Fréttir

Öskudagur

Einhyrningar, kettir og uglur hafa heimsótt skólann í dag. Einnig ofurmenni, gamlar konur, sjóræningjar, galdramenn og uppvakningar. Allir syngja og fá sætindi að launum. Ýmsar áherslur má greina í lagavali. Gamli Nói heldur velli en lítt hefur að þessu sinni heyrst af Bjarnastaðabeljunum sem stundum hafa verið ofarlega á lista. En það var sungið glaðlega um sólina sem menn vilja láta skína á sig og franska barnalagið Alouette hljómaði fagurlega.
Lesa meira

Breyttur skólaakstur

Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag í þessari viku breytist áætlun skólabíla milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar vegna skipulagsdags og vetrarfrís í Grunnskóla Fjallabyggðar. Nemendum MTR er vinsamlega bent á að kynna sér breytingarnar með því að skoða linkinn sem birtist þegar smellt er á fréttina.
Lesa meira

Fjallaskíðalota

Sex nemendur sem stunda nám í Fjallamennsku við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Hornafirði hafa þessa vikuna verið í fjallaskíðakennslu í MTr. Um er að ræða samstarfsverkefni milli FAS og MTR um fjallaskíðakennslu nemendanna, þar sem náttúra svæðisins býður upp á mikla möguleika til fjallaskíðunar ásamt því að MTr á búnað til kennslunnar. Tómas Atli Einarsson hefur séð um kennsluna sem að mestu leyti hefur verið verkleg.
Lesa meira

Tækniskólagestir

Þrír sérfræðingar úr Tækniskólanum hafa notað daginn til að kynna sér starfið í MTR. Þetta eru Guðrún Randalín Lárusdóttir, skólastjóri Upplýsingatækniskólans, Nanna Traustadóttir, verkefnisstjóri K2 stúdentsbrautarinnar og Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningarmála. Þau segjast hafa komið til að læra um nútímalega kennsluhætti og skipulag í skólastarfinu. Lára skólameistari sýndi skólann og sagði frá starfinu en þremenningarnir hittu líka kennara og nemendur. Þórarinn útskýrði til dæmis hvernig við bærum okkur að við vendikennslu og hvernig vinnutímafyrirkomulagið virkaði. Nemendur greindu m.a. frá skipulagi, félagslífi og framtíðaráformum sínum. Gestirnir sýndu áhuga á samtvinnun áfanga og óhefðbundnum kennsluháttum. Þau segja að Tækniskólinn sé að taka skref til framtíðar, til dæmis á K2 brautinni, aukin áhersla sé á að vinna í lotum og þjálfa nemendur í að vinna verkefnamiðað. Námið er skipulagt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og leiðandi tæknifyrirtæki. Lokaverkefni tengjast kjarnagrein á önn og eru skipulögð með þátttöku og stuðningi atvinnufyrirtækja á borð við CCP og Stúdíó Sýrland. Gestirnir höfðu í lokin orð á því að MTR virtist vera lýðræðislegur vinnustaður þar sem kennarar nytu mikils frelsis.
Lesa meira

Vettvangsferð listnema

Það er hluti af námi í listgreinum að fylgjast með sýningum og öðrum atburðum. Nemendur í áfanganum inngangur að listum fóru í Listhúsið í Ólafsfirði í gær með Karólínu Baldvinsdóttur kennara sínum. Síðustu tíu daga hefur verið af ýmsu að taka hér í Ólafsfirði enda staðið yfir Skammdegishátíð. Fjöldi listamanna, bæði heimamanna og gesta frá öðrum löndum og heimsálfum, hefur framið gjörninga og staðið fyrir tónlistarviðburðum og listsýningum af ýmsu tagi. Þrír listamenn kynntu verk sín og annarra fyrir áhugasömum nemendum í gær. Verkin voru fjölbreytt og hafði eitt til dæmis verið gjörningur Jakubs Janco frá Slóvakíu, í fjörunni á Ósbrekkusandi á Skammdegishátíðinni. Nemendum þótti einnig athyglisverð verk eftir ungt fólk í Ástralíu, bæði listnema og áhugafólk, sem Shasta Stevic sýningarstýra hafði safnað saman og sett upp í Listhúsinu.
Lesa meira

Lilja kennaranemi í MTR

Lilja Bjarnadóttir, kennaranemi við Háskólann á Akureyri tekur sex vikur í vettvangsnámi og æfingakennslu í MTR á vorönninni. Lilja býr á Dalvík og er að afla sér kennsluréttinda í framhaldsskóla. Hún er umhverfisverkfræðingur frá danska tækniháskólanum og vann í umhverfisdeild Landsvirkjunar áður en hún hóf kennaranámið. Lilja segist hafa valið MTR vegna spennandi og nýstárlegra kennsluaðferða og skipulags skólans sem hún hafi heyrt vel látið af. Hún situr í tímum þar sem nemendur eru mest að vinna sjálfstætt í verkefnum vikunnar og það sé mjög áhugavert. Vel hafi verið tekið á móti sér og skólinn sé heimilislegur. Hún gerir ráð fyrir að kenna stærðfræði og náttúruvísindagreinar svo sem umhverfisfræði og jafnvel efna- og eðlisfræði í framtíðinni. Leiðbeinandi Lilju er Unnur Hafstað kennari í stærðfræði og raungreinum.
Lesa meira

Fyrsta græna skrefið

Ákveðið var í MTR í haust að hefja þátttöku í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Skólinn hefur nú tekið fyrsta skrefið og fengið það vottað og viðurkennt. Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun kom og skoðaði sérstaklega flokkunarmál og innkaup með tilliti til þess hvort keyptar væru vistvænar hreingerningavörur og pappír. Skilyrði er að nota umhverfisvottaðar vörur. Athugasemd var gerð við flokkun hjá nemendum og í almannarýminu. Gera þarf úrbætur sem Nemendafélagið þarf að koma að en því sem að var fundið verður snarlega kippt í liðinn. Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst haustið 2014. Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa tekið þátt í að aðlaga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi stofnana og draga úr kostnaði. Sjá nánar hér: http://graenskref.is/um-verkefnidh Tengiliður verkefnisins í MTR er Unnur Hafstað en við framkvæmdina reynir mest á Björgu Traustadóttur, Gísla Kristinsson og Jónínu Kristjándóttur, sem sjá um rekstur, innkaup og þrif hússins. Þau eru með Hólmfríði Þorsteinsdóttur á myndinni, sem tekin var þegar viðurkenningin fyrir fyrsta skrefið var afhent.
Lesa meira

Skammdegishátíð í Ólafsfirði

Þessi árlega lista- og menningarhátíð verður sett með formlegum hætti á föstudag klukkan fjórtán. Lára Stefánsdóttir og Alkistis Terzi, grísk kvikmyndagerðarkona, sýna vídeóverkið „Mind the Gap“ í Hrafnavogum, nýjum sal Menntaskólans. Þar sýnir líka Þóra Karlsdóttir málverk með titilinn „Why the Snow is so white?“ og einnig nýtur sín vel verkið IntraLiminal eftir Shasta Stevic frá Ástralíu. Fjórða verkið í Hrafnavogum er eftir Yumo Wu frá Kína og ber titilinn Cyanotype Diary. Fjöldinn allur af listamönnum tekur þátt í Skammdegishátíðinni með sýningum, gjörningum og tónlistarviðburðum um allan Ólafsfjarðarbæ. Hátíðin stendur í tíu daga. Hér er hægt að kynna sér dagskrá hátíðarinnar http://skammdegifestival.com/
Lesa meira

Skiptinám

Mundo verður með kynningu á skiptinámi í Bandaríkjunum, Spáni, Frakkladi og Þýskalandi í Menntaskólanum á Tröllaskaga klukkan 10:40 þann 22. janúar. Einnig verður kynnt þýsku, frönsku og spænskunám erlendis í sumar sem og skemmtilegt verkefni með Mundo á Siglufirði og Ólafsfirði í sumar. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Lesa meira

Stafrænar þjóðsögur

Liðlega tuttugu nemendur og þrír starfsmenn MTR dvelja þessa viku á Sjálandi og æfa sig í að segja sögur á stafrænu formi. Unnið er með danskar, - og einkanlega sjálenskar munnmælasögur. Nemendur ræða saman um sögurnar og ákveða hvernig hægt sé að „nútímavæða“ þær. Hugsa þarf fyrir því hvernig hægt sé að deila sögunum með öðrum. Í dag er hópurinn einmitt á fullu í þessum framkvæmdahluta, við að taka upp ýmislegt hráefni til að vinna úr. Á haustönninni komu þrjátíu nemendur úr Tækniskólanum EUC í Næsved og Köge í Fjallabyggð og störfuðu með MTR-nemendum að því gera stafrænar útgáfur af íslenskum þjóðsögum, flestum af Tröllaskaga. Í gær fór þessi stóri hópur í skoðunarferð um miðbæ Köge í grenjandi rigningu. Hópurinn skoðaði eina kirkju og heimsótti listasafn sem sérhæfir sig í list í almannarýminu og á opinberum stofnunum á borð við sjúkrahús, sjá hér: http://www.koes.dk/ Skoðuð var sýning á stórum litríkum myndum Björns Nörregård úr þúsund ára sögu Danmerkur. Nörregård sýnir hvernig saga Danmerkur er samofin heimssögunni og fyrir bregður persónum á borð við Jóhönnu af Örk, Niels Bohr, John F. Kennedy og Karen Blixen. Ofin voru textílverk eftir þessum skissum Nörregårds og gáfu samtök danskra fyrirtækja Margréti Þórhildi drottningu þau þegar hún varð fimmtug. Textílverkin prýða stærsta veislusalinn í Kristjánsborgarhöll. MTR-nemum þótti þessi sýning sérlega áhugaverð. MTR og Tækniskólinn EUC fengu Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til þessa samstarfsverkefnis. Heimsókn danska hópsins í haust var sérlega ánægjuleg og heimsóknin til Sjálands verður ekki síðri.
Lesa meira