Fréttir

Tyrklandsfarar í góðu yfirlæti

Sjö manna hópur úr MTR dvelur þessa viku í góðu yfirlæti í Istanbúl. Tilgangur ferðarinnar er að heimsækja Ömer Cam drengjaskólann í Asíuhluta borgarinnar. Einnig hefur hópurinn farið í skoðunarferðir, m.a. í gömlu Istanbúl og til borgarinnar Bursa í Anatólíu. Á morgun verður siglt um Bosporussundið milli Marmarahafs og Svartahafs og á laugardag heldur hópurinn heim með nýja reynslu í farteskinu.
Lesa meira

Stærðfræði í skapandi leik

Mælieiningar er nokkuð sem mikilvægt er að skilja og kunna að nota. Nemendur á starfsbraut æfðu sig á þessu í stærðfræðitíma í gær. Meðal annars með því að raða kubbum hverjum ofan á annan og hækka þannig turninn smám saman. Þetta gekk vel en þegar hann var orðinn 2,95 m. hrundi hann. Það vantaði aðeins 5 sm upp á að ná þremur metrum. Í þessu verkefni reyndi á grunnþáttinn sköpun í leik sem nemendur höfðu ánægju af og kepptust við að ná sem lengst í. Kennari í stærðfræðinni er Hólmar Hákon Óðinsson.
Lesa meira

Vetrarútilega

Hópur nemenda í áföngum um útivist í snjó og vetarfjallamennsku lá úti í Héðinsfirði um síðustu helgi. Í þessum hluta af náminu er tekist á við ýmsar áskoranir. Að þessu sinni varð hópurinn frá að hverfa í fyrstu tilraun vegna óveðurs. Allir voru komnir á upphafspunkt í Héðinsfirði þegar skall á stórhríð og ekki var annað að gera en fara heim. Daginn eftir var komið besta veður og var lagt af stað síðdegis. Gengið var í tvær og hálfa klukkustund niður að Vík með búnað á bakinu. Þar var tjaldað, kveiktur varðeldur, eldað og ýmis verkefni leyst. Nokkurt frost var um nóttina en hlýnaði með morgninum. Sumum var kalt en engum varð meint af og komu allir glaðir og heilir heim um miðan dag á sunnudag. Fjórum amerískum görpum á fjallaskíðum sem hópurinn hitti á heimleiðinni, þótti þetta áhugavert nám við einstakar aðstæður. Kennarar með hópnum voru Gestur Hansson og Kristín Guðmundsdóttir.
Lesa meira

Enskuspjall við Sikileyinga

Tryggvi Hrólfsson, enskukennari í MTR hefur skipulagt samstarfsverkefni með kunningja sínum Anthony M. La Pusata, enskukennara í E. Majorana skólanum á Sikiley. Verkefnið snýst um að nemendur þar og hér ræði saman á enskri tungu í nokkrum kennslustundum. Í upphafi komu ítölsku nemarnir í heimsókn í nærverunum og skoðuðu skólann. Síðar í vikunni koma þau aftur í kennslustund og hugmyndin er að staðnemar spjalli við þau í litlum hópum eða maður við mann án þess að kennararnir séu að skipta sér af. Tilgangurinn er að æfa eðlilegt samtal á ensku og að nemendur kynnist menningu og lífsháttum hver hjá öðrum. La Pusata er Breti en hann og Tryggvi kynntust í erlendu samstarfsverkefni á síðasta ári.
Lesa meira

SAMNOR ræðir samstarf skólastiga

Skólamenn á Norðausturlandi eru almennt sammála um að einstakar aðstæður séu á svæðinu til nýbreytni í samstarfi skólastiga. Þetta kom fram á samráðsfundi framhaldsskólanna á svæðinu fyrir helgina. Til hans var boðið sveitarstjórnarfólki ásamt stjórnendum grunnskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Frummælendur fjölluðu um efnið af sjónarhóli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Pallborðsumræðum með þátttöku frummælenda stýrði Lára Stefánsdóttir, skólameistari MTR. Hún segir samtalið hafa verið gagnlegt og skýran samstarfsvilja mikilsverðan. Rætt var um sveigjanleg skil milli grunn- og framhaldsskóla og kosti þess að nemendur geti hafið nám í einstökum greinum fyrir útskrift úr grunnskóla eða útskrifast fyrir lok 10. bekkjar. Einnig var rætt um námsmat og hvaða upplýsingar felist í því. Á mörkum háskóla og framhaldsskóla var rætt um innihald stúdentsprófs og mikinn sveigjanleika í námsframboði framhaldsskóla eftir breytingar á námsskrá. Menn veltu líka fyrir sér kröfum til háskóla um að skilgreina með skýrum hætti þörf á undirbúningi fyrir háskólanám. Rætt var um samstarf framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva, raunfærnimat, aðlögun brotthvarfsnemenda að námi og sértækt nám í tengslum við vinnumarkaðinn. Samstarfsverkefni milli skóla og skólastiga voru rædd og lýstu menn miklum áhuga á samvinnu við þróun skólastarfs á Norðausturlandi. Framhaldsskólarnir í SAMNOR eru Framhaldskólinn á Húsavík, Framhaldskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri
Lesa meira

Tyrknesk temenning

Í undirbúningi er að nokkrir nemendur og tveir kennarar leggi loft undir væng og bregði sér til Istanbúl, fjölmennustu borgar Tyrklands. Tilefnið er boð Ömer Cam drengjamenntaskólans í Asíuhluta borgarinnar. Sigurður Mar, listgreinakennari hefur kynnt sér allar aðstæður á þessum slóðum og mun fylgja nemendum til Istanbúl ásamt Karólínu Baldvinsdóttur, list- og raungreinakennara. Í morgun kynntu þau samstarfsfólki sínu tyrkneska tedrykkjusiði í morgunkaffinu. Skólastjórinn í Ömer Cam leysti Sigurð Mar út með tesetti og öðrum búnaði til tedrykku er þeir kvöddust á dögunum. Tyrkneski skólin er í glænýju húsi og aðbúnaður þar allur hinn besti. Nemendur eru um 320, þar af um 280 á heimavist.
Lesa meira

Gamithra sigursæl í forritun

Gamithra Marga, fjarnemi í MTR og Bjarni Dagur Thor Kárason frá MR unnu erfiðustu deildina í Forritunarkeppni framhaldsskólanna um nýliðna helgi. Keppnin var haldin í Háskólanum í Reykjavík og kepptu 37 lið í þremur deildum. Gamithra og Bjarni Dagur höfðu nokkra yfirburði í sinni deild með 1109 stig en liðið sem varð í öðru sæti fékk 936 stig. Heimilt var að þrír væru saman í liði en sem fyrr segir voru Gamithra og Bjarni Dagur bara tvö í sínu liðið í Alfa-deildinni. Ákveðið er að Gamithra keppi á Eystrasaltsólympíuleikunum í forritun í lok næsta mánaðar. Líklegt er að hún verði einnig í hópi keppenda á Ólympíuleikunum í forritun í Aserbaídsjan síðar á árinu. Á síðasta ári tóku hún og Bjarni Dagur þátt í Eystrasaltskeppninni í upplýsingatækni sem haldin var í Stokkhólmi. Þau fóru líka til Japans og kepptu á Heimsleikunum í forritun í haust. Keppnin fór fram í Tsukuba vísindaborginni rétt hjá Tokíó höfuðborg Japans. Það eru einstaklingar en ekki lið sem eigast við í þessum alþjóðlegu keppnum og segir Gamithra að þátttakan sé mikil reynsla og stórkostleg upplifun. Gamithra Marga er frá Eistlandi. Hún flutti til Íslands fyrir rúmum tveimur árum en áður hafði hún lært talsvert í íslensku á netinu og hefur nú náð prýðilegum tökum á málinu. Fjölskylda hennar býr í Tallin, höfuðborg Eistlands, en áður stundaði hún nám í háskólaborginni Tartu.
Lesa meira

Samstarf MA og MTR um útivistarnám

Hópur tuttugu nemenda og tveggja kennara úr MA átti góðan dag í útivistarparadísinni Fjallabyggð í gær með tíu MTR-nemum og kennurum þeirra. Allir eru í útivistaráföngum sem fela í sér skíðaiðkun, fjallamennsku, sjósund og fleira af því tagi. Nemendur æfðu sig á gönguskíðum, fjallaskíðum, snjóþrúgum og fengu leiðsögn í að nota snjóflóðaýlur og áttavita. Einnig kynntust þeir útieldun í sérstökum búnaði sem til er í MTR. Flestir fóru í sjósund og enduðu dagskrána í heita pottinum í sundlaug Ólafsfjarðar. Dagurinn var í alla staði vel heppnaður og nemendum beggja skóla til ánægju og sóma. Gert er ráð fyrir að samstarf skólanna haldi áfram á þessum vettvangi.
Lesa meira

Tónlistarbúðir - Myndband

Í miðannarvikunni fékk hópur nemenda tækifæri til að æfa sig í að skrifa texta, syngja og rappa. Katrín Ýr söngkona kom frá London þar sem hún býr og leiðbeindi nemendum. Talsvert var pælt í því hvað fær fólk til að hlusta á tónlist. Nemendur skiptu sér í tvo hópa, stelpur og stráka og skrifaði hvor hópur texta við eitt lag. Æfður var hópsöngur og þátttakendur settu saman atriði með nemendum í sirkuslistum. Þá voru í áfanganum gerð tónlistarmyndbönd. Slóð á myndband:
Lesa meira

Sirkuslistir í miðannarviku

Hópur nemenda reyndi alveg nýja hluti í miðannarvikunni, bætti hreyfifærni sína og jók þolinmæði. Unnur María Máney kynnti þeim heim sirkuslistanna og nemendur æfðu meðal annars sviðsframkomu og atriðagerð í samstarfi við hópinn sem var í tónlistarbúðum hjá Katrínu Ýr. Á námskeiðinu var lögð áhersla á grunnþætti í djöggli, fyrst notuðu nemendur slæður en síðan bolta og hringi. Nemendur prófuðu líka að nota blómaprik, jafnvægisfjaðrir, veltibretti og kínverska snúningsdiska. Þeir lærðu líka grunnþætti sirkusfimleika og prófuðu loftfimleika í silki.
Lesa meira