Sólberg mynd Gísli K
Hafrún Eva Kristjánsdóttir reyndi í lokaverkefni sínu að skyggnast inn í hugarheim sjómanna og aðstandenda þeirra, kanna samskiptin og komast að því hvernig fólk tekst á við fjarveru sjómanna frá heimili og fjölskyldu. Hún lagði spurningar fyrir sjö sjómenn og jafn marga aðstandendur sem voru systkin, foreldrar eða börn sjómanna en þó ekki í sömu fjölskyldu. Svörin leiddu í ljós að sjómennirnir höfðu misst af mikilvægum tímamótum í lífi fólksins í landi, t.d. afmælum, skírnum, brúðkaupum og jarðarförum en allir höfðu þeir verið viðstaddir fæðingu barna sinna. Allir aðstandendur sögðu að fjarvera sjómanna hefði töluverð áhrif á líf fólksins í landi, en enginn sagði að það væru slæm áhrif. Fjölskyldan aðlagaðist aðstæðum og lífið hefði sinn gang á meðan sjómaðurinn væri í burtu. Sjómenn sem komnir voru í land og aðstandendur fyrrverandi sjómanna sögðu að fjarveran hefði haft áhrif á ástarlífið en þeir sem voru enn á sjó og aðstandendur þeirra sem enn sækja sjó sögðu svo ekki vera. Hafrún Eva spurði líka um sjóhræðslu og kom í ljós að rúmlega helmingur aðstandenda sagðist aldrei eða sjaldan hafa óttast um sjómanninn. Liðlega þriðjungur sjómanna sagðist hafa þjáðst af sjóhræðslu en tæplega tveir þriðju sögðust aldrei eða sjaldan hafa gert það. Leiðbeinandi Hafrúnar Evu við lokaverkefnið var Hjördís Finnbogadóttir, kennari í félagsgreinum.