Mín framtíð 2019 er Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning í Laugardalshöll þar sem fræðsluaðilar kynna fjölbreytt námsframboð á framhaldsskólastigi og fram fer keppni á Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Boðið er upp á ýmsa viðburði, kynningar og ekki síst að prófa, fikta, snerta og smakka.
Sérstök opnun er fyrir nemendur í 10. bekk fimmtudag og föstudag en á þá er opið milli kl. 14 og 17 fyrir almenning sem og laugardaginn 16. mars milli klukkan 10 og 16.
Menntaskólinn á Tröllaskaga er með sýningarbás þar sem nám og aðferðafræði skólans er kynnt.
Fjarnemar skólans af höfuðborgarsvæðinu eru boðnir sérstaklega velkomnir. Nú stendur yfir val fyrir næstu önn og því tilvalið að kíkja á námsráðgjafa og þá kennara sem eru á svæðinu og fá aðstoð við valið.
Á meðfylgjandi myndum má m.a. sjá Sigríði Ástu námsráðgjafa ræða val næstu annar við fjarnemann Andreu Stefánsdóttur og Ingu stærðfræðikennara kenna staðnemendum Menntaskólans stærðfræði frá Laugardalshöll í gegnum nærveruna Lóló.