Fréttir

Vorsýning 2017

Vorsýning skólans verður haldin laugardaginn 13. maí frá 13:00 - 16:00, allir hjartanlega velkomnir. Nemendur verða við verk sín og ræða þau. Verkin má síðan skoða í skólanum á opnunartíma skólans til útskriftardags 20. maí.
Lesa meira

MTR – Stofnun ársins

Þriðja árið í röð er Menntaskólinn á Tröllaskaga stofnun ársins í flokki meðalstórra stofnana, með 20-49 starfsmenn. MTR var með næsthæstu einkunn allra stofnana, aðeins Persónuvernd var hærri. Viðurkenningarnar voru afhentar í höfuðstaðnum síðdegis í gær. Val á fyrirmyndarstofnunum er í höndum starfsmanna sem taka þátt í könnun á vegum SFR stéttarfélags, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og VR. Þetta er ein stærsta vinnumarkaðskönnun sem gerð er árlega hér á landi. Tilgangur hennar er að hvetja stjórnendur til að gera vel við starfsmenn. Spurt er um trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti á vinnustaðnum. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari og kennararnir Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir fóru suður og voru við afhendingu viðurkenningarinnar í gær.
Lesa meira

Frábært kvöld

Góðgjörðarkvöld á Kaffi Klöru í gærkvöldi tókst sérlega vel. Gestir voru fjölmargir og nutu þeir þríréttaðrar máltíðar sem nemendur í áfanganum „matur og menning“ elduðu og báru fram. Gestirnir nutu samverunnar og matarins og skemmtu sér hið besta. Boðnir voru upp munir sem gerðir hafa verið í Iðjunni, vinnustofu fatlaðra á Siglufirði. Samtals söfnuðust liðlega hundrað og áttatíu þúsund krónur og verður upphæðin afhent Iðjunni á Siglufirði á morgun, föstudag. Til að gera þennan viðburð mögulegan lögðu margir hönd á plóg, meðal annars með því að útvega matföng. Í þessum hópi voru kjörbúðirnar í Ólafsfirði og á Siglufirði, Kaffihúsið Fríða, Ramminn, Aðalbakarí á Siglufirði, Ölgerðin og fleiri. Þá lagði kennarinn í áfanganum, Ida Semey, fram veitingahús sitt Kaffi Klöru og alla aðstöðu þar í þágu þessa góða málefnis.
Lesa meira

Vélmennafræði

Menntaskólinn á Tröllaskaga fær eina milljón króna úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins til verkefnis sem ber þann dularfulla titil vélmennafræði. Féð verður notað til að skipulegja áfanga þar sem kennd verður samsetning og forritun á hinum ýmsu vélmennum, svo sem Little Bits, Oxobot, Lego Mindstorm, Sphero, Arduino o.fl., sem sagt fullt af græjum. Nemendur læra grunnatriði í rafmagnsfræði og forritun miðað við styrkleika hvers og eins. Unnið verður með hin ýmsu tæki og forrit í áfanganum. Áfanginn er samkenndur með starfsbraut til að auka samvinnu milli starfsbrautarnemenda og nemenda á öðrum brautum. Áfanginn getur bæði bæði verið valáfangi á hug- og félagsvísindabraut og náttúrufræðibraut. Kennarar verða Inga Eiríksdóttir og Birgitta Sigurðardóttir Að þessu sinni bárust Sprotasjóði 119 umsóknir um 266 milljónir. Veittir voru styrkir til 48 verkefna að upphæð rúmlega 61 milljón króna. Áherslur sjóðsins að þessu sinni voru „móðurmál í stafrænum heimi“, „lærdómssamfélag í skólastarfi“ og „leiðsagnarmat“.
Lesa meira

Kvöldverður á Klöru

Lokaverkefni nemenda í áfanganum „matur og menning“ er vegleg matarveisla á Kaffi Klöru. Þetta verður hlaðborð þar sem meðal rétta verður kjötsúpa og kjúklingasúpa, einnig hægeldað lambalæri, litlar kjúklingabollur og djúpsteiktar rækjur með margvíslegu meðlæti. Eftirréttir verða marengs, skúffukaka og pönnukökur. Veislan hefst klukkan 19:00 annað kvöld, miðvikudagskvöld og stendur til klukkan 22:00. Ágóðinn rennur til Iðjunnar, vinnustofu fatlaðra á Siglufirði. Hægt er að skrá sig á viðburðinn á Fb-hópnum „Matarveisla á Kaffi Klöru á vegum nemendahóps úr MTR“.
Lesa meira

Aukið val – fjölþjóðlegt verkefni

MTR tekur þátt í Nordplus Horizontal verkefni sem snýst um að kennarar og skólastjórnendur skiptist á upplýsingum um gagnlegar aðferðir við að auka val nemenda í framhaldsskólum og sveigjanleika í námi. Tveir háskólar og sjö framhaldsskólar í Eistlandi, Finlandi, Lettlandi og á Íslandi taka þátt í verkefninu. Hópur kennara frá samstarfslöndunum þremur heimsótti MTR í vikunni. Lára Stefánsdóttir skólameistari sagði þeim frá tilurð skólans og námsskránni sem er sveigjanleg og veitir mikið frelsi við skipulagningu námsins. Einnig ræddi hún þær samfélagsbreytingar sem framundan eru og huga þarf að í námsframboði og vinnubrögðum. Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari kynnti kennslu og nám í skólanum og sýndi myndbönd þar sem nemendur njóta sín við ólík viðfangsefni úti og inni. Síðan kynntu samstarfsskólarnir áherslur í sínum námsskrám og aðferðir við að gera námið sem fjölbreyttast. Meðal þess sem bar á góma var fjarnám og upplýsingatækni, viðurkenning eða mat á fyrra námi og starfi, samstarf skóla og annarra menntastofnana og þátttaka nemenda í að móta námsskrá skóla og skipuleggja eigin námsferil.
Lesa meira

Naustaskólnemar í heimsókn

Vænn hópur nemenda í tíunda bekk Naustaskóla heimsótti MTR í vikunni til að kynna sér nám og aðstöðu í skólanum. Hópurinn notaði tækifæri til að skoða sig um víðar í Fjallabyggð og fór meðal annars á Síldarminjasafnið á Siglufirði. Í MTR voru krakkarnir áhugasamir um tölvur og tæknina alla sem hér er notuð. Einnig vakti nám á útivistarbraut mikla athygli sumra nemenda. Þá þótti aðstaða nemenda álitleg.
Lesa meira

Heimsókn í Listhúsið

Nemendur í myndlist og nemendur á starfsbraut gerðu sér ferð í Listhús og skoðuðu áhugaverða sýningu bandarísku listakonunnar Alana LaPoint. Hún hefur dvalið í Listhúsinu frá því byrjun febrúar og var sýningin ákveðinn lokapunktur á dvöl hennar hér á landi. Listakonan fræddi nemendur um tilurð sýningarinnar og svaraði spurningum nemenda sem lýstu yfir hrifningu sinni og almennri ánægju með verkin hennar.
Lesa meira

Stærðfræðikeppni í tuttugu ár

Úrslit í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og níundu bekkja í grunnskólum á Norðurlandi vestra og Tröllaskaga fór fram í Ólafsfirði í dag. Í fyrsta sæti varð Hildur Heba Einarsdóttir í Árskóla á Sauðárkróki. Jódís Helga Káradóttir í Varmahlíðarskóla í Skagafirði varð í öðru sæti og Styrmir Þeyr Traustason í Dalvíkurskóla í þriðja. Vegleg verðlaun voru veitt fyrir þessi þrjú sæti. Keppnin var jöfn og spennandi og keppendur allir sjálfum sér og skólum sínum til sóma. Þetta er í tuttugasta sinn sem keppnin er haldin.
Lesa meira

Gestir frá Þelamerkurskóla

Hópur starfsmanna Þelamerkurskóla í Hörgárbyggð kynti sér nám og starf í MTR í dag. Þeir vilja gjarnan að nemendur sínir kynnist námsframboði skólans. Gestirnir voru áhugasamir um noktun upplýsingatækni í MTR en sjálfir eru þeir í átaki á tæknisviðinu. Einnig þótti þeim merkilegt að hægt væri að ljúka stúdentsprófi af brautum þar sem íslenska og stærðfræði eru ekki algerar grundvallargreinar. Þelamerkurskóli er ágætlega í sveit settur á Laugalandi í Hörgárdal og eru nemendur þar 75 á þessu skólaári.
Lesa meira