Fréttir

Forritarar framtíðarinnar

Á mánudögum koma nokkrir nemendur úr 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar í valtíma hjá Ingu stærðfræðikennara MTR. Tímarnir eru á vegum Grunnskólans en nemendur mæta í MTR og nýta ýmislegt dót sem þar er til. Þeir hafa í vetur prófað Ozobot, Sphero, little bits, Lego WeDo og eru nú að vinna með Lego Mindstorm. Einnig hafa þeir fengið að prófa retró leikjatölvu skólans (Atari) og VR græjurnar. Í dag var samt tekin smá pása frá Lego Mindstorm vinnunni og prufuð nokkur forritunar öpp í iPad. Meðal appa sem þeir þeir gátu prófað voru Move the Turtle, Kodable, Lightbot Code Hour, Boogie Bot, Robot School og Box Island. Markmiðið með þessum prufum var að gefa kennara smá munnlega skýrslu um hvernig þessi forrit höfðuðu til þeirra, hvert þeirra væri skemmtilegast og hvað aldri þau gætu hentað. Það var greinilegt að Lightbot Code Hour höfðaði best til þeirra og í lok tímans voru þeir allir komnir á kaf í Lightbot. Lightbot er mjög gott app sem kennir börnum og unglingum grunnhugtök forritunar. Appið er afar hentugt öllum þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í forritun og er fyrir nemendur allt frá 1. bekk og upp í 10. bekk og jafnvel eldri. Það er því alveg ástæða fyrir mömmu og pabba eða jafnvel afa og ömmu að ná sér appið. Tilgangurinn þess er eins og áður segir að kenna grunnhugtök forritunar s.s. skipanir, aðgerðir og endurtekningar og gerir forritið það vel.
Lesa meira

Á hundasleða í Noregi

Sex nemendur MTR tóku þátt í samstarfsverkefninu HELP í síðustu viku. Auk norskra og íslenskra þátttakenda eru nemendur frá Litháen og Spáni með í verkefninu. Viðfangsefnið var vistvænar afurðir og vistvænar merkingar. Íslensku nemendurnir greindu frá því að hér væru ekki vistvænar merkingar sem hægt væri að taka mark á en þátttakendur frá hinum ríkjunum sögðu að lög giltu um slíkar merkingar hjá sér. Íslendingarnir greindu meðal annars frá Brúneggjamálinu og að þeir teldu að bæta þyrfti stöðuna í þessum málum hér á landi. Á dagskránni var heimsókn á vistvænan búgarð þar sem hægt var að skoða dýrin í návígi og kynna sér allan aðbúnað þeirra. Hópurinn heimsótti líka dýragarð þar sem einn íslendingurinn varð fyrir því að lamadýr hrækti í augað á honum. Listir og menning sátu ekki á hakanum og var heimsókn í listasafn á dagskránni, einnig danskvöld og svo elduðu þátttakendur hvers lands einhvern þjóðlegan rétt og hópurinn naut sameiginlegrar máltíðar. MTR-nemar elduðu kjötsúpu og segja að hún hafi slegið í gegn. Hjá þeim vakti athygli rétturinn frá Litháen – en það voru kleinur alveg eins og þær íslensku nema hvað flórsykri hafði verið stráð yfir þær. Lokapunktur verkefnisins var sjónvarpsþáttur sem nemendur gerðu og sendu út beint á föstudeginum en norski skólinn er vel búinn tækum til slíks. Þáttinn má sjá hér. Hundasleðaferð var sá atburður sem stóð uppúr hjá Íslendingunum.
Lesa meira

Góð heimsókn

Nemendur úr Glerárskóla á Akureyri kynntu sér nám og aðstæður í MTR í dag. Þetta var um þrjátíu manna hópur sem hóf heimsóknina í Fjallabyggð í Síldarminjsafningu á Siglufirði. Eftir það bauð MTR upp á hádegismat og síðan fengu gestirnir fyrirlestur um uppbyggingu námsins, skiptingu í brautir, skoðuðu nokkur myndbönd úr skólastarfinu og fengu nasasjón af sýndarveruleika.
Lesa meira

Ekkert sumarnám

Menntaskólinn á Tröllaskaga er ekki með sumarnám. Skráning í fjarnám fyrir haustönn 2018 stendur yfir frá eftirfarandi síðu (smellið á frétt)
Lesa meira

Ungir gestir

Tuttugu glaðlegir krakkar úr tíuunda bekk Grunnskóla Fjallabyggðar heimsóttu MTR í gær ásamt tveimur stafsmönnum skólans. Tilgangurinn var að kynna sér námsframboð og aðstæður í skólanum en sumir úr hópnum hafa tekið einstaka áfanga í MTR í vetur og þekkja þegar eitthvað til skólastarfsins. Með þessum hætti geta krakkar flýtt fyrir sér í námi auk þess kynnast nýju skólastigi í áföngum. Sigríður Ásta Hauksdóttir, náms- og starfsráðgjafi sem tók á móti hópnum segir að krakkarnir hafi verið áhugasamir um skólann og frekara nám. Þau fengu að prófa sýndarveruleikatækin í MTR og var í lok heimsóknar boðið í mat í Hrafnavogum.
Lesa meira

Aukið gagnsæi

Hluti reikninga Menntskólans á Tröllaskaga verður aðgengilegur á opnirreikningar.is – frá og með morgundeginum 11. apríl. Opnirreikningar.is var opnaður í september 2017 með það að markmiði að auka gagnsæi og aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins. Á vefnum er unnt að skoða upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins. Birtar eru upplýsingar úr fjárhagskerfi ríkisins. Vefurinn er uppfærður mánaðarlega og nýjar upplýsingar birtast að jafnaði 10. hvers mánaðar. Þær upplýsingar sem birtar eru tengjast reikningum sem greiddir voru í mánuðinum á undan.
Lesa meira

Frumlegar túlkanir á Laxdælu

Nemendur í áfanganum ÍSLE2FM05 eru þessa dagana að lesa Laxdælu sér til ánægju og yndisauka. Þar nýta þau sér m.a. ættfræðiforrit á netinu til að setja saman ættartré yfir helstu persónur sögunnar til að átta sig betur á skyldleika þeirra enda hefndarskyldan rík á þeim dögum og mikilvægt að vita hverjir voru tengdir tryggðar- og blóðböndum. Þá eru önnur verkefnin úr sögunni gjarnan ekki hefðbundnar spurningar sem svara þarf heldur er boðið upp á margvíslegar útfærslur í hverju þeirra. Í grunninn er um ritunarverkefni að ræða sem skila má sem skapandi verkefni ef nemendur hafa til þess áhuga og löngun og þá helst með einkunnarorð skólans í huga: Frumkvæði - sköpun - áræði.
Lesa meira

Listamaður mánaðarins

Hin nýju salarkynni skólans bjóða upp á ýmsa möguleika, m.a. hefur aðstaða til sýningarhalds batnað til mikilla muna með tilkomu þeirra. Í mars var hleypt af stokkunum nýju verkefni í skólanum, verkefni sem ætlað er að efla tengsl skólans og samfélagsins. Verkefnið felst í því að í hverjum mánuði sem skólahald fer fram verður einum listamanni af svæðinu boðið að sýna verk sín á afmörkuðu svæði í sal skólans. Verða verkin nemendum og starfsfólki skólans til yndisauka auk þess sem íbúum svæðisins og gestum er velkomið að líta inn og skoða þau. Einnig mun listafólkið segja nemendum á listabraut frá verkunum, vinnuaðferðum sínum og listsköpun. Fyrsti „listamaður mánaðarins“ var Guðrún Þórisdóttir, eða Garún eins og hún kallar sig. Hafa verk hennar verið til sýnis í skólanum síðastliðin mánuð. Hún er búsett í Ólafsfirði og hefur unnið þar að list sinni. Hún var kjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2012, hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Garún ræddi við nemendur á listabraut í vikunni og hlustuðu þau af athygli. Listamaður apríl mánaðar verður Arnfinna Björnsdóttir frá Siglufirði, sem var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2017. Mun sýning með verkum hennar opna þann 11. apríl og vera uppi fram undir vorsýningu skólans er fer fram þann 12. maí.
Lesa meira

Nýbreytni - menntaleikar

Hafið er tilraunaverkefni um leikjavæðingu í kennslu í báðum enskuáföngum skólans sem kenndir eru á önninni. Það gengur undir nafninu „menntaleikarnir.“ Leikjavæðing (gamification) gengur út á að nota aðferðir leikja, sér í lagi tölvuleikja, til að hvetja nemendur áfram í námi. Tilraunin felst í því að nemendur geta unnið sér inn stig með því að vera virkir í námi sínu. Stigin geta þeir svo notað til ýmiskonar „galdra“ - til dæmis til að vekja gömul verkefni upp frá dauðum og vinna þau betur. Nemendur geta náð sér í fleiri stig á ýmsa vegu, til dæmis með því að halda spurningaleiki í tímum eða benda á villur kennara. Helsta markmið þeirra allra duglegustu er hinsvegar að ná nógu mörgum stigum til að fremja kraftmesta galdurinn. Það er að koma með búning og farða fyrir kennarann, Tryggva Hrólfsson, skreyta hann vandlega og taka mynd af sér með honum þannig til reika.
Lesa meira

Gamithra keppir í forritun

Gamithra Marga, fjarnemi við MTR, náði þriðja sæti í Forritunarkeppi framhaldsskólanna um síðustu helgi. Þetta er liðakeppni og var hún í liðinu Sætar Kartöflur með Friðriki Njálssyni og Sigurði Orra Hjaltasyni frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Tækniskólanum. Forritunarkeppninni er skipt í tvær deildir eftir erfiðleikastigi. Gamithra og félagar hennar voru í Beta deildinni sem er sú erfiðari og ætluð nemendum sem eru lengra komnir eða hafa góð tök á forritun og treysta sér til að leysa krefjandi verkefni. Það er Háskólinn í Reykjavík sem heldur Forritunarkeppni framhaldsskólanna. Gamithra Marga er frá Eistlandi. Hún flutti til Íslands í árslok 2016. Áður hafði hún lært talsvert í íslensku á netinu og hefur nú náð prýðilegum tökum á málinu. Fjölskylda Gamithru býr í Tallin höfuðborg Eistlands en áður stundaði hún nám í háskólaborginni Tartu.
Lesa meira