Fréttir

Öskrað á fjöllin

Að venju sýna nemendur afrakstur vinnu sinnar og sköpunar í lok annar. Að þessu sinni verða meðal annars til sýnis portrettverk, módelteikningar og ýmis verk úr inngangi að listum. Einnig verða sýnd verk úr fagurfræði, þar á meðal athyglisvert vídeóverk sem ber titilinn Öskrað á fjöllin. Nemendur í fréttaljósmyndun og stúdíóljósmyndun sýna sín verk, skapandi enskuverkefni verða til sýnis, verkefni úr eðlis- og efnafræði og fleiri námsgreinum. Sýningin verður opin frá 13:00-16:00 laugardaginn 12. maí. Allir velkomnir.
Lesa meira

Eldri borgarar snappa í MTR

Segja má að hlutverkum hafi verið snúið við í kennslustund í upplýsingatækni í gær. Nemendur voru átta eldri borgarar frá Siglufirði en kennarar voru nemendur í áfanganum. Nemendurnir lærðu meðal annars á Snapchat, Facebook, YouTube, tölvupóst, Safari, Garnstudio og Ravelry á þessu örnámskeiði. Sólveig L. Brinks ein þeirra sem tók þátt í kennslunni segir að þetta hafi verið ánægjuleg stund, sér hafi liðið eins og hún væri að leiðbeina afa og ömmu.
Lesa meira

Sjósund í vorblíðunni

Nemendur í lýðheilsuáföngum vorannar luku önninni með stæl með því að stökkva í sjóinn og ýta aðeins við sogæðunum eins og kennari þeirra talar um, en þau eru orðin mjög örugg í því að vaða í sjóinn eftir að hafa farið í nokkur skipti í íþróttatímum í vetur. Veðrið lék við þau í morgun og enduðu þau svo tímann í heita pottinum.
Lesa meira

Hæfileikakeppni starfsbrauta

Nemendur á starfsbraut MTR gerðu góða ferð á hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna á Egilsstöðum. Framlag þeirra var myndband með laginu „I choose you“ eftir Andy Grammer. Í áfanganum skapandi tónlist lærðu nemendurnir að syngja lagði og spila það á gítar, bassa, hljómborð og trommur. Meðan á þessari vinnu stóð var tekið upp myndband.
Lesa meira

Hvað er fegurð og hvað er ljótleiki?

Sýningin Hið í Pálshúsi Þessum spurningum hafa nemendur í Fagurfræðiáfanga við Menntaskólann á Tröllasaga verið að velta fyrir sér. Afraksturinn verður til sýnis föstudaginn 4.maí kl. 16:00 þegar sýningin, Hið opnar í Pálshúsi á Ólafsfirði. Nemendurnir hafa verið að skoða myndlist frá sjónarhóli fagurfræðinnar. Sýningin samanstendur af verkum sem fjalla um hið fagra, hið háleita og hið gróteska. Túlkun þeirra er ólík og nálgast hver viðfangsefnið með sínum hætti. Sýningin er aðeins þessa helgi og er opin frá föstudegi kl.16 – 18 og laugardegi frá kl. 13 – 16.
Lesa meira

MTR að góðu getið

Skólinn er kominn á blað í Handbók um rannsóknir á upplýsingatækni í námi og blönduðum kennsluháttum (Handbook of Research on K-12 Online and Blended Learning). Þar kemur fram að skólinn hafi vakið athygli fyrir ný viðhorf til kennslu með víðtækri notkun upplýsingatækni og fyrir margháttað samstarf við aðra skóla, svæðisbundið og á landsvísu, en einnig fjölþjóðlegt samstarf.
Lesa meira

MTR-list í Kaliforníu

Nemendur og kennarar MTR eiga listaverk á tveimur sýningum sem opnar eru Monterey og Santa Cruz í Kaliforníu. Skólinn er í samstarfi við Monterey Peninsula College (MPC) um verkefni sem kallast „Shared Seas“ og fjallar um að við deilum hafinu. Sýningarnar eru haldnar til að heiðra þetta menningarsamstarf tveggja sjávarþorpa sem staðið hefur í tvö ár. Þar gefur að líta verk eftir nemendur og starfsmenn skólanna tveggja. Sýningar eru í Radius Gallery, þar sem sýningarstjórn er í höndum Robynn Smith og Margaret Niven og í Monterey Peninsula College Gallery, undir stjórn Melissu Pickford. Meðal þeirra sem eiga verk á sýningunum eru Margaret Niven, Linda Craighead, Jamie Dagdigian, Claire Thorson, Bergþór Morthens, Lára Stefánsdóttir, Alkistis Terzi, Karólína Baldvinsdóttir, Robynn Smith, Páll Helgi Baldvinsson, Anna Þórisdóttir, Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir og Telma Róbertsdóttir. Einnig eru sýnd tvö verk sem voru unnin í samstarfi fjölmargra nemenda í MTR.
Lesa meira

Forritarar framtíðarinnar

Á mánudögum koma nokkrir nemendur úr 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar í valtíma hjá Ingu stærðfræðikennara MTR. Tímarnir eru á vegum Grunnskólans en nemendur mæta í MTR og nýta ýmislegt dót sem þar er til. Þeir hafa í vetur prófað Ozobot, Sphero, little bits, Lego WeDo og eru nú að vinna með Lego Mindstorm. Einnig hafa þeir fengið að prófa retró leikjatölvu skólans (Atari) og VR græjurnar. Í dag var samt tekin smá pása frá Lego Mindstorm vinnunni og prufuð nokkur forritunar öpp í iPad. Meðal appa sem þeir þeir gátu prófað voru Move the Turtle, Kodable, Lightbot Code Hour, Boogie Bot, Robot School og Box Island. Markmiðið með þessum prufum var að gefa kennara smá munnlega skýrslu um hvernig þessi forrit höfðuðu til þeirra, hvert þeirra væri skemmtilegast og hvað aldri þau gætu hentað. Það var greinilegt að Lightbot Code Hour höfðaði best til þeirra og í lok tímans voru þeir allir komnir á kaf í Lightbot. Lightbot er mjög gott app sem kennir börnum og unglingum grunnhugtök forritunar. Appið er afar hentugt öllum þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í forritun og er fyrir nemendur allt frá 1. bekk og upp í 10. bekk og jafnvel eldri. Það er því alveg ástæða fyrir mömmu og pabba eða jafnvel afa og ömmu að ná sér appið. Tilgangurinn þess er eins og áður segir að kenna grunnhugtök forritunar s.s. skipanir, aðgerðir og endurtekningar og gerir forritið það vel.
Lesa meira

Á hundasleða í Noregi

Sex nemendur MTR tóku þátt í samstarfsverkefninu HELP í síðustu viku. Auk norskra og íslenskra þátttakenda eru nemendur frá Litháen og Spáni með í verkefninu. Viðfangsefnið var vistvænar afurðir og vistvænar merkingar. Íslensku nemendurnir greindu frá því að hér væru ekki vistvænar merkingar sem hægt væri að taka mark á en þátttakendur frá hinum ríkjunum sögðu að lög giltu um slíkar merkingar hjá sér. Íslendingarnir greindu meðal annars frá Brúneggjamálinu og að þeir teldu að bæta þyrfti stöðuna í þessum málum hér á landi. Á dagskránni var heimsókn á vistvænan búgarð þar sem hægt var að skoða dýrin í návígi og kynna sér allan aðbúnað þeirra. Hópurinn heimsótti líka dýragarð þar sem einn íslendingurinn varð fyrir því að lamadýr hrækti í augað á honum. Listir og menning sátu ekki á hakanum og var heimsókn í listasafn á dagskránni, einnig danskvöld og svo elduðu þátttakendur hvers lands einhvern þjóðlegan rétt og hópurinn naut sameiginlegrar máltíðar. MTR-nemar elduðu kjötsúpu og segja að hún hafi slegið í gegn. Hjá þeim vakti athygli rétturinn frá Litháen – en það voru kleinur alveg eins og þær íslensku nema hvað flórsykri hafði verið stráð yfir þær. Lokapunktur verkefnisins var sjónvarpsþáttur sem nemendur gerðu og sendu út beint á föstudeginum en norski skólinn er vel búinn tækum til slíks. Þáttinn má sjá hér. Hundasleðaferð var sá atburður sem stóð uppúr hjá Íslendingunum.
Lesa meira

Góð heimsókn

Nemendur úr Glerárskóla á Akureyri kynntu sér nám og aðstæður í MTR í dag. Þetta var um þrjátíu manna hópur sem hóf heimsóknina í Fjallabyggð í Síldarminjsafningu á Siglufirði. Eftir það bauð MTR upp á hádegismat og síðan fengu gestirnir fyrirlestur um uppbyggingu námsins, skiptingu í brautir, skoðuðu nokkur myndbönd úr skólastarfinu og fengu nasasjón af sýndarveruleika.
Lesa meira