06.04.2018
Nemendur í áfanganum ÍSLE2FM05 eru þessa dagana að lesa Laxdælu sér til ánægju og yndisauka. Þar nýta þau sér m.a. ættfræðiforrit á netinu til að setja saman ættartré yfir helstu persónur sögunnar til að átta sig betur á skyldleika þeirra enda hefndarskyldan rík á þeim dögum og mikilvægt að vita hverjir voru tengdir tryggðar- og blóðböndum. Þá eru önnur verkefnin úr sögunni gjarnan ekki hefðbundnar spurningar sem svara þarf heldur er boðið upp á margvíslegar útfærslur í hverju þeirra. Í grunninn er um ritunarverkefni að ræða sem skila má sem skapandi verkefni ef nemendur hafa til þess áhuga og löngun og þá helst með einkunnarorð skólans í huga: Frumkvæði - sköpun - áræði.
Lesa meira
05.04.2018
Hin nýju salarkynni skólans bjóða upp á ýmsa möguleika, m.a. hefur aðstaða til sýningarhalds batnað til mikilla muna með tilkomu þeirra. Í mars var hleypt af stokkunum nýju verkefni í skólanum, verkefni sem ætlað er að efla tengsl skólans og samfélagsins. Verkefnið felst í því að í hverjum mánuði sem skólahald fer fram verður einum listamanni af svæðinu boðið að sýna verk sín á afmörkuðu svæði í sal skólans. Verða verkin nemendum og starfsfólki skólans til yndisauka auk þess sem íbúum svæðisins og gestum er velkomið að líta inn og skoða þau. Einnig mun listafólkið segja nemendum á listabraut frá verkunum, vinnuaðferðum sínum og listsköpun.
Fyrsti „listamaður mánaðarins“ var Guðrún Þórisdóttir, eða Garún eins og hún kallar sig. Hafa verk hennar verið til sýnis í skólanum síðastliðin mánuð. Hún er búsett í Ólafsfirði og hefur unnið þar að list sinni. Hún var kjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2012, hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum. Garún ræddi við nemendur á listabraut í vikunni og hlustuðu þau af athygli.
Listamaður apríl mánaðar verður Arnfinna Björnsdóttir frá Siglufirði, sem var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2017. Mun sýning með verkum hennar opna þann 11. apríl og vera uppi fram undir vorsýningu skólans er fer fram þann 12. maí.
Lesa meira
03.04.2018
Hafið er tilraunaverkefni um leikjavæðingu í kennslu í báðum enskuáföngum skólans sem kenndir eru á önninni. Það gengur undir nafninu „menntaleikarnir.“ Leikjavæðing (gamification) gengur út á að nota aðferðir leikja, sér í lagi tölvuleikja, til að hvetja nemendur áfram í námi. Tilraunin felst í því að nemendur geta unnið sér inn stig með því að vera virkir í námi sínu. Stigin geta þeir svo notað til ýmiskonar „galdra“ - til dæmis til að vekja gömul verkefni upp frá dauðum og vinna þau betur. Nemendur geta náð sér í fleiri stig á ýmsa vegu, til dæmis með því að halda spurningaleiki í tímum eða benda á villur kennara. Helsta markmið þeirra allra duglegustu er hinsvegar að ná nógu mörgum stigum til að fremja kraftmesta galdurinn. Það er að koma með búning og farða fyrir kennarann, Tryggva Hrólfsson, skreyta hann vandlega og taka mynd af sér með honum þannig til reika.
Lesa meira
23.03.2018
Gamithra Marga, fjarnemi við MTR, náði þriðja sæti í Forritunarkeppi framhaldsskólanna um síðustu helgi. Þetta er liðakeppni og var hún í liðinu Sætar Kartöflur með Friðriki Njálssyni og Sigurði Orra Hjaltasyni frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Tækniskólanum. Forritunarkeppninni er skipt í tvær deildir eftir erfiðleikastigi. Gamithra og félagar hennar voru í Beta deildinni sem er sú erfiðari og ætluð nemendum sem eru lengra komnir eða hafa góð tök á forritun og treysta sér til að leysa krefjandi verkefni. Það er Háskólinn í Reykjavík sem heldur Forritunarkeppni framhaldsskólanna.
Gamithra Marga er frá Eistlandi. Hún flutti til Íslands í árslok 2016. Áður hafði hún lært talsvert í íslensku á netinu og hefur nú náð prýðilegum tökum á málinu. Fjölskylda Gamithru býr í Tallin höfuðborg Eistlands en áður stundaði hún nám í háskólaborginni Tartu.
Lesa meira
22.03.2018
Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga hefur margt til brunns að bera og býr yfir fjölbreyttum hæfileikum öðrum en þeim sem snúa beint að kennslunni þó ýmsir þeirra nýtist þar vel. Í hópnum má m.a. finna söngfugla, ljóðskáld, golfara, kjólameistara, kvæðafólk, listljósmyndara, blakara, jógakennara, listmálara, leikritaskáld, gítarleikara, íþróttafrömuði, laga- og textahöfunda, forritara, skíðafólk, björgunarsveitafólk, fréttamann og söngvaskáld. Söngvaskáldið í hópnum fagnar 40 ára tónlistarferli um þessar mundir og ætlar að halda 40 tónleika með frumsömdu efni á árinu af því tilefni. Fyrstu tónleikarnir fóru fram í sal MTR í hádegishléi í vikunni þar sem ljúfar veitingar runnu niður með ljúfum tónum. Gaman er að segja frá því að eitt laganna var við texta eftir skólameistarann Láru Stefánsdóttur.
Lesa meira
14.03.2018
Framreiðsla er fjölbreytt starf þar sem reynir á margskonar þekkingu og hæfni og einnig á leikni í mannlegum samskiptum. Í miðannarvikunni fékk tólf manna hópur innsýn í þetta starf á Hótel Sigló, Rauðku og Hannes boy. Nemendur lögðu á borð fyrir tvær stórar veislur, lærðu fjölda servíettubrota, að þjóna og halda á diskum og einnig um uppruna og tegundir borðvína.
Gestir veitingahúsa koma úr öllum stéttum, frá almennum borgurum til þjóðhöfðingja og þarf framreiðslufólk að hafa kunnáttu og þekkingu til að umgangast og uppfylla kröfur ólíkra þjóðfélagshópa. Starfið er skapandi og gefandi og reynir á frumkvæði við að skapa þær aðstæður sem óskað er eftir við mismunandi tilefni. Nemendum þótti námskeiðið hjá Sigmari Bech framreiðslumanni einkar áhugavert.
Lesa meira
13.03.2018
Útivist í snjó, heitir áfangi þar sem nemendur fá að kynnast ýmsum vetraríþróttum ásamt því að læra hvernig á að bera sig að við ýmsar aðstæður sem upp geta komið í fjallaferðum að vetri. Við vorum svo heppin að hjónin María og Gunnar komu frá Akureyri með hundasleðana sína ásamt átta Síberíu-husky. Í þessari íþrótt er keppt og voru þau um síðustu helgi við keppni á Mývatni. Nemendur MTR fengu að reyna sig á sleðunum við mikla gleði. Þetta var mikil upplifun ekki síst fyrir þá sem eiga erfitt með að vera nálægt hundum. Þessi tegund hefur oft fengið neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum þannig að segja má að komið hafi á óvart hversu mikil ljúflyndis dýr þetta reyndust vera.
Lesa meira
12.03.2018
Í miðannaráfanga smíðuðu nokkrir nemendur frá grunni gamaldags spilakassa. Hann hentar til að spila klassíska tölvuleiki, þrjátíu til fjörutíu ára gamla. Mikil orka og tími fór í sjálfa trésmíðina en uppsetning vél- og hugbúnaðar tók líka sinn tíma. Markmið í áfanganum var að veita nemendum þekkingu og skilning á tækjaforritun. Þeir áttu líka að öðlast leikni í að greina og skilja hugbúnað og vélbúnað og samspil þeirra og geta beitt bilanagreiningu, leyst vandamál og gert við. Spilakassinn verður aðgengilegur í opnu rými í skólanum.
Annað verkefni í áfanganum var að gera klára Alexu, gervigreindartæki sem hægt er að nota til ýmissa hluta en mun til að byrja með stýra hljóði í Hrafnavogum.
Kennari í áfanganum var Eyþór Máni Steinarsson.
Lesa meira
09.03.2018
Í þessum miðannaráfanga kynnast nemendur meðal annars fjölbreyttum íþróttagreinum sem þeir þekktu ekki áður. Markmiðið er að hver og einn geti fundið „sína íþrótt“ og stundað hana til að lifa heilsusamlegu lífi. Kynningarnar eru bæði bóklegar og verklegar. Leiðbeinandi er Örn Elí Gunnlaugsson, útskrifaður af íþróttabraut MTR fyrir nokkrum árum. Örn Elí er í þriggja vikna starfsnámi við skólann en hann útskrifast sem íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands í vor.
Lesa meira
08.03.2018
Tíu starfsbrautarnemar kynnast í miðannarvikunni rekstri veitinga- og gistihúss. Það er Ida Semey, eigandi Kaffi Klöru og Anna Kristín dóttir hennar sem leiðbeina hópnum við margvísleg störf. Nemendahópurinn hefur meðal annars tekið þátt í velja rétti á matseðil, matreiða þá og framreiða. Lagaðir hafa verið spennandi spænskir réttir, þeytingur eða búst og margt fleira. Nemendurnir hafa líka afgreitt á veitingahúsinu og í mötuneyti skólans og þeir hafa þvegið upp og gengið frá eftir máltíðir, búið um rúm, ryksugað og skúrað.
Lesa meira