Haustútskrift hópmynd GK
Í dag, þann 16. desember, voru 18 stúdentar útskrifaðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn. Þetta var 15. brautskráningin frá skólanum og hafa nú 178 verið útskrifaðir frá skólanum frá því hann tók til starfa haustið 2010. Athöfnin fór fram í nýjum salarkynnum skólans, Hrafnavogum , en áður hafa slíkar athafnir verið í Ólafsfjarðarkirkju eða menningarhúsinu Tjarnarborg eftir fjölda útskriftarnema.
Að þessu sinni útskrifuðust níu af félags- og hugvísindabraut, tveir af íþróttabraut - íþróttasviði, þrír af náttúruvísindabraut, einn af listabraut – myndlistarsviði, einn af kjörnámsbraut með sérhæfingu í viðskiptagreinum og tveir luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs. Fjöldi fjarnema við skólann eykst jafnt og þétt og má segja að skólinn hafi skapað sér sérstöðu á sviði fjarkennslu. Það sýnir sig vel á útskriftarhópunum því 12 af þeim 18 sem útskrifuðust að þessu sinni voru fjarnemar. Voru 4 þeirra viðstaddir útskriftina og voru sumir þeirra að sjá kennara sína í fyrsta sinn augliti til auglitis. Annað var óvenjulegt við þessa útskrift því að í athöfninni tóku þátt tveir nemendur sem útskrifuðust sem sjúkraliðar frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra við þetta tilefni, eru þeir báðir búsettir í Ólafsfirði og var því þessi háttur hafður á.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari, hóf dagskrána. Gerði hún grein fyrir starfinu á haustönninni og fór yfir ýmsar tölulegar upplýsingar. Í ræðu hennar kom m.a. fram að skólinn hófst þann 18. ágúst og um 350 nemendur stunduðu nám við skólann á haustönninni, þar af voru um 250 nemendur í fjarnámi og er það orðinn mjög mikilvægur þáttur af skólastarfinu. Starfsmenn við skólann voru 28 á síðustu önn. Einnig sagði hún frá því að skólinn á í góðu samstarfi við ýmsa aðila í nærsamfélaginu og má þar m.a. nefna Tónlistarskólann á Tröllaskaga og ýmsar aðrar menningarstofnanir, sem og aðila sem eru okkur fjær t.d. Listaháskóla Íslands, Fisktækniskóla Íslands og Símey auk þess sem nýverið var skrifað undir samstarfssamning við Hlíðarfjall á Akureyri.
Í ræðu sinni kom Jóna Vilhelmína einnig inn á þá sérstöðu á sviði fjarkennslu og notkun upplýsingatækni í skólastarfi sem fyrr er getið og virðast kennsluaðferðir skólans henta þar mjög vel. Sagði hún frá því að kennarar og stjórnendur skólans hafa verið á faraldsfæti þetta skólaár og sótt ráðstefnur og fundi innanlands sem utan, þar sem þeir hafa kynnt skólann og aðferðafræði hans og vakið mikla athygli. Kennarar skólans séu óhræddir við að prófa nýjungar og nýta sér vel svigrúm námskrárinnar til að skapa nýja áfanga. Þeir standi því vel undir einkunnarorðum skólans, - frumkvæði, sköpun og áræði. Einnig hafa nemendur haft tækifæri á skólaheimsóknum erlendis og eiga í samstarfi við nemendur frá ýmsum löndum eftir þær heimsóknir. Er þetta samstarf ákaflega mikilvægt, eykur víðsýni nemenda og veitir þeim ómetanlega lífsreynslu.
Lára Stefánsdóttir, skólameistari, kom inn á ýmsa aðra þætti í sinni ræðu og ræddi m.a. um mikilvægi þess að þora og að framkvæma, þó svo að hlutirnir gangi ekki alltaf upp. Það er í lagi að gera mistök, það er jafnvel mjög mikilvægt, því af þeim má margt læra. Eins ræddi hún um mikilvægi þess að mennta sig, hvort sem það er með formlegri menntun eða með því að vera vakandi fyrir því að bæta við sig þekkingu á annan hátt og vaxa sem manneskja. Auk þess brýndi hún fyrir útskriftarnemum að standa með sjálfum sér og lifa í núinu. Fulltrúi útskriftarnema, Ólöf María Einarsdóttir, flutti síðan ávarp þar sem hún þakkaði starfsfólki skólans fyrir gott samstarf og ánægjulega viðkynningu. Þá var komið að sjáfri útskriftinni og var það ánægt ungt fólk sem tók við útskriftarskírteini úr höndum skólameistara og setti svo upp hvíta kollinn.
Tvö tónlistaratriði krydduðu dagskrána. Jón Þorsteinsson söng franskt jólalag við undirleik Ave Kara Sillaots og starfsfólk skólans, þau Bjarney Lea Guðmundsdóttir, Lísebet Hauksdóttir og Þórarinn Hannesson fluttu jólalagið Let it snow án undirleiks. Að athöfn lokinni var boðið upp á léttar veitingar.