Fréttir

Lífleg sýning

Sýning í lok haustannar var venju fremur lífleg og skemmtileg að þessu sinni. Auk verka úr myndlistar- og ljósmyndaáföngum voru verk úr íslensku, sögu, ensku og heimspeki áberandi. Sigurður Mar sýndi gestum virkni þrívíddarprentara og laserskera í myndlistarstofunni og á stóru tjaldi í salnum rann vídeóverkið Eyjahaf eftir Kötlu Gunnarsdóttir. Hún gerði verkið á eynni Lesbos þar sem hún var við hjálparstörf á haustönninni. Þá sýndi Anne-Flore Marxer kvikmynd sína „a land shaped by women“ sem að hluta var tekin í Fjallabyggð. Rætt er við ungar stúlkur úr byggðarlaginu í myndinni. Gestum á sýningunni þótti myndin mjög áhugaverð og einnig að geta rætt við höfundinn um efni og gerð myndarinnar. Þrjú stór lokaverkefni voru á sýningunni. Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir sýndi stór abstraktverk, Sigrún Kristjánsdóttir sýndi listrænar ljósmyndir og Telma Ýr Róbertsdóttir litrík málverk. Almennt má segja að óhlutbundin verk hafi verið áberandi úr myndlistaráföngum og inngangi að listum. Nemendur úr goðafræðiáfanga í íslensku sýndu fjölmörg verk þar sem æsir komu við sögu, Ratatorskur og Fenrisúlfur sem orðinn var að laxi að éta sólina. Nemendur í frumkvöðlafræði sýndu meðal annars matreiðslubók, ljósmyndabók og ýmislegt skraut. Nemandi í ensku sýndi leik sem hægt er að keppa í og geta nokkrir ást við. Nemendur og starfsmenn MTR þakka gestum fyrir komuna.
Lesa meira

Haustsýning

Sýning á verkum nemenda MTR á haustönninni verður haldin í skólanum á laugardag 15. desember kl. 13:00 – 16:00. Á sýningunni verða málverk, listrænar ljósmyndir og margvísleg verkefni úr áföngum á borð við fagurfræði, íslensku, frumkvöðlafræði, stærðfræði í listum og skapandi listir með þjóðfræðilegu ívafi. Til dæmis er barnabók á sýningunni, einnig tröllkarlar úr mismunandi efnum og ljóð og lög um tröll. Meðal verkefna úr frumkvöðlafræði eru matreiðslubók, hundabeisli og dýrabæli úr endurunnum dekkjum. Í þeim áfanga hafa nokkrir nemendur hannað og skipulagt ferðir eða aðra afþreyingu sem þeir kynna á sýningunni. Nemendur verða á staðnum tilbúnir að ræða um verk sín við gesti.
Lesa meira

Grunnskólanemar yrkja í MTR

Ljóðahátíðin Haustglæður hefur farið fram í Fjallabyggð undanfarin 12 ár. Sérkenni hátíðarinnar er hve virkan þátt börn og ungmenni taka þátt í henni. Fastur liður í hátíðinni er ljóðasamkeppni milli nemenda í 8. – 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Hefur sá háttur verið hafður á undanfarin ár að þátttakendur nota listaverk sem kveikjur að ljóðum. Í MTR er jafnan mikið af listaverkum á veggjum og í fyrra óskuðu skipuleggjendur hátíðarinnar, Umf Glói og Ljóðasetur Íslands, eftir samstarfi við skólann sem felur í sér að þessi liður hennar fari fram þar. Var því vel tekið og tókst vel til í fyrra. Á dögunum heimsóttu nemendur skólann í annað sinn í þessum tilgangi. Til að veita nemendum innblástur var sett upp sýning listaverka eftir listafólk úr Fjallabyggð. Þar áttu verk fjórir einstaklingar sem útnefndir hafa verið bæjarlistamenn Fjallabyggðar: Berþór Morthens, Guðrún Þórisdóttir, Arnfinna Björnsdóttir og nýjasti bæjarlistamaðurinn Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir og auk þeirra Kristinn G. Jóhannsson og Kolbrún Símonardóttir. En Kolbrún var listamaður nóvembermánaðar í skólanum og þar voru til sýnis glæsileg veggteppi úr hennar smiðju. Kveikjurnar virkuðu vel og fjöldi góðra ljóða varð til hjá nemendum. Dómnefndar bíður nú það erfiða, en skemmtilega verkefni, að velja þau fjögur ljóð s
Lesa meira

Jólamót í badminton

Í lok hverrar annar hafa nemendur og kennarar skapað þá hefð að keppa í þeirri íþróttagrein sem er kennd hverju sinni. Í þetta sinn var það badminton og tuttugu nemendur skráðu sig til leiks. Keppt var í einliðaleik og tvíliðaleik og fengu aðrir samnemendur frí til þess að koma og hvetja. Staðan er nokkuð jöfn á milli kennara og nemenda að loknum fjórum önnum. En kennarar verða þó að herða sig því nemendur eru komnir með forskot hvað þátttökuna varðar.
Lesa meira

Kolbrún listamaður mánaðarins

Bútasaumsverk Kolbrúnar Símonardóttur hafa undanfarnar vikur skreytt skólann og glatt nemendur og starfsmenn. Einnig voru verkin kveikja að ljóðagerð nemenda efstu bekkja Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn þeirra til okkar fyrr í vikunni. Bútasaumur er ævafornt form af saumi sem spratt frá nauðsyn þess að nýta búta og endurnota efni til þess að mynda stærri fleti í fatnað, ábreiður, tjöld, segl og fleira. Kolbrún hefur saumað fjölda verka úr efnisbútum, t.d. rúmteppi, barnateppi, dúka, gardínur og veggteppi. Hún hannar þessi verk sjálf, raðar saman litum af miklu listfengi og segir sögur af lífinu og tilverunni í gegnum bútasauminn. Bútasaumsverk Kolbrúnar hafa verið á sýningum hérlendis sem erlendis t.d. á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Kanada. Kolbrún er fædd í Fljótunum en fluttist ung til Siglufjarðar. Hún hefur teiknað, málað, saumað, skorið út í við, unnið gler, tekið ljósmyndir og ritað ljóð. Þegar hún varð fimmtug fór hún að fást við bútasaum og hefur sinnt þeirri listgrein síðan. Kolbrún er mikið náttúrubarn og hefur alla tíð heillast af litum náttúrunnar og notað þá í öllum listgreinum sem hún fæst við. Kolbrún jurtalitar einnig íslenska ull og nær þar fram ýmsum töfrandi litum. Hún rekur Gallerí Imbu á Siglufirði þar sem hún sýnir og selur handverk sitt og hönnun.
Lesa meira

Leikur í námi

Tryggvi Hrólfsson kennari í ensku og sögu var klæddur í sérstaka búninga og málaður í morgun. Það gerðu nemendur og var athöfnin verðlaun fyrir virkni á önninni. Önnur uppáfærslan verður hluti af lokaverkefni þriggja nemenda í sögu á sýningu á verkum nemenda á laugardag. Viðfangsefnið er tíska og förðun kvenna á tuttugustu öld. Fyrirmyndin að hinu gervinu er sótt til leikritsins Ávaxtakörfunnar. Verðlaunin sem að framan er lýst eru umbun nemenda og hvíla á aðferð leikjavæðingar í kennslu og námi. Leikjavæðing gengur út á að nota aðferðir úr leikjum til að auka virkni nemenda.
Lesa meira

Aðeins fjórðungur með fjölnota poka

Lítil vettvangsathugun sem gerð var í Kjörbúðinni á Dalvík bendir til þess að um 73% þeirra sem þar versla noti plastpoka undir vörurnar en um 27% fjölnota poka. Athugunin fór fram tvo daga um miðjan nóvember og var fylgst með viðskiptavinum í tvær og hálfa klukkustund samtals. Hlutfallslega eru fleiri konur með fjölnota poka en karlar, hjá konum var hlutfallið 33% en hjá körlum aðeins 17%. Setja verður þann fyrirvara að athugunin er ekki umfangsmikil en niðurstöðurnar veita þó ákveðna vísbendingu.
Lesa meira

Aþena Marey önnur í snjóskautakeppni í Kína

Aþena Marey Jónsdóttir, nemandi MTR, er stödd í Kína þar sem hún er að keppa ásamt fimm öðrum Íslendingum á snjóskautum. Þetta eru fjórar mótaraðir á heimsmeistaramótinu og er þetta fyrsta mótið. Keppendur safna sér stigum á öllum mótunum og í lokin skýrist hver vinnur. Aþena Marey sýndi heldur betur hvað í henni býr þegar hún náði öðru sæti í “race” eða hraðaþraut þar sem einn fer í einu og tveir fremstu komast í úrslit. Sú sem hreppti fyrsta sætið er frá Austurríki og sú sem varð í þriðja sæti kom frá Frakklandi en alls voru þetta um 25 keppendur. Einnig er keppt með frjálsri aðferð “freestyle” þar sem keppt er á “rail-i”(handriði) og stökkum á pöllum. Keppendur voru svo heppnir að fá að keppa á stærsta innanhússskíðasvæði heims sem er í Harbin í Kína. Aþena Marey segir að á Íslandi stundi um tuttugu einstaklingar þessa íþrótt. Sex hafi verið valin til að fara á þetta mót. Það sé mikill heiður, þau hafi komist fjórum sinnum á pall á þessu móti sem sé frábært. Aþena Marey byrjaði að æfa í október í fyrra og æfir bara á Akureyri og Dalvík, eða þar sem er snjór. Næsta keppni í snjóskautamótaröðinni fer fram í Suður-Kóreu á laugardag, síðan verður keppt í Canada og loks í Þýskalandi þannig að þetta verður mikið ævintýri, segir Aþena Marey. Þar verða fleiri keppendur og brautirnar aðeins meira krefjandi. Í heildina þá eru Íslendingarnir að standa sig best eins og staðan er núna en svo kemur í ljós hvort eitthvað breytist. Til Suður-Kóreu koma keppendur frá fleiri löndum. Ef fólk hefur áhuga á að fylgjast með þá eru þau með instagram síðu sem heitir shred_dogs og síðan voru stelpurnar að búa til sína eigin instagram síðu sem heitir shreddogs_girls
Lesa meira

Akrólistakynning

Fimleikanemendur MTR fengu kynningu á akrólistum í síðustu viku. Þetta eru listir sem sækja í smiðju danslista, fimleika og sirkuslista og sumir kennarar tengja við hugmyndafræði jógaiðkunar. Það var Unnur María Máney Bergsveinsdóttir sem kynnti akrólistirnar. Hún er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona í Ólafsfirði. Akrólistirnar eru afar fjölbreyttar. Unnið er saman í pörum eða litlum hópum með æfingar sem byggjast á að finna sameiginlegt jafnvægi milli þeirra sem eru að vinna saman. Byggðir eru pýramídar, tveggja eða margra manna plankar, iðkendur standa, sitja, eða hanga hverjir á öðrum. Þegar lengra er komið snúa iðkendur jafvel félaga sínum í loftinu eins og flatbökumeistarar! Unnur María segir ekki nauðsynlegt að vera fimleikameistari eða búa yfir sérstökum liðleika eða styrk til þess að byrja að æfa akró heldur bara að vera tilbúinn að prófa, treysta og læra að beita líkamanum rétt. Við séum öll ólík og það skemmtilega við akróið sé að allir geti fundið stöður og æfingar við sitt hæfi. Það sé stórkostlegt að sýna fólki hvað það getur gert, því nánast án undantekninga geti fólk meira en það heldur. Allir geti gert akró, óháð aldri, stærð eða líkamlegu formi. Akró byggi upp líkamlegan styrk, samhæfni og hreyfigetu og virki ýmsa litla vöðva sem fæstir noti mikið dags daglega. Mest reyni á kvið- og bakvöðva og séu þeir fljótir að byggjast upp á æfingum. Hún segir að mikil áhersla sé lögð á rétta tækni og líkamsbeitingu og meðvitaða líkamsvitund. Unnur María Máney Bergsveinsdóttir kallar sig Húlladúlluna. Hún er sjálfstætt starfandi sirkuslistakona, nýflutt til Ólafsfjarðar. Hún hefur starfað með Sirkus Íslands og breska sirkusnum Let’s Circus auk þess að hafa komið fram á sirkussýningum í Frakklandi, Bretlandi og Mexíkó. Auk þess að leika listir sínar kennir hún bæði börnum og fullorðnum ýmsar sirkuslistir, með sérstakri áherslu á húlla, akró, loftfimleika og jafnvægiskúnstir. Hún lauk húllakennaranámi frá Live Love Hoop í Bristol árið 2016 og er nú í alþjóðlegu Social Circus kennaranámi á vegum Caravan sirkussamtakanna og Evrópusambandsins. Unnur María starfar einnig með kabarettinum Drag-Súgi og með Reykjavík Kabarett og er ein af stofnendum Akró Íslands hópsins.
Lesa meira

Álfheiður Líf efnileg í lyftingum

Uppgangur er í iðkun kraftlyftinga í Ólafsfirði og kepptu sex einstaklingar frá Kraftlyftingafélagi Ólafsfjarðar Fjallabyggð á bikarmótinu á Akureyri um síðustu helgi. Ein þeirra er Álfheiður Líf Friðþjófsdóttir nemandi MTR. Hún fékk gullverðlaun í sínum flokki í réttstöðulyftu með seríuna 95-105-110 kg. Í ljósi þess hve skamman tíma Álfheiður Líf hefur æft kraftlyftingar er þetta mjög góður árangur – og ekki síður vegna þess að í upphafi móts var hún óheppin og gerði ógildar tilraunir í hnébeygju. Í bekkpressu lyfti hún 40 og 45 kg og átti góða tilraun við 50 kg sem tókst þó ekki. Álfheiður Líf hefur æft kraftlyftingar í nokkra mánuði og keppt á fjórum mótum. Hún segir góðan félagsskap í þessari íþrótt og skemmtilegt að æfa.
Lesa meira