05.10.2017
Staðnemar hafa fjóra valkosti í miðannarvikunni. Þeir geta kynnst leikfangasmíð, leirmótun og endurvinnslu, klippimyndagerð eða búið til rafrænt kort fyrir ferðamenn. Síðastnefndi áfanginn snýst um að safna myndum og upplýsingum af ýmsu tagi sem gagnlegar eru fyrir ferðamenn sem heimsækja Dalvíkubyggð, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Með QR kóða getur fólk síðan sótt afurðina og sett í símann sinn. Þetta gæti til dæmis gagnast erlendum gestum á EcoMedia ráðstefnunni sem MTR skipuleggur næsta haust. Kennarar verða Inga Eiríksdóttir, Bjarney Lea Guðmundsdóttir og fleiri. Í leikfangasmíðinni verður ýmsum hlutum breytt í leikföng með hugmyndaflugi og lagfæringum en annað verður smíðað frá grunni. Leikföngin verða síðan gefin á leikskóla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Kennari er Kjartan Helgason, smiður. Í áfanga um leir og endurvinnslu verður áhersla á fjölbreytt verkefni hjá Kristínu Önnu Guðmundsdóttur, þroskaþjálfa. Í klippimyndagerð verður afurðin tvívíð verk, gerð úr striga eða hörðum fleti sem úrklippur hafa verið límdar á. Ýmislegt efni getur fengið nýja merkingu eftir því hvert hugarflugið leiðir myndasmiðinn í sköpunarferlinu. Kennari er Martin Holm, myndlistarmaður. Allir áfangarnir gefa tvær einingar.
Lesa meira
04.10.2017
Í eðlisfræði EÐLI2AV05 er eitt af viðfangsefnunum að skoða hraða með hreyfiskynjara. Þetta er tæki sem gefur frá sér hljóðbylgjur og þær endurkastast af fyrsta fasta hlut sem þær lenda á. Tíminn sem líður frá því að hljóðbylgjan er send af stað þar til bergmálið berst til baka er notaður til að reikna út staðsetningu hlutarins sem endurkastaði. Taka þarf ljóshraða með í útreikninginn. Hreyfiskynjarinn er tengdur við tölvuforrit sem sér um þessa útreikninga. Verkefni nemenda felst því í að túlka myndrit og gögn sem forritið veitir. Æfingin er gott verkefni vegna mikilvægis þess að kunna að lesa úr gröfum og verklegar æfingar veita auk þess gagnlega þjálfun fyrir raunveruleg viðfangsefni lífsins. Tengsl hraða, tíma og vegalengdar verða áþreifanlegri eftir að hafa unnið þetta verkefni. Kennari í eðlisfræðiáfanganum er Unnur Hafstað.
Lesa meira
29.09.2017
Herbert Eile, formaður AT, Samtaka um alþjóðlega samvinnu í menntamálum og Erwin Bratengeyer, prófessor við Dónárháskóla voru gestir skólans í nokkra daga í síðustu viku. Þeir eru öflugir frumkvöðlar á sviði þróunar upplýsingatækni í skólastarfi og hafa ásamt fleirum skipulagt ráðstefnur og námskeið samtakanna EcoMediaEurope í ýmsum Evrópuríkjum. Erwin og Herbert skoðuðu alla aðstöðu í skólanum og kynntu sér starfið með viðræðum við starfsmenn og nemendur. Ellefta EcoMedia-ráðstefnan var haldin í Iasi í Rúmeníu seint á síðasta ári. Hana sóttu fjölmargir kennarar í MTR og voru þar með erindi og kynningar. Tólfta ráðstefnan verður í Glasgow í Skotlandi eftir mánuð. Margir kennara skólans fara þangað en einnig kennarar frá Grunnskóla Fjallabyggðar, Framhaldsskólanum í
Lesa meira
27.09.2017
Verkefnið snýst um ungmennaskipti og jafningjafræðslu á sviði heilsu, vistfræði og baráttu gegn mengun náttúrunnar. Þátttakendur koma frá Noregi, Litháen, Spáni og Íslandi. Undirbúningsfundur var haldinn í Kópavogi fyrr í vikunni. Þar voru bæði ungmenni og kennarar frá löndunum fjórum. Fyrstu skiptin verða í miðannarvikunni þegar hópar frá Spáni, Noregi og Íslandi hitta félagana í Litháen í bænum Siauliai sem er nyrst í landinu. Í þessum fyrsta áfanga verður áherslan fyrst og fremst á mengun, láðs, lofts og lagar. Fyrir ferðina eiga þátttakendur að kynna sér ákveðin atriði í sambandi við mengun á sínum heimaslóðum. Í apríl á næsta ári hittist hópurinn í Noregi og í september á Tenerife á Spáni.
Lesa meira
26.09.2017
Mikil tímamót urðu í MTR í gær þegar opnað var mötuneyti í skólanum. Lengi hafa bæði nemendur og starfsmenn þráð að fá framreiddan heitan mat í hádeginu. Nýi salurinn, Hrafnavogar, sem vígður var fyrr í haust er forsenda fyrir rekstri mötuneytisins. Á borðum fyrsta daginn var lasagna með kjötsósu, salati og hvítlauksbrauði. Góðir gestir voru í skólanum, kennarar í Framhaldsskólanum á Húsavík og nutu þeir máltíðarinnar með heimafólkinu. Könnun sem gerð var meðal nemenda og starfsmanna fyrr í haust leiddi í ljós að þeir vilja fjölbreyttan og hollan mat. Mötuneytið verður opið frá 9-15 en einni klukkustund skemur á föstudögum. Stefnt að því að bjóða upp á morgunmat með brauðmeti, ávöxtum, hollustudrykkjum o.fl. Gestir og gangandi eru velkomnir að skoða mötuneytið og reyna þjónustuna.
Lesa meira
21.09.2017
Nemendalýðræði var á dagskrá skólafundar í morgun. Þar fjölluðu nemendur um hvernig þeir gætu komið hugmyndum sínum að og haft áhrif á nám sitt og starfið í skólanum. Einnig ræddu nemendur hugmyndir sínar um erlend samstarfsverkefni en skólinn er aðili að nokkrum slíkum verkefnum sem ýmist eru í gangi eða að hefjast. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skal halda skólafund að minnsta kosti einu sinni á ári og eiga starfsmenn og fulltrúar nemenda rétt til setu þar samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Í MTR hefur verið litið svo á að allir nemendur ættu rétt til að sitja fundinn og þeir hafa verið hvattir til að gera það. Nemendur hafa rætt í hópum sem ekki eru allt of stórir um ýmis hagsmuna- og áhugamál sín og hvernig hægt sé að sinna þeim á vettvangi skólans. Niðurstöðurnar notar skólinn síðan til að vinna að tillögum eða hugmyndum sem fram hafa komið í þeim anda sem niðurstöður hópvinnu nemenda segja til um. Jafnframt eru niðurstöðurnar kynntar skólanefnd.
Lesa meira
19.09.2017
Nemendur í áfanganum „Sveitin mín“ skelltu sér í göngur á föstudag. Flestir gengu í Ólafsfirði en tveir í Flókadal og Siglufirði. Það er hluti af námsefni í áfanganum að læra að smala fé og taka þátt í fleiri störfum í sveitinni. Þátttaka í göngum reynir á líkamlegan þrótt, að geta lesið í landið og einnig að geta fylgt ákveðnu skipulagi við verk sem margir koma að. Allir nemendur voru skráðir fullgildir gangnamenn hjá einstökum bændum, flestir hjá Sveinbirni á Kálfsá enda er hann fjárflestur. Framlag nemenda til smölunar að þessu sinn var verulegt og báru bændur lof á dugnað þeirra og úthald.
Lesa meira
08.09.2017
Nýnemadagurinn var haldinn í samstarfi við Grunnskóla Fjallabyggðar í fyrsta sinn og tókst prýðilega. Hæst bar keppni í sápubolta. Tíu lið kepptu, fimm frá hvorum skóla og spilaði hvert lið þrjá leiki. Ýmis glæsileg tilþrif sáust í leikjunum og almennt var gleðin við völd. Aðstaða KF í vallarhúsinu kom að góðum notum. Inni hittust félagar í Tölvuleikjaklúbbnum og tóku nokkra leiki. Öllum var boðið upp á veitingar að hætti Bjargar Trausta.
Lesa meira
06.09.2017
Skólanum barst á dögunum kassi með fjörutíu eintökum af Brennu-Njálssögu. Bækurnar eru gjöf frá Bókasafni Grindavíkur. Andrea Ævarsdóttir, forstöðumaður þar, er frá Ólafsfirði. Hún segir að bækurnar hafi verið keyptar fyrir grunnskólann í bænum en aldrei verið notaðar. Hún spurði því á skiptimarkaði bókasafna hvort einhver hefði hugmynd um hverjum bækurnar gætu nýst og starfsmaður á Bókasafni Fjallabyggðar lagði til að hún hefði samband við MTR. Brennu-Njálssaga er kennd í áfanganum ÍSLE3FO05 sem verið er að kenna núna. Staðnemar hafa þegar fengið eintak og fjarnemar eiga kost á því. Bækurnar eru mjög vel með farnar, lítið eða ekkert notaðar. Margrét L. Laxdal, íslenskukennari segir, að þetta sé besta útgáfan af sögunni. Bækurnar eru með nútímastafsetningu, orða- og efnisskýringum, ættartölum og landakortum.
Lesa meira
06.09.2017
Árgangurinn frá 1966 heimsótti gamla skólann sinn, Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar, á laugardaginn var. Hópurinn rifjaði upp gamlar minningar um ýmsa atburði sem gerðust í skólalífinu á fyrri hluta níunda áratugarins. Lára Stefánsdóttir, skólameistari tók á móti hópum og gerði grein fyrir starfsemi Menntaskólans, námsframboði og skipulagi og þótti gestum fróðlegt að kynnast því enda mikið breyst í skólastarfi síðan þeir voru á aldur við nemendur MTR. Móttakan fór fram í nýja salnum, Hrafnavogum og þótti gömlu nemendunum mikið til um þessa viðbót við skólahúsið. Strax er komið í ljós hve mikla og margvíslega möguleika nýi salurinn veitir nemendum og starfsmönnum auk þess að gefa tækifæri til að taka vel á móti stærri hópum í björtum og rúmgóðum húsakynnum.
Lesa meira