Nemendur á sýningu mynd VÓE
Liðlega tuttugu nemendur og þrír starfsmenn MTR dvelja þessa viku á Sjálandi og æfa sig í að segja sögur á stafrænu formi. Unnið er með danskar, - og einkanlega sjálenskar munnmælasögur. Nemendur ræða saman um sögurnar og ákveða hvernig hægt sé að „nútímavæða“ þær. Hugsa þarf fyrir því hvernig hægt sé að deila sögunum með öðrum. Í dag er hópurinn einmitt á fullu í þessum framkvæmdahluta, við að taka upp ýmislegt hráefni til að vinna úr. Á haustönninni komu þrjátíu nemendur úr Tækniskólanum EUC í Næsved og Köge í Fjallabyggð og störfuðu með MTR-nemendum að því gera stafrænar útgáfur af íslenskum þjóðsögum, flestum af Tröllaskaga. Í gær fór þessi stóri hópur í skoðunarferð um miðbæ Köge í grenjandi rigningu. Hópurinn skoðaði eina kirkju og heimsótti listasafn sem sérhæfir sig í list í almannarýminu og á opinberum stofnunum á borð við sjúkrahús, sjá hér: http://www.koes.dk/ Skoðuð var sýning á stórum litríkum myndum Björns Nörregård úr þúsund ára sögu Danmerkur. Nörregård sýnir hvernig saga Danmerkur er samofin heimssögunni og fyrir bregður persónum á borð við Jóhönnu af Örk, Niels Bohr, John F. Kennedy og Karen Blixen. Ofin voru textílverk eftir þessum skissum Nörregårds og gáfu samtök danskra fyrirtækja Margréti Þórhildi drottningu þau þegar hún varð fimmtug. Textílverkin prýða stærsta veislusalinn í Kristjánsborgarhöll. MTR-nemum þótti þessi sýning sérlega áhugaverð.
MTR og Tækniskólinn EUC fengu Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til þessa samstarfsverkefnis. Heimsókn danska hópsins í haust var sérlega ánægjuleg og heimsóknin til Sjálands verður ekki síðri. Myndir