Val í miðannarviku

Staðnemar geta valið úr spennandi áföngum í miðannarvikunni. Einn hefur titilinn „hugsað út fyrir kassann“ og er ætlaður hugmyndaríku fólki og þeim sem hafa áhuga á hönnun. Verkefni verða unnin í nokkrum forritum og síðan búin til heimasíða þar sem þeim verður safnað saman. Leiðbeinandi verður Lilja Hauksdóttir. „Hreyfing, hamingja og gleði“ er lýstandi titill á öðrum áfanga. Kennari þar er Örn Elí Gunnlaugsson, íþróttafræðingur. Áfanginn er sérsniðinn fyrir starfsbraut en aðrir nemendur geta óskað eftir á fá að vera með. Í þriðja lagi gefst áhugafólki um tölvuleiki kostur á svokallaðri MEGA-viku. Þar verður fjallað um rafíþróttir og keppt á einu slíku íþróttamóti. Ýmsir hreyfitölvuleikir verða prófaðir og nemendur fá tækifæri til að læra með leik á sviði vísinda og verkfræði. Leiðbeinandi er Sæmundur Ámundason. Þá er ótalið að nemendur sem komnir eru nokkuð áleiðis í námi eiga kost á að aðstoða við ráðstefnuhald í miðannarvikunni en þá fer fram alþjóðlega ráðstefnan Global Education in a Rural Environment sem MTR heldur í Ólafsfirði dagana 15.-19. október. Sjá hér: https://www.mtr.is/ecomedia