Fréttir

Gamithra sigursæl í forritun

Gamithra Marga, fjarnemi í MTR og Bjarni Dagur Thor Kárason frá MR unnu erfiðustu deildina í Forritunarkeppni framhaldsskólanna um nýliðna helgi. Keppnin var haldin í Háskólanum í Reykjavík og kepptu 37 lið í þremur deildum. Gamithra og Bjarni Dagur höfðu nokkra yfirburði í sinni deild með 1109 stig en liðið sem varð í öðru sæti fékk 936 stig. Heimilt var að þrír væru saman í liði en sem fyrr segir voru Gamithra og Bjarni Dagur bara tvö í sínu liðið í Alfa-deildinni. Ákveðið er að Gamithra keppi á Eystrasaltsólympíuleikunum í forritun í lok næsta mánaðar. Líklegt er að hún verði einnig í hópi keppenda á Ólympíuleikunum í forritun í Aserbaídsjan síðar á árinu. Á síðasta ári tóku hún og Bjarni Dagur þátt í Eystrasaltskeppninni í upplýsingatækni sem haldin var í Stokkhólmi. Þau fóru líka til Japans og kepptu á Heimsleikunum í forritun í haust. Keppnin fór fram í Tsukuba vísindaborginni rétt hjá Tokíó höfuðborg Japans. Það eru einstaklingar en ekki lið sem eigast við í þessum alþjóðlegu keppnum og segir Gamithra að þátttakan sé mikil reynsla og stórkostleg upplifun. Gamithra Marga er frá Eistlandi. Hún flutti til Íslands fyrir rúmum tveimur árum en áður hafði hún lært talsvert í íslensku á netinu og hefur nú náð prýðilegum tökum á málinu. Fjölskylda hennar býr í Tallin, höfuðborg Eistlands, en áður stundaði hún nám í háskólaborginni Tartu.
Lesa meira

Samstarf MA og MTR um útivistarnám

Hópur tuttugu nemenda og tveggja kennara úr MA átti góðan dag í útivistarparadísinni Fjallabyggð í gær með tíu MTR-nemum og kennurum þeirra. Allir eru í útivistaráföngum sem fela í sér skíðaiðkun, fjallamennsku, sjósund og fleira af því tagi. Nemendur æfðu sig á gönguskíðum, fjallaskíðum, snjóþrúgum og fengu leiðsögn í að nota snjóflóðaýlur og áttavita. Einnig kynntust þeir útieldun í sérstökum búnaði sem til er í MTR. Flestir fóru í sjósund og enduðu dagskrána í heita pottinum í sundlaug Ólafsfjarðar. Dagurinn var í alla staði vel heppnaður og nemendum beggja skóla til ánægju og sóma. Gert er ráð fyrir að samstarf skólanna haldi áfram á þessum vettvangi.
Lesa meira

Tónlistarbúðir - Myndband

Í miðannarvikunni fékk hópur nemenda tækifæri til að æfa sig í að skrifa texta, syngja og rappa. Katrín Ýr söngkona kom frá London þar sem hún býr og leiðbeindi nemendum. Talsvert var pælt í því hvað fær fólk til að hlusta á tónlist. Nemendur skiptu sér í tvo hópa, stelpur og stráka og skrifaði hvor hópur texta við eitt lag. Æfður var hópsöngur og þátttakendur settu saman atriði með nemendum í sirkuslistum. Þá voru í áfanganum gerð tónlistarmyndbönd. Slóð á myndband:
Lesa meira

Sirkuslistir í miðannarviku

Hópur nemenda reyndi alveg nýja hluti í miðannarvikunni, bætti hreyfifærni sína og jók þolinmæði. Unnur María Máney kynnti þeim heim sirkuslistanna og nemendur æfðu meðal annars sviðsframkomu og atriðagerð í samstarfi við hópinn sem var í tónlistarbúðum hjá Katrínu Ýr. Á námskeiðinu var lögð áhersla á grunnþætti í djöggli, fyrst notuðu nemendur slæður en síðan bolta og hringi. Nemendur prófuðu líka að nota blómaprik, jafnvægisfjaðrir, veltibretti og kínverska snúningsdiska. Þeir lærðu líka grunnþætti sirkusfimleika og prófuðu loftfimleika í silki.
Lesa meira

Mín framtíð 2019

Mín framtíð 2019 er Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynning í Laugardalshöll þar sem fræðsluaðilar kynna fjölbreytt námsframboð á framhaldsskólastigi og fram fer keppni á Íslandsmóti iðn- og verkgreina. Boðið er upp á ýmsa viðburði, kynningar og ekki síst að prófa, fikta, snerta og smakka. Sérstök opnun er fyrir nemendur í 10. bekk fimmtudag og föstudag en á þá er opið milli kl. 14 og 17 fyrir almenning sem og laugardaginn 16. mars milli klukkan 10 og 16. Menntaskólinn á Tröllaskaga er með sýningarbás þar sem nám og aðferðafræði skólans er kynnt. Fjarnemar skólans af höfuðborgarsvæðinu eru boðnir sérstaklega velkomnir. Nú stendur yfir val fyrir næstu önn og því tilvalið að kíkja á námsráðgjafa og þá kennara sem eru á svæðinu og fá aðstoð við valið. Á meðfylgjandi myndum má m.a. sjá Sigríði Ástu námsráðgjafa ræða val næstu annar við fjarnemann Andreu Stefánsdóttur og Ingu stærðfræðikennara kenna staðnemendum Menntaskólans stærðfræði frá Laugardalshöll í gegnum nærveruna Lóló.
Lesa meira

Viðfangsefni á næstu önn

Nemendur þurfa sem allra fyrst, og ekki síðar en á þriðjudag, að skrá sig í áfanga á næstu önn. Mikilvægt er að skipuleggja námið í samræmi við þá framvindu sem hver og einn stefnir að. Meðal þess sem hægt er að velja eru áfangar um skapandi hugsun, sirkuslistir og afreksíþróttaþjálfun. Þá er í boði áfangi sem heitir „Náðu tökum á náminu“ og annar sem ber titilinn „Vertu leiðtoginn í þínu lífi“. Í íslensku er, auk hefðbundinna áfanga, hægt að kynna sér þróun glæpasagnaritunar innanlands og utan. Hægt er að leggja stund á skapandi ljósmyndun og prentun en líka næringarfræði, geðrækt, fjármálalæsi og margt fleira. Þá er hægt að skrá sig í námsferð til Istanbul í vikunni fyrir páska.
Lesa meira

Inga og Villa vottaðir Google-leiðbeinendur

Tveir starfsmenn skólans hafa nú lokið tveimur stigum sem vottaðir leiðbeinendur frá Google (Google Certified Educators). Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari sóttu tvö námskeið í Bretlandi í lok síðasta árs til undirbúnings próftöku. Prófin fóru fram í febrúar og mars og hafa þær nú fengið staðfestingu á að þær hafi staðist kröfur Google sem eru forsendur vottunarinnar. Þar með hafa þær aukið hæfni sína til að leiðbeina bæði starfsmönnum og nemendum skólans á þessu sviði.
Lesa meira

Þýska í miðannarviku

Tungumál snúast um samskipti og byrjunin fólst í því að skapa góðan anda í hópnum þannig að allir væru í virkum samskiptum. Leiðbeinandinn, Carla Águsta Martinsdóttir, segir að nemendur hafi rætt hvernig best sé að læra erlent tungumál, t.d. með aðstoð kennslubóka, með samskiptum við fólk sem talar málið eða með því að nota myndbönd og aðra slíka miðla. Nemendur lærðu ýmis grundvallaratriði á þýsku svo sem að telja, að segja hvað klukkan er, hvað litirnir heita og fleira slíkt. Það voru gerðar nokkrar skriflegar æfingar, til dæmis að skipuleggja ferðalag til Þýsklands en einnig var farið út í leiki. Þau horfðu líka á gamanmynd um daglegt líf í hinu fjölþjóðlega Þýskalandi. Hver dagur byrjaði á því að fara yfir það sem var á dagskrá daginn áður til að festa það betur í minninu. Carla Águsta segist hafa undrast viljann sem nemendur sýndu til að læra og getuna til að muna nýja hluti.
Lesa meira

Sköpun og tækni

Viðfangsefnið í einum áfanga í miðannarvikunni var að nota ýmis tæki og tækni við sköpun. Nemendur hönnuðu meðal annars farsímastanda og mismunandi merki (logo) sem þeir skáru síðan út í lazerskera. Rafmagnsleikföng voru meðal viðfangsefna og reyndu nemendur sig til dæmis við að smíða arm á vélmenni. Til að hreyfa hann voru notaðar sprautur sem virkuðu eins og vökvatjakkar. Tíu nemendur tóku þátt í þessum áfanga hjá Ólafi Pálma Guðnasyni, tölvunarfræðingi.
Lesa meira

Lífleg uppákoma

Hópar úr tveimur áföngum miðannarvikunnar slógu saman í skemmtilega uppákomu í sal skólans Hrafnavogum í gær fimmtudag. Nemendur úr tónlistarbúðum hjá Katrínu Ýr sungu en nemendur í sirkuslistum hjá Unni Maríu Máney sýndu æfingar með hringjum í takt við tónlistina.
Lesa meira