Sjósund
Hópur tuttugu nemenda og tveggja kennara úr MA átti góðan dag í útivistarparadísinni Fjallabyggð í gær með tíu MTR-nemum og kennurum þeirra. Allir eru í útivistaráföngum sem fela í sér skíðaiðkun, fjallamennsku, sjósund og fleira af því tagi. Nemendur æfðu sig á gönguskíðum, fjallaskíðum, snjóþrúgum og fengu leiðsögn í að nota snjóflóðaýlur og áttavita. Einnig kynntust þeir útieldun í sérstökum búnaði sem til er í MTR. Flestir fóru í sjósund og enduðu dagskrána í heita pottinum í sundlaug Ólafsfjarðar. Dagurinn var í alla staði vel heppnaður og nemendum beggja skóla til ánægju og sóma. Gert er ráð fyrir að samstarf skólanna haldi áfram á þessum vettvangi.