Fréttir

Samstarfsverkefni MTR og Leikhóla

Nemendur Tröllahóls, fjögurra og fimm ára úr Leikhólum í Ólafsfirði, heimsóttu okkur í MTR í morgun. Þau höfðu meðferðis og afhentu myndir sem starfsbrautarnemar okkar munu svo semja sögur útfrá. Myndefnið var frjálst en flestir teiknuðu fólk, til dæmis fjölskyldu sína, en sumir teiknuðu tröll og aðrar fígúrur sem ekki búa í mannheimi. Hugmyndin að þessu skemmtilega samstarfsverkefni MTR og Leikhóla eiga hjónin Guðrún Þorvaldsdóttir og Hólmar Hákon Óðinsson. Hann er umsjónarmaður starfsbrautar en hún er iðjuþjálfi bæði í leikskólanum og MTR. Sögurnar með myndum verða á sýningu skólans á verkum nemenda í desember.
Lesa meira

Öðruvísi vinnutilhögun

Valgerður Ósk Einarsdóttir er dönskukennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og Fjölbrautaskóla Snæfellinga en býr í Borgarnesi. Í báðum skólunum er lögð áhersla á vendikennslu og fjölbreytt notkun upplýsingatækni gerir kennurum kleift að sinna starfinu með öðrum hætti en áður var. Í MTR hefur fjarnemum í námshópum fjölgað og staðnemum fækkað. Nemendur búa víða um land og nokkrir erlendis. Kennsluaðferðir með áherslu á vendikennslu henta báðum hópum og lögð er áhersla á að tryggja að allir nemendur hafi aðgang að sömu upplýsingum. Valgerður Ósk flutti frá Ólafsfirði í Borgarnes síðasta vor. Ákveðið var að hún kenndi áfram dönsku í MTR, sem fjarkennari, til reynslu í vetur. Síðan sótti hún um og fékk hlutastarf dönskukennara í FSN í Grundarfirði. Meirihluti nemenda eru staðnemar þar en hluti er í deild skólans á Patreksfirði. Valgerður hefur farið nokkrum sinnum í Grundarfjörð í haust til að hitta nemendur og leiðbeina þeim með vinnubrögð og aðferðir við fjarnámið. Hún hefur einnig komið til Ólafsfjarðar og hitt staðnema hér. Á myndinni stendur Valgerður Ósk á milli þeirra Hrafnhildar Hallvarðsdóttur, skólameistara FSN og Láru Stefánsdóttur, skólameistara MTR. Hún lætur vel af því að þjóna þessum tveimur frúm, en hún hefur raunar starfað með báðum árum saman.
Lesa meira

MEGAvika á miðönn

Mikil ánægja var með MEGAviku MTR á miðönninni þar sem fjallað var um tölvuleiki og rafíþróttir. Áhersla var lögð á að kynna nemendum hvernig hægt væri að nálgast tölvur og tölvuleiki á nýjan hátt og leika sér til gagns. Í hópnum voru nemendur sem hafa tölvuleiki að aðaláhugamáli en einnig nemendur sem aldrei höfðu spilað tölvuleik. Til að hrista hópinn saman var m.a. notast við hreyfileiki á borð við Mario Tennis og Just Dance fyrir Nintendo Switch þar sem hreyfing, nákvæmni, samhæfing og samkeppni sköpuðu stemmingu í hópnum.
Lesa meira

Reiðtúr á Sauðanesi

Blandaður miðannaráfangi starfsbrautar og annarra nemenda var sérlega fjölbreyttur. Viðfangsefnið var atvinnulíf og menning í víðum skilningi, - heimsóknir og upplifun. Hópurinn heimsótti lögregluna, slökkviliðið og björgunarsveitina þar sem hópurinn fékk frábærar móttökur. Nemendur skoðuðu búnað og tæki og var boðið í stutta jeppaferð. Sjóferð var lærdómsrík þar sem hópurinn upplifði róður á smábát og í fiskvinnslufyrirtæki kynntu menn sér hvað yrði um sjávarfangið. Hópurinn átti góða stund við bakstur og bingó með eldri borgurum í Ólafsfirði en hjá flestum stóð reiðtúr á Sauðanesi uppúr þegar mat var lagt á athafnir vikunnar. Leiðbeinandi í áfanganum var Örn Elí Gunnlaugsson, íþróttafræðingur.
Lesa meira

Grafísk hönnun

Sextán nemendur völdu að kynna sér grundvallaratriðin í sjónrænni og grafískri hönnun í miðannarvikunni. Hver og einn bjó til sína heimasíðu og færði inn á hana margskonar verkefni sem voru unnin í vikunni. Meðal annars voru það veggspjöld, lógó, munstur og grafískt efni af ýmsu tagi. Fjallað var um ferlið frá hugmynd til afurðar, um auglýsingahönnun, litasamsetningar, leturgerðir og ýmsar leiðir til að fá innblástur til hönnunar. Inn á milli voru leikir og hópefli til að hrista upp í hópnum. Á fimmtudag fóru þátttakendur í heimsókn í Myndlistarskólann á Akureyri þar sem grafísk hönnun og myndlist er kennd. Mikil ánægja var með áfangann, sem Lilja Hauksdóttir skipulagði og kenndi.
Lesa meira

Upplýsingatækniþjálfun kennara

Í Austurríki er sérstök stofnun sem sinnir því hlutverki að auka hæfni kennara og bæta frammistöðu skóla á sviði upplýsingatækni. Hún er í menntamálaráðuneyti Austurríkis. Andreas Riepl, framkvæmdastjóri hennar, lýsti skipulaginu á evrópuráðstefnunni í MTR. Einstakir skólar skrá sig til þátttöku í verkefninu og þurfa síðan að gera reglulega grein fyrir þeim skrefum sem tekin hafa verið. Frammistaðan hefur áhrif á fjárveitingar til skólanna. Þeir eru á ýmsum stigum. Á þriðja þúsund skólar taka þátt og hafa tæplega átta hundruð náð því stigi að teljast „sérfræðingar“ í notkun upplýsingatækni. Mat er bæði sjálfsmat og formleg úttekt. Stofnunin útbýr líka eða útvegar námsefni fyrir kennara á mismunandi skólastigum. Einnig er kennurum greitt fyrir efni sem sett er inn í gagnabanka sem kallast eTapas. Andreas Riepl sagði að reynt væri að fókusera á nám og kennslu fremur en tæknina sem notuð er. Hann greindi frá ráðstefnu sem hann hefði sótt nýlega þar sem risarnir á sviði uppýsingatækni, Google, Microsoft, Apple og fleiri kynntu sig og sitt. Ekki fór á milli mála að hann taldi Google vera með bestu nálgunina á viðfangsefnið út frá námi, hæfni og þróun. Hin fyrirtækin væru uppteknari af því að selja sín eigin tæki.
Lesa meira

GERE-ráðstefnan hafin

Lára Stefánsdóttir, skólameistari setti evrópuráðstefnuna um hnattræna menntun í dreifbýli í sal skólans, Hrafnavogum, síðdegis. Hún útskýrði hvernig nám í MTR væri skipulagt og hve sveigjanleg námsskrá væri mikilvæg við uppbyggingu framhaldsskóla hér á landi. Herbert Eile, leiðtogi alþjóðlegu samtakanna um upplýsingatækni í skólstarfi ræddi um mikilvægi menntunar í dreifbýli og þakkaði þeim sem hafa undirbúið ráðstefnuna. Gestir eru um áttatíu þar af um helmingur frá öðrum löndum. Í morgun notuðu fjölmargir gestanna tækifærið og fóru í skólaheimsóknir í Fjallabyggð en einnig fór hópur í kynnisferð í Háskólann á Akureyri. Þar hafði fólk mestan áhuga á róbót sem nýlega hefur verið tekinn í notkun. Eftir heimsóknina í HA skoðaði hópurinn Akureyri og nágrenni í fegursta haustveðri.
Lesa meira

Alþjóðleg ráðstefna

Hnattræn menntun í dreifbýli er yfirskrift alþjóðlegrar ráðstefnu sem MTR heldur í Ólafsfirði í næstu viku. Nýjar aðferðir, hreyfanleiki og aðlögun verða í forgrunni margvíslegrar umfjöllunar um upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta er þrettánda ecoMEDIAeurope ráðstefnan. Starfsmenn MTR hafa sótt margar þeirra fyrri og verið áberandi þar. Þess vegna lögðu ecoMEDIAeurope samtökin til að skólinn héldi ráðstefnuna í ár til að starfsmenn annarra skóla gætu fræðst um kennsluaðferðir og skipulag náms í MTR. Leiðtogar, sérfræðingar, kennarar og aðrir starfsmenn frá nokkrum löndum auk Íslands sækja ráðstefnuna sem stendur í fimm daga. Um áttatíu hafa skráð sig til leiks – um helmingur frá öðrum löndum. Meðal annars koma gestir frá Þýskalandi, Sviss, Grikklandi, Lettlandi, Danmörku og Bandaríkjunum. Nánar um ráðstefnuna hér: https://www.mtr.is/ecomedia
Lesa meira

Vandræðaskáld í hádeginu

Einn af viðburðum ljóðahátíðarinnar Haustglæður fór fram í Hrafnavogum í hádeginu. Vandræðaskáldin sungu og skemmtu heimamönnum í skólanum og gestum. Tvímenningarnir gerðu grín að sjálfum sér og öðrum. Líka samgöngumannvirkjum, svo sem brúm yfir „ekkert“ og ýmsu fleiru sem of langt yrði upp að telja. Ljóðasetrið á Siglufirði og Ungmennafélagið Glói standa fyrir ljóðahátíðinni Haustglæðum og rekur hver atburðurinn þessa dagana.
Lesa meira

Val í miðannarviku

Staðnemar geta valið úr spennandi áföngum í miðannarvikunni. Einn hefur titilinn „hugsað út fyrir kassann“ og er ætlaður hugmyndaríku fólki og þeim sem hafa áhuga á hönnun. Verkefni verða unnin í nokkrum forritum og síðan búin til heimasíða þar sem þeim verður safnað saman. Leiðbeinandi verður Lilja Hauksdóttir. „Hreyfing, hamingja og gleði“ er lýstandi titill á öðrum áfanga. Kennari þar er Örn Elí Gunnlaugsson, íþróttafræðingur. Áfanginn er sérsniðinn fyrir starfsbraut en aðrir nemendur geta óskað eftir á fá að vera með. Í þriðja lagi gefst áhugafólki um tölvuleiki kostur á svokallaðri MEGA-viku. Þar verður fjallað um rafíþróttir og keppt á einu slíku íþróttamóti. Ýmsir hreyfitölvuleikir verða prófaðir og nemendur fá tækifæri til að læra með leik á sviði vísinda og verkfræði. Leiðbeinandi er Sæmundur Ámundason. Þá er ótalið að nemendur sem komnir eru nokkuð áleiðis í námi eiga kost á að aðstoða við ráðstefnuhald í miðannarvikunni en þá fer fram alþjóðlega ráðstefnan Global Education in a Rural Environment sem MTR heldur í Ólafsfirði dagana 15.-19. október. Sjá hér: https://www.mtr.is/ecomedia
Lesa meira