Fréttir

SAMNOR í Ólafsfirði

Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga hefur að mestu lokið undirbúningi móttöku starfssystkina frá Framhaldsskólunum á Laugum og Húsavík, Verkmenntaskólanum og Menntaskólanum á Akureyri sem mynda SAMNOR-samstarf. Dagskráin er fjölbreytt. Þar eru málstofur, erindi, sófaspjall, dótakynningar, heimsóknir í fyrirtæki, sjósund og fleira. Starfsfólki Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er boðið með. Þá gefast kennurum skólanna góð tækifæri til að kynnast eða endurnýja gömul kynni og bera saman bækur um fagleg efni. Hér er slóð á myndband Ingu Eiríksdóttur um dagskrá og tilhögun SAMNOR-dagsins í Ólafsfirði föstudaginn 4. október.
Lesa meira

Heimsókn úr Menntaskólanum í Reykjavík

Starfsmenn Menntaskólans í Reykjavík heimsóttu skólann í dag. Þau fengu kynningu á MTR, námskrá skólans, menntunarfræði og hugmyndafræði. Síðan fengu þau innsýn í kennslu fjölmargra greina og hvernig upplýsingatækni spinnast inn í starfið. Frábær heimsókn þar sem margt bar á góma, kennarar skiptust á hugmyndum og reynslu. Rektor MR Elísabet Siemsen færði síðan MTR borðfána MR og skólameistara forláta húfu með merki MR sem mun veita yl í vetur.
Lesa meira

Nemendastýrður áfangi um umhverfismál

Stofnuð hefur verið umhverfisnefnd í skólanum. Í henni eru fjórir nemendur sem hafa í áfanganum UMHV2NÁ03 metið stöðu umhverfismála í skólanum og nærsamfélaginu og ætla síðan að útbúa aðgerðaáætlun um úrbætur. Ákveðið hefur verið að leggja áherslu á loftslagsmál. Stefnt er að gróðursetningu trjáa í samstarfi við Skógræktarfélagið og Skíðafélagið. Verkefnið er í vinnslu en stefnt að framkvæmdum í næstu viku. Það haustar að og bráðum gæti fallið snjór í Ólafsfirði. Þetta verkefni snýst um að kolefnisjafna. Nefndin hefur þegar sett upp fataslá í skólanum þar sem nemendur og starfsmenn setja föt sem þeir eru hættir að nota og aðrir geta nýtt sér. Einnig er búið að setja upp Instagrammsíðu til að miðla upplýsingum um það sem gert er. https://www.instagram.com/umhverfisnefndmtr/ Fylgjendur eru enn sem komið er aðallega nemendur skólans en stefnt er að því að fylgjendur verði 500. Þá er á dagskrá að tala við stjórnendur sveitarfélagsins og fá upplýsingar um hvað þeir eru að gera til að stuðla að heilbrigðara umhverfi. Nefndin hefur hug á að hvetja íbúa í Fjallabyggð til að vera duglegri að flokka sorp. Fjórmenningarnir hafa séð að sumir flokka alls ekki. Umhverfisnefndin hefur hug á að komast að á útvarpsstöðinni Trölla og ræða þetta mál. Afla fyrst upplýsinga og koma boðskapnum síðan til skila. Meðal annars ætla þau að kanna hvort ráðamenn í kjörbúðinni í Ólafsfirði og á Olís eru tilbúnir til að setja upp flokkunartunnur fyrir viðskiptavini. Áfanginn er á öðru þrepi. Kennarar eru Karólína Baldvinsdóttir og Unnur Hafstað.
Lesa meira

Róið og sigið í útivistinni

Nemendur í áfanganum útivist í snjóleysi ÚTIV2HR05, fengu um helgina tækifæri til að æfa sig í nýja turninum sem björgunarsveitin Strákar á Siglufirði reisti sér í vor. Turninn er á bak við einn snjóflóðavarnargarðinn ofan við byggðina. Hann er tíu metra hár. Þarna fengu nemendur að kynnast sigi með öllum þeim búnaði sem nauðsynlegur er. Það var ákveðin áskorun að halla sér aftur á brún turnsins og setja allt sitt traust á búnaðinn, en þegar það var komið var gaman að láta sig síga niður og flestir nemendur fóru nokkrar ferðir. Önnur æfing í þessar lotu var kajakróður. Fyrir æfinguna fengu nemendur kynningu á kajaksportinu og kennarar fóru vandlega yfir öryggisatriði. Síðan var róið af stað út á Siglufjörðinn þar sem meðal annars voru skoðuð gömul skipsflök. Veður var með besta móti og allir skemmtu sér vel yfir sögum Gests kennara, sem er margfróður um þetta svæði. Þá var stokkið í sjóinn með tilheyrandi gleðiópum. Þessir tveir æfingadagar tókust vel og fara í reynslubanka nemenda.
Lesa meira

Sjónarmið nemenda

Líðan nemenda í skólanum og verðið á matnum í mötuneytinu var meðal þess sem nemendur ræddu á skólafundi. Fundurinn er vettvangur nemenda til að ræða hagsmunamál sín og koma með ábendingar um breytingar sem þeir telja æskilegar. Að þessu sinni var, auk þess sem að framan var nefnt, rætt um nýnemadaginn fyrr í haust og skipulag í skólastofum, einkum í Brimnesi, þar sem uppröðun var breytt frá síðasta skólaári. Fram komu hugmyndir um að setja borðtennis- og billjarðborð í skólastofu og nota þau til að læra við þegar leikir væru úti. Hugmynd var líka hreyft um færa leikjatölvur úr sal í lokuð rými. Varðandi mötuneytið kom fram að nemendum finnst maturinn dýr og var varpað fram hugmyndum um hvernig hugsanlegt væri að lækka verðið, t.d. með fleiri miðum á matarkortunum sem viðskiptavinir mötuneytisins kaupa og greiða fyrirfram. Samkvæmt lögum um framhaldsskóla á að halda skólafund að minnsta kosti einu sinni á ári og eiga starfsmenn og fulltrúar nemenda rétt til setu þar samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Í MTR hefur verið litið svo á að allir nemendur ættu rétt til að sitja fundinn og þeir hafa verið hvattir til að gera það. Sjálfsmatsteymi skólans fjallar um niðurstöður einstakra hópa og kynnir þær fyrir stjórnendum, skólanefnd og starfsmönnum skólans.
Lesa meira

Myndlist mánaðarins

Sýning mánaðarins í Hrafnavogum er ekki helguð einum listamanni eins og hingað til hefur verið. Þórarinn Hannesson, menningarfulltrúi, ákvað að breyta út af venjunni og setja saman sýningu á verkum í eigu starfsmanna skólans. Hverjum starfsmanni var í sjálfsvald sett hvaða verk úr sinni eigu hann legði til eða hvort hann tæki þátt. Það bárust þrettán verk sem auðga tilveru nemenda og starfsmanna í september. Verkin eru af ýmsu tagi en oftar en ekki eru einhver tengsl milli eiganda og listamanns. Margir listamannanna eru af svæðinu eða tengdir því með einhverjum hætti en aðrir hafa aldrei drepið niður fæti á Tröllaskaga, svo vitað sé. Verkunum fylgja söguskýringar frá eigendum um tilurð verkanna eða tengsl þeirra við höfundinn. Myndin sem fylgir fréttinni var tekin þegar Bergþór myndlistarkennari aðstoðaði menningarfulltrúann við að koma myndunum fyrir. Gestum og gangandi er velkomið að skoða sýninguna á skólatíma.
Lesa meira

Stefnir á Íslandsmet

Mikael Sigurðsson nemandi á fyrsta ári í MTR hefur áhugamál sem teljast verður óvenjulegt hjá svo ungum einstaklingi. Áhugamálið er fuglaskoðun og fuglaljósmyndun. Hann stefnir að því að slá Íslandsmet með því að verða yngstur til að sjá og mynda 200 fuglategundir. Hann er aðeins fimmtán ára og er kominn í 171 tegund. Fuglarnir verða að vera lifandi þegar mynd næst af þeim. Síðan þarf að senda myndina til Flækingsfuglanefndar og hún þarf að staðfesta tilvikið. Mikael náði í síðustu viku að mynda ormskríkju, lítinn amerískan spörfugl, við Reykjanesvita. Fleiri náðu mynd af fuglinum, er þessi tegund hefur aðeins einu sinn áður sést hér á landi.
Lesa meira

Sjálfstæði í óbyggðum

Hluti af námi í áfanganum útivist í snjóleysi, ÚTIV2HR05, felst í þjálfun í að meta aðstæður í náttúrunni með tilliti til öryggis og öðlast sjálfstæði í óbyggðum. Áhersla er lögð á virðingu fyrir náttúrunni og góða umgengni um landið. Nemendur í áfanganum og tveir útivistarkennarar fóru í námsferð fyrir helgina og lágu úti í Héðinsfirði. Eftir vandlegan undirbúning var lagt af stað um miðjan dag á fimmtudag og komið til baka um sólarhring síðar. Farið var frá þjóðveginum, með viðeigandi búnað á bakinu og gengið niður að sjó. Áð var nokkrum sinnum á leiðinni og Gestur, annar kennarinn, sagði sögur af lífinu í Héðinsfirði, meðan þar var enn byggð og fræddi nemendur um örnefni. Eftir tæplega þriggja klukkustunda göngu var slegið upp tjöldum við slysavarnarskýlið í Vík, austan megin í Héðinsfirði. Þar var eldað og gist um nóttina. Eftir ágætan nætursvefn útbjuggu nemendur morgunverð og neyttu og síðan var komið að því að pakka saman og ganga til baka. Veður var gott, eftir miklar rigningar dagana á undan og nutu nemendur útiverunnar. Að sjálfsögðu reyndi nokkuð á þá í ferðinni. Sumir höfðu ekki gist í tjaldi áður og það tók á að bera allan farangurinn. Svo var ekkert símasamband! Kennarar í ferðinni voru Kristín Anna Guðmundsdóttir og Gestur Hansson.
Lesa meira

Spenna fyrir golfinu

Nemendur í áfanganum ÍÞRG1GF02 stunda golfið grimmt þessa dagana. Áfanginn er tvískiptur, það er golf fram að miðönn en frjálsar íþróttir eftir það. Sautján nemendur eru í áfanganum og eru þeir mjög áhugasamir um golfið. Íþróttin hefur ekki áður verið kennd við skólann nema á stuttu námskeiði í miðannarviku fyrir nokkrum árum.
Lesa meira

Menningarferð til Akureyrar

Nemendur í myndlist og á starfsbraut gerðu sér dagamun og brugðu sér í menningarferð til Akureyrar í gær. Þar er blómlegt menningarlíf og margt að sjá. Til að fá smá nasasjón af því sem þar er í gangi var ákveðið að fara á nokkra staði þó stoppað væri stutt á hverjum þeirra. Fjölbreyttar sýningar eru í nýjum salarkynnum Listasafns Akureyar. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi tók á móti hópnum. Fyrst var skoðuð samtímalist frá Þjóðarlistasafninu í Lettlandi. Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me! Það var áhugavert fyrir nemendur að upplifa verkin frá Lettlandi sem mörg hver fást við ákveðið uppgjör við Sovéttímann og járntjaldið. Hugtök sem eru ekki svo fjarlæg okkur í tíma en ungum nemendum þó framandi.
Lesa meira