Bergþór Morthens
Sýning mánaðarins í Hrafnavogum er ekki helguð einum listamanni eins og hingað til hefur verið. Þórarinn Hannesson, menningarfulltrúi, ákvað að breyta út af venjunni og setja saman sýningu á verkum í eigu starfsmanna skólans. Hverjum starfsmanni var í sjálfsvald sett hvaða verk úr sinni eigu hann legði til eða hvort hann tæki þátt. Það bárust þrettán verk sem auðga tilveru nemenda og starfsmanna í september. Verkin eru af ýmsu tagi en oftar en ekki eru einhver tengsl milli eiganda og listamanns. Margir listamannanna eru af svæðinu eða tengdir því með einhverjum hætti en aðrir hafa aldrei drepið niður fæti á Tröllaskaga, svo vitað sé. Verkunum fylgja söguskýringar frá eigendum um tilurð verkanna eða tengsl þeirra við höfundinn. Myndin sem fylgir fréttinni var tekin þegar Bergþór myndlistarkennari aðstoðaði menningarfulltrúann við að koma myndunum fyrir. Gestum og gangandi er velkomið að skoða sýninguna á skólatíma.