17.05.2019
Menntaskólinn á Tröllaskaga varð „Stofnun ársins 2019“ í flokki meðalstórra ríkisstofnana á hátíðlegri athöfn á Hilton Nordica 15. maí að viðstöddu fjölmenni. Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna. Valið er byggt á svörum rúmlega 10 þúsund starfsmanna í einni stærstu vinnumarkaðskönnun landsins. Gallup framkvæmir könnunina fyrir Sameyki stéttarfélag.
Lesa meira
15.05.2019
Sýning á margvíslegri skapandi vinnu nemenda á vorönninni verður opnuð í skólanum á laugardag kl. 13:00. Meðal annars gefur að líta verk úr portrettmálun, frumkvöðlafræði, listrænni sköpun, skapandi hannyrðum, jákvæðri sálfræði, fagurfræði, heimspeki og ljóð úr íslenskunni svo fátt eitt sé nefnt .
Lokaverkefni nemanda á listabraut hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir efnistök og hugmyndalega nálgun. Þar er unnið úr efnivið sem nemandinn tók með sér úr sjálfboðastarfi með flóttamönnum á grísku eynni Lesbos.
Sýningin verður opin kl. 13-16 á laugardag en í næstu viku verður einnig hægt að njóta hennar á skólatíma fram að útskrift laugardaginn 25. maí.
Lesa meira
14.05.2019
Í síðustu kennslustundum áfangans „matur og menning“ var gestakennari Unnur María Máney, sirkuslistamaður með meiru. Viðfangsefnið var japanski rétturinn sushi. Nemendur voru mjög áhugasamir um þessa matargerð og lögðu sig alla fram. Kennarar og aðrir nemendur skólans voru ekki síður áhugasamir um að bragða á framleiðslunni, sem segjast verður að vakti mikla lukku.
Í áfanganum er áhersla lögð á að fræða nemendur um matarmenningu mismunandi menningarsvæða. Unnið er með ríkjandi hefðir og fjallað um hvað er líkt eða ólíkt milli landa. Kennari í áfanganum er Ida Semey.
Lesa meira
10.05.2019
Nemendur í forritunaráfanga á starfsbraut buðu nemendum leikskólans í heimsókn á fimmtudag. Tilgangurinn var að kenna þeim á tækin sem nemendur MTR hafa verið að forrita og útskýra hvernig þau virka. Þetta eru lítil vélmenni sem kallast Coji en líka hefur verið unnið með Bloxels við að forrita tölvuleik. Skemmst er frá því að segja að gestir og gestgjafar áttu góða stund saman og nutu upplifunarinnar eins og myndirnar sýna.
Lesa meira
07.05.2019
Áfanginn heitir skapandi hannyrðir og er kenndur í fyrsta sinn nú á vorönninni. Nemendur kynnast mismunandi aðferðum við hannyrðir, svo sem prjóni, hekli, útsaum og hnýtingum. Þetta upplegg heillar stúlkur en pilta síður að því er virðist. Áfanginn er á fyrsta þrepi, blandaður hópur með nemendum MTR og Grunnskóla Fjallabyggðar. Sköpunin getur farið fram á ýmsum vettvangi, inni eða úti. Fyrir viku saumuðu nemendur í girðinguna við sundlaugina í Ólafsfirði.
Mjög skapandi að fara eins langt út fyrir kassann og við getum og oft er engin verklýsing. Þeir sem sjá verkin vita ekki endilega hvað verið er að fara en við sem unnum verkin vitum það, segir Steinunn Ósk Ólafsdóttir. Við notum Pinterest síðuna mikið til að fá hugmyndir en best er þó að fá þær sjálfur. Stundum verða þær líka til í hópnum á meðan við erum að vinna, segir Steinunn Ósk. Kennari í áfanganum er Karólína Baldvinsdóttir.
Lesa meira
30.04.2019
Sjálfbærni og valdefling ungs fólks til atvinnusköpunar er þema Erasmusverkefnis sem MTR hefur tekið þátt í og lýkur á Ítalíu í næstu viku. Verkefnið tók tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Samstarfsskólarnir eru á Lanzarote, einni Kanaríeyjanna og á Ítalíu. Heimsókn ítölsku og íslensku nemanna til Lanzarote í febrúar í fyrra tókst með miklum ágætum og í haust dvöldu hópar frá samstarfsskólunum hér á Tröllaskaga.
Um helgina kynnti íslenski hópurinn sér sögu Rómar, skoðaði ýmsar menningarminjar og fylgdist með mannlífinu. Ellefu nemendur og tveir starfsmenn eru í ferðinni.
MTR-nemar söfnuðu fyrir aukadvöl í Róm með því að þrífa bifreiðar. Þau kynntu spænskum og ítölskum félögum sínum hugmynd að bifreiðaþvottafyrirtæki sem hægt væri að stofna og reka á Tröllaskaga.
Lesa meira
30.04.2019
Tíðkast hefur um aldir að norrænir menn sigli til Miklagarðs og sæki þangað litskrúðug klæði og aðrar gersemar. Fimm nemendur og tveir kennarar sem nýlega tókust á hendur slíka ferð héldu hinn forna sið í heiðri. Heim komin afhentu þau okkar skærustu Idolstjörnu, Lísebet Hauksdóttur, hljóðnema við hæfi. Hann er þráðlaus, búinn ýmsum töfrum og skreyttur gimsteinum. Litbrigðin eru frá bleiku yfir í purpura og hæfa litatónum búninga stjörnunnar.
Lesa meira
29.04.2019
Mánudaginn 29. april 2019 verður fíkniefnafræðsla í Tjarnarborg. Fræðslufundurinn hefst kl. 19:30.
Fræðslan er í samvinnu við Lögregluna á Norðurlandi eystra, Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólann á Tröllaskaga. Tveir fulltrúar fíkniefnateymis lögreglunnar koma á fundinn og fræða fundarmenn um ýmislegt varðandi fíkniefni og fíkniefnaneyslu svo sem aðgengi, einkenni og ýmislegt annað. Haustið 2016 var haldinn vel heppnaður fundur í Tjarnarborg með sömu aðilum og nú endurtökum við leikinn.
Fundurinn er öllum opinn og eru foreldrar grunn- og framhaldsskólanemenda sérstakalega hvattir til að koma. Málið varðar okkur öll. Fulltúar sveitarstjórnar, heilbrigðisstofnunar, félagsþjónustu og hverjir þeir sem tilbúnir eru til að leggja hönd á plóginn eru hvattir til að koma á fundinn.
Tökum samtalið um þennan vágest í samfélagi okkar - sjáumst mánudagskvöldið 29. apríl kl. 19.30 í Tjarnarborg
Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála.
Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga.
Lesa meira
12.04.2019
Skrifstofa skólans er lokuð frá 15. - 26. apríl.
Gleðilega páska.
Lesa meira
11.04.2019
Í þessari viku líta nemendur í tölfræði upp úr kennslubókunum og skoða Skittlestölfræði.
Verkefninu er ætlað að setja námsefnið, þ.e. tölfræðina, í aðeins skemmtilegra samhengi. Hvort það hefur tekist skal ósagt látið. Mörgum nemendum hefur reynst erfitt að sleppa alveg bókinni og vera sjálfstæð í dæmagerð og útreikningum. Ingu kennara hefur hins vegar fundist þetta mjög „gefandi“ enda mikið af Skittles í boði.
Lesa meira