda verður tekið af nemendalista skólans og hann fær þar með ekki skólavist á haustönn. Þetta á einnig við um fjarnema. Fjarnemum er bent á að greiða greiðsluseðilinn í banka ekki heimabanka þurfi þeir kvittun fyrir innritunargjöldum fyrir verkalýðsfélag.
Lesa meira

Valdefling og sjálfbærni

MTR hefur ásamt tveimur framhaldsskólum á Ítalíu og Spáni fengið ellefu milljón króna Erasmusstyrk til samstarfsverkefnis. Markmið þess er að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Um níutíu nemendur taka þátt í verkefninu sem unnið verður á tveimur árum. Þetta eru landsbyggðakrakkar sem mörg hver munu í framtíðinni þurfa að búa til eigin tækifæri til framfærslu. Ætlunin er að draga fram styrkleika og hæfni í nemendahópunum og nýta til þess eiginleika skólakerfisins í hverju landi ásamt umhverfi og samfélagi á hverjum stað. Vinnan í verkefninu tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum, íþróttum, útivist og upplýsingatækni. Andinn í verkefninu einkennist af þátttöku og samstarfi við að þróa viðskiptahugmyndir sem geta veitt lífsviðurværi í sjálfbærum samfélögum á ólíkum stöðum. Markmiðið er að efla frumkvæði og auka líkur á að ungmenni skapi sér framtíð á æskuslóðum. Annar samstarfsskólinn er í Castel di Sangro um miðbik Ítalíu en sá spænski er á Lanzarote, sem er ein Kanaríeyjanna. Starfsmenn MTR stýra verkefninu.
Lesa meira

Lokaverkefni um sköpunarferlið

Anna Kristín Semey Bjarnadóttir rannsakaði sköpunarferlið í lokaverkefni sínu á vorönninni. Í kynningu sagði hún að gerð málverks krefðist meiri hugmyndavinnu en hún hafi haldið. Hún fór til Svíþjóðar og Bandaríkjanna í leit að innblæstri. Henni fannst mikið til þeirrar myndlistar koma sem hún sá í Svíþjóð en sagði að í Bandaríkjunum væri meiri fókus á nútímalist sem hún hefði minni áhuga á. Hún hafi spurt sig hverju hún vildi koma fram í lokaverkefni og þetta hafi endað sem þróunarferli sitt sem listamanns. Á endanum hafi hún samið blogg þar sem markmiðið komi fram og sýnt sé hvernig hún upplifi gerð verkanna. Hún hafi alltaf skissað mikið en athyglisbrestur sinn hafi gert að verkum að hún hafi sjaldnast lokið við það sem hún var að gera. En persónuleg þróun sem hún fór í gegn um í lokaverkefninu hafi hjálpað henni að læra öguð vinnubrögð, fylgja hjartanu og ljúka við verkin. Leiðbeinandi Önnu Kristínar var Bergþór Morthens, myndlistarkennari og málari.
Lesa meira

Stafræn sagnamennska – erlent samstarf

MTR hefur fengið Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til samstarfs við Tækniskólann EUC í Næstved og Köge á Sjálandi. Málið snýst um stafræna sagnamennsku og samskipti ungs fólks í fámennum samfélögum á Íslandi og í Danmörku. Viðfangsefnið er að nota upplýsingatækni til að segja sögur á netinu. Nemendur skólanna eiga það sameiginlegt að koma flestir úr tiltölulega dreifðum byggðum. Þeir munu kanna sagnaarfinn í hvoru landi um sig og leggja sérstaka áherslu á norræna goðafræði og sögur um dísir og tröll. Nemendur munu líka semja og segja eigin sögur. Á þennan hátt kynnast þeir menningararfi eigin lands og samstarfslandsins ásamt því að æfa sig að nota mismunandi tæki og tól til að segja sögur með aðstoð stafrænnar tækni. Áformað er að tuttugu og fimm manna hópur frá Danmörku komi á Tröllaskaga á haustönn og jafn margir nemendur MTR sæki Sjáland heim á vorönninni. Á meðan á heimsóknunum stendur semja nemendurnir saman nýjar sögur sem þeir segja með aðstoð stafrænu tækninnar sem þeir alast upp með. Ida Semey, tungumálakennari annaðist umsóknarferlið.
Lesa meira

Sjómannafjölskyldur - lokaverkefni

Hafrún Eva Kristjánsdóttir reyndi í lokaverkefni sínu að skyggnast inn í hugarheim sjómanna og aðstandenda þeirra, kanna samskiptin og komast að því hvernig fólk tekst á við fjarveru sjómanna frá heimili og fjölskyldu. Hún lagði spurningar fyrir sjö sjómenn og jafn marga aðstandendur sem voru systkin, foreldrar eða börn sjómanna en þó ekki í sömu fjölskyldu. Svörin leiddu í ljós að sjómennirnir höfðu misst af mikilvægum tímamótum í lífi fólksins í landi, t.d. afmælum, skírnum, brúðkaupum og jarðarförum en allir höfðu þeir verið viðstaddir fæðingu barna sinna. Allir aðstandendur sögðu að fjarvera sjómanna hefði töluverð áhrif á líf fólksins í landi, en enginn sagði að það væru slæm áhrif. Fjölskyldan aðlagaðist aðstæðum og lífið hefði sinn gang á meðan sjómaðurinn væri í burtu. Sjómenn sem komnir voru í land og aðstandendur fyrrverandi sjómanna sögðu að fjarveran hefði haft áhrif á ástarlífið en þeir sem voru enn á sjó og aðstandendur þeirra sem enn sækja sjó sögðu svo ekki vera. Hafrún Eva spurði líka um sjóhræðslu og kom í ljós að rúmlega helmingur aðstandenda sagðist aldrei eða sjaldan hafa óttast um sjómanninn. Liðlega þriðjungur sjómanna sagðist hafa þjáðst af sjóhræðslu en tæplega tveir þriðju sögðust aldrei eða sjaldan hafa gert það. Leiðbeinandi Hafrúnar Evu við lokaverkefnið var Hjördís Finnbogadóttir, kennari í félagsgreinum.
Lesa meira