Áfanginn heitir skapandi hannyrðir og er kenndur í fyrsta sinn nú á vorönninni. Nemendur kynnast mismunandi aðferðum við hannyrðir, svo sem prjóni, hekli, útsaum og hnýtingum. Þetta upplegg heillar stúlkur en pilta síður að því er virðist. Áfanginn er á fyrsta þrepi, blandaður hópur með nemendum MTR og Grunnskóla Fjallabyggðar. Sköpunin getur farið fram á ýmsum vettvangi, inni eða úti. Fyrir viku saumuðu nemendur í girðinguna við sundlaugina í Ólafsfirði.
Mjög skapandi að fara eins langt út fyrir kassann og við getum og oft er engin verklýsing. Þeir sem sjá verkin vita ekki endilega hvað verið er að fara en við sem unnum verkin vitum það, segir Steinunn Ósk Ólafsdóttir. Við notum Pinterest síðuna mikið til að fá hugmyndir en best er þó að fá þær sjálfur. Stundum verða þær líka til í hópnum á meðan við erum að vinna, segir Steinunn Ósk. Kennari í áfanganum er Karólína Baldvinsdóttir.