04.12.2018
Aþena Marey Jónsdóttir, nemandi MTR, er stödd í Kína þar sem hún er að keppa ásamt fimm öðrum Íslendingum á snjóskautum. Þetta eru fjórar mótaraðir á heimsmeistaramótinu og er þetta fyrsta mótið. Keppendur safna sér stigum á öllum mótunum og í lokin skýrist hver vinnur. Aþena Marey sýndi heldur betur hvað í henni býr þegar hún náði öðru sæti í “race” eða hraðaþraut þar sem einn fer í einu og tveir fremstu komast í úrslit. Sú sem hreppti fyrsta sætið er frá Austurríki og sú sem varð í þriðja sæti kom frá Frakklandi en alls voru þetta um 25 keppendur. Einnig er keppt með frjálsri aðferð “freestyle” þar sem keppt er á “rail-i”(handriði) og stökkum á pöllum. Keppendur voru svo heppnir að fá að keppa á stærsta innanhússskíðasvæði heims sem er í Harbin í Kína.
Aþena Marey segir að á Íslandi stundi um tuttugu einstaklingar þessa íþrótt. Sex hafi verið valin til að fara á þetta mót. Það sé mikill heiður, þau hafi komist fjórum sinnum á pall á þessu móti sem sé frábært. Aþena Marey byrjaði að æfa í október í fyrra og æfir bara á Akureyri og Dalvík, eða þar sem er snjór. Næsta keppni í snjóskautamótaröðinni fer fram í Suður-Kóreu á laugardag, síðan verður keppt í Canada og loks í Þýskalandi þannig að þetta verður mikið ævintýri, segir Aþena Marey. Þar verða fleiri keppendur og brautirnar aðeins meira krefjandi. Í heildina þá eru Íslendingarnir að standa sig best eins og staðan er núna en svo kemur í ljós hvort eitthvað breytist. Til Suður-Kóreu koma keppendur frá fleiri löndum. Ef fólk hefur áhuga á að fylgjast með þá eru þau með instagram síðu sem heitir shred_dogs og síðan voru stelpurnar að búa til sína eigin instagram síðu sem heitir shreddogs_girls
Lesa meira
27.11.2018
Fimleikanemendur MTR fengu kynningu á akrólistum í síðustu viku. Þetta eru listir sem sækja í smiðju danslista, fimleika og sirkuslista og sumir kennarar tengja við hugmyndafræði jógaiðkunar. Það var Unnur María Máney Bergsveinsdóttir sem kynnti akrólistirnar. Hún er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona í Ólafsfirði.
Akrólistirnar eru afar fjölbreyttar. Unnið er saman í pörum eða litlum hópum með æfingar sem byggjast á að finna sameiginlegt jafnvægi milli þeirra sem eru að vinna saman. Byggðir eru pýramídar, tveggja eða margra manna plankar, iðkendur standa, sitja, eða hanga hverjir á öðrum. Þegar lengra er komið snúa iðkendur jafvel félaga sínum í loftinu eins og flatbökumeistarar!
Unnur María segir ekki nauðsynlegt að vera fimleikameistari eða búa yfir sérstökum liðleika eða styrk til þess að byrja að æfa akró heldur bara að vera tilbúinn að prófa, treysta og læra að beita líkamanum rétt. Við séum öll ólík og það skemmtilega við akróið sé að allir geti fundið stöður og æfingar við sitt hæfi. Það sé stórkostlegt að sýna fólki hvað það getur gert, því nánast án undantekninga geti fólk meira en það heldur. Allir geti gert akró, óháð aldri, stærð eða líkamlegu formi. Akró byggi upp líkamlegan styrk, samhæfni og hreyfigetu og virki ýmsa litla vöðva sem fæstir noti mikið dags daglega. Mest reyni á kvið- og bakvöðva og séu þeir fljótir að byggjast upp á æfingum. Hún segir að mikil áhersla sé lögð á rétta tækni og líkamsbeitingu og meðvitaða líkamsvitund.
Unnur María Máney Bergsveinsdóttir kallar sig Húlladúlluna. Hún er sjálfstætt starfandi
sirkuslistakona, nýflutt til Ólafsfjarðar. Hún hefur starfað með Sirkus Íslands og breska
sirkusnum Let’s Circus auk þess að hafa komið fram á sirkussýningum í Frakklandi, Bretlandi og Mexíkó. Auk þess að leika listir sínar kennir hún bæði börnum og fullorðnum ýmsar
sirkuslistir, með sérstakri áherslu á húlla, akró, loftfimleika og jafnvægiskúnstir. Hún lauk
húllakennaranámi frá Live Love Hoop í Bristol árið 2016 og er nú í alþjóðlegu Social Circus
kennaranámi á vegum Caravan sirkussamtakanna og Evrópusambandsins. Unnur María
starfar einnig með kabarettinum Drag-Súgi og með Reykjavík Kabarett og er ein af stofnendum Akró Íslands hópsins.
Lesa meira
21.11.2018
Uppgangur er í iðkun kraftlyftinga í Ólafsfirði og kepptu sex einstaklingar frá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar Fjallabyggð á bikarmótinu á Akureyri um síðustu helgi. Ein þeirra er Álfheiður Líf Friðþjófsdóttir nemandi MTR. Hún fékk gullverðlaun í sínum flokki í réttstöðulyftu með seríuna 95-105-110 kg. Í ljósi þess hve skamman tíma Álfheiður Líf hefur æft kraftlyftingar er þetta mjög góður árangur – og ekki síður vegna þess að í upphafi móts var hún óheppin og gerði ógildar tilraunir í hnébeygju. Í bekkpressu lyfti hún 40 og 45 kg og átti góða tilraun við 50 kg sem tókst þó ekki. Álfheiður Líf hefur æft kraftlyftingar í nokkra mánuði og keppt á fjórum mótum. Hún segir góðan félagsskap í þessari íþrótt og skemmtilegt að æfa.
Lesa meira
14.11.2018
Nemendur Tröllahóls, fjögurra og fimm ára úr Leikhólum í Ólafsfirði, heimsóttu okkur í MTR í morgun. Þau höfðu meðferðis og afhentu myndir sem starfsbrautarnemar okkar munu svo semja sögur útfrá. Myndefnið var frjálst en flestir teiknuðu fólk, til dæmis fjölskyldu sína, en sumir teiknuðu tröll og aðrar fígúrur sem ekki búa í mannheimi. Hugmyndin að þessu skemmtilega samstarfsverkefni MTR og Leikhóla eiga hjónin Guðrún Þorvaldsdóttir og Hólmar Hákon Óðinsson. Hann er umsjónarmaður starfsbrautar en hún er iðjuþjálfi bæði í leikskólanum og MTR. Sögurnar með myndum verða á sýningu skólans á verkum nemenda í desember.
Lesa meira
05.11.2018
Valgerður Ósk Einarsdóttir er dönskukennari við Menntaskólann á Tröllaskaga og Fjölbrautaskóla Snæfellinga en býr í Borgarnesi. Í báðum skólunum er lögð áhersla á vendikennslu og fjölbreytt notkun upplýsingatækni gerir kennurum kleift að sinna starfinu með öðrum hætti en áður var.
Í MTR hefur fjarnemum í námshópum fjölgað og staðnemum fækkað. Nemendur búa víða um land og nokkrir erlendis. Kennsluaðferðir með áherslu á vendikennslu henta báðum hópum og lögð er áhersla á að tryggja að allir nemendur hafi aðgang að sömu upplýsingum. Valgerður Ósk flutti frá Ólafsfirði í Borgarnes síðasta vor. Ákveðið var að hún kenndi áfram dönsku í MTR, sem fjarkennari, til reynslu í vetur. Síðan sótti hún um og fékk hlutastarf dönskukennara í FSN í Grundarfirði. Meirihluti nemenda eru staðnemar þar en hluti er í deild skólans á Patreksfirði. Valgerður hefur farið nokkrum sinnum í Grundarfjörð í haust til að hitta nemendur og leiðbeina þeim með vinnubrögð og aðferðir við fjarnámið. Hún hefur einnig komið til Ólafsfjarðar og hitt staðnema hér.
Á myndinni stendur Valgerður Ósk á milli þeirra Hrafnhildar Hallvarðsdóttur, skólameistara FSN og Láru Stefánsdóttur, skólameistara MTR. Hún lætur vel af því að þjóna þessum tveimur frúm, en hún hefur raunar starfað með báðum árum saman.
Lesa meira
29.10.2018
Mikil ánægja var með MEGAviku MTR á miðönninni þar sem fjallað var um tölvuleiki og rafíþróttir. Áhersla var lögð á að kynna nemendum hvernig hægt væri að nálgast tölvur og tölvuleiki á nýjan hátt og leika sér til gagns. Í hópnum voru nemendur sem hafa tölvuleiki að aðaláhugamáli en einnig nemendur sem aldrei höfðu spilað tölvuleik. Til að hrista hópinn saman var m.a. notast við hreyfileiki á borð við Mario Tennis og Just Dance fyrir Nintendo Switch þar sem hreyfing, nákvæmni, samhæfing og samkeppni sköpuðu stemmingu í hópnum.
Lesa meira
24.10.2018
Blandaður miðannaráfangi starfsbrautar og annarra nemenda var sérlega fjölbreyttur. Viðfangsefnið var atvinnulíf og menning í víðum skilningi, - heimsóknir og upplifun. Hópurinn heimsótti lögregluna, slökkviliðið og björgunarsveitina þar sem hópurinn fékk frábærar móttökur. Nemendur skoðuðu búnað og tæki og var boðið í stutta jeppaferð. Sjóferð var lærdómsrík þar sem hópurinn upplifði róður á smábát og í fiskvinnslufyrirtæki kynntu menn sér hvað yrði um sjávarfangið. Hópurinn átti góða stund við bakstur og bingó með eldri borgurum í Ólafsfirði en hjá flestum stóð reiðtúr á Sauðanesi uppúr þegar mat var lagt á athafnir vikunnar. Leiðbeinandi í áfanganum var Örn Elí Gunnlaugsson, íþróttafræðingur.
Lesa meira
22.10.2018
Sextán nemendur völdu að kynna sér grundvallaratriðin í sjónrænni og grafískri hönnun í miðannarvikunni. Hver og einn bjó til sína heimasíðu og færði inn á hana margskonar verkefni sem voru unnin í vikunni. Meðal annars voru það veggspjöld, lógó, munstur og grafískt efni af ýmsu tagi. Fjallað var um ferlið frá hugmynd til afurðar, um auglýsingahönnun, litasamsetningar, leturgerðir og ýmsar leiðir til að fá innblástur til hönnunar. Inn á milli voru leikir og hópefli til að hrista upp í hópnum. Á fimmtudag fóru þátttakendur í heimsókn í Myndlistarskólann á Akureyri þar sem grafísk hönnun og myndlist er kennd. Mikil ánægja var með áfangann, sem Lilja Hauksdóttir skipulagði og kenndi.
Lesa meira
18.10.2018
Í Austurríki er sérstök stofnun sem sinnir því hlutverki að auka hæfni kennara og bæta frammistöðu skóla á sviði upplýsingatækni. Hún er í menntamálaráðuneyti Austurríkis. Andreas Riepl, framkvæmdastjóri hennar, lýsti skipulaginu á evrópuráðstefnunni í MTR. Einstakir skólar skrá sig til þátttöku í verkefninu og þurfa síðan að gera reglulega grein fyrir þeim skrefum sem tekin hafa verið. Frammistaðan hefur áhrif á fjárveitingar til skólanna. Þeir eru á ýmsum stigum. Á þriðja þúsund skólar taka þátt og hafa tæplega átta hundruð náð því stigi að teljast „sérfræðingar“ í notkun upplýsingatækni. Mat er bæði sjálfsmat og formleg úttekt. Stofnunin útbýr líka eða útvegar námsefni fyrir kennara á mismunandi skólastigum. Einnig er kennurum greitt fyrir efni sem sett er inn í gagnabanka sem kallast eTapas. Andreas Riepl sagði að reynt væri að fókusera á nám og kennslu fremur en tæknina sem notuð er. Hann greindi frá ráðstefnu sem hann hefði sótt nýlega þar sem risarnir á sviði uppýsingatækni, Google, Microsoft, Apple og fleiri kynntu sig og sitt. Ekki fór á milli mála að hann taldi Google vera með bestu nálgunina á viðfangsefnið út frá námi, hæfni og þróun. Hin fyrirtækin væru uppteknari af því að selja sín eigin tæki.
Lesa meira
15.10.2018
Lára Stefánsdóttir, skólameistari setti evrópuráðstefnuna um hnattræna menntun í dreifbýli í sal skólans, Hrafnavogum, síðdegis. Hún útskýrði hvernig nám í MTR væri skipulagt og hve sveigjanleg námsskrá væri mikilvæg við uppbyggingu framhaldsskóla hér á landi. Herbert Eile, leiðtogi alþjóðlegu samtakanna um upplýsingatækni í skólstarfi ræddi um mikilvægi menntunar í dreifbýli og þakkaði þeim sem hafa undirbúið ráðstefnuna. Gestir eru um áttatíu þar af um helmingur frá öðrum löndum. Í morgun notuðu fjölmargir gestanna tækifærið og fóru í skólaheimsóknir í Fjallabyggð en einnig fór hópur í kynnisferð í Háskólann á Akureyri. Þar hafði fólk mestan áhuga á róbót sem nýlega hefur verið tekinn í notkun. Eftir heimsóknina í HA skoðaði hópurinn Akureyri og nágrenni í fegursta haustveðri.
Lesa meira