Fréttir

Verkefnastjóri erlendra samskipta til Brussel

Mikil þekking og reynsla hefur safnast í fjölþjóðlegu samstarfi sem nemendur og kennarar MTR hafa tekið þátt í síðstu ár. Ida Semey hefur verið í fararbroddi í þessu starfi. Hún hefur skrifað flestar styrkumsóknir og auk þess átt drjúgan þátt í að skipuleggja verkefni og stýra þeim. Þetta hefur ekki farið framhjá starfsmönnum Rannís sem sjá um samskiptin við framkvæmdastjórn ESB vegna Erasmus+ verkefnanna. Þess vegna er Ida í hópi tíu Íslendinga sem verða í Brussel í vikunni og taka þátt í að leggja línur í þessu samstarfi fyrir tímabilið 2021-2027. Sex íslensku fulltrúanna eru reyndir verkefnisstjórar í evrópuverkefnum en fjórir eru starfsmenn Rannís. Á fundunum í Brussel verða áherslur og skipulag evrópuverkefnanna á næstu árum kynnt og þátttakendur hafa tækifæri til að láta í ljósi álit sitt á þeim áður en formlega verður frá öllu gengið.
Lesa meira

Fjölþjóðlegt samstarf

Nemendur og starfsmenn MTR hafa á síðustu fimm árum tekið þátt í fjölmörgum erlendum verkefnum. Flest hafa verið styrkt af Evrópusambandinu eða Norrænu ráðherranefndinni. Sum verkefnin hafa snúist um nemendaskipti en önnur um nám og þjálfun starfsmanna á námskeiðum, í skólaheimsóknum og á sérstökum námsstefnum. Nemendur og kennarar frá sautján Evrópuríkjum hafa tekið þátt í þessu samstarfi.
Lesa meira

Ráðagóðir nemendur

Nokkrir nemendur skólans vöktu athygli fyrir dugnað sinn og iðni við námið á Bókasafni Fjallabyggðar á Siglufirði í dag. Hefðbundið skólastarf í Ólafsfirði féll niður vegna óveðurs. Ótíðin hefur raskað skólastarfi talsvert í upphafi annarinnar sem kennd er við vorið. Nemendur og kennarar sem eiga heima innan við Ólafsfjarðarmúla hafa aðeins komist í skólann sex af tólf kennsludögum það sem af er og staðan er ekki mikið betri hjá þeim sem búa á Siglufirði. Kennarar gera sitt besta til aðstoða nemendur og nota til þess ýmsa tækni. Hópurinn á myndinni er til dæmis að læra íslensku og nýtur við það leiðsagnar Margrétar Laxdal, kennara síns, sem stödd var heima hjá sér á Dalvík. Það er gleðilegt að sjá þetta framtak og að nemendur eru að taka til sinna ráða. Þeir ætla ekki að láta ótíðina spilla námsframvindunni.
Lesa meira

Brugðið á leik

Nemendafélagið Trölli skipulagði tónlistarstund í hádeginu. Það eru hæg heimatökin, skólahljómsveitin mætti og tónlistarkennarinn Guðmann Sveinsson. Segja má að uppákoman hafi líka verið hluti af náminu því strákarnir eru ýmist á tónlistarbraut eða taka þar ákveðna áfanga. Punkturinn yfir I-ið var svo þátttaka Julie Thiry-Couvillion og Collin Couvillion. Hún er menntuð söngkona en hann er tólistarkennari í New York. Þau dvelja á Kaffi Klöru í janúar og ætla að skipuleggja fjáröflunarkvöld í næstu viku með nokkrum nemendum skólans. Í skólahljómsveitinni eru Hörður Ingi Kristjánsson, Mikael Sigurðsson og Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir.
Lesa meira

Nítjánda brautskráning MTR

Tólf stúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Þrír útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, einn af útivistarsviði íþróttabrautar, tveir af listabraut, einn af kjörnámsbraut og fimm luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs. Þessir tólf nemendur koma frá átta stöðum á landinu og ellefu þeirra voru fjarnemar við skólann. Lára Stefánsdóttir, skólameistari greip til líkinga þegar hún ávarpaði brautskráningarhópinn. Hún rifjaði upp atburði síðustu tíu daga í landshlutanum. Hvernig menn hefðu gripið í tómt þegar þeir ætluðu að nota rafmagn, síma og aðra innviði. Hún sagði að í námi byggðu nemendur upp innviði sína, tileinkuðu sér færni af ýmsu tagi, læsi, reikning, notkun erlendra tungumála og fjölmargt annað. Hún sagðist þess fullviss að stúdentsprófið myndi nýtast vel, það væri ákveðin innistæða en símenntun væri líka nauðsynleg. Brynjar Bjarkason flutti ávarp nýstúdents. Hann þakkaði skólanum fyrir tækifæri til að klára námið á eigin forsendum. Hann hefði byrjað í framhaldsskóla fyrir tíu árum en loksins væri náminu lokið með stúdentsprófi eftir nokkur stopp og pásur. Hann sagðist reikna með að margir væru í sömu sporum. En Menntaskólinn á Tröllaskaga hefði veitt mjög sérstakt tækifæri til að ljúka náminu án þess að segja upp vinnu, flytja að heiman eða taka kvíðvænleg lokapróf. Brynjar þakkaði starfsmönnum skólans fyrir áhuga og frumkvæði og hvatti samstúdenta sína til að setja sér markmið og vinna ötullega að þeim. Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara kom fram að um 340 nemendur hefðu stundað nám við skólann á önninni. Þar af hefðu 248 verið skráðir í fjarnám. Fjölmennasta brautin var félags- og hugvísindabraut með 138 nemendur, 55 voru á náttúruvísindabraut, 52 á listabraut, 43 á íþróttabraut, 14 á kjörnámsbraut, 7 á starfsbraut og 16 á grunnmenntabraut, þar af 10 grunnskólanemar. Við útskriftina önnuðust Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir og Mikael Sigurðsson tónlistarflutning með aðstoð Guðmanns Sveinssonar kennara síns á tónlistarbrautinni.
Lesa meira

Litrík sýning nemenda

Að venju eru verk nemenda á listabraut áberandi á sýningunni en einnig gefur að líta verk nemenda á starfsbraut, nema í íslensku, ensku, frumkvöðlafræði og inngangi að félagsvísindum. Málverk, skúlptúrar, ljósmyndir og verk úr endurnýttum efnum setja svip á sýninguna. Mörg málverk bárust úr áföngum í listasögu og heimspeki fagurfræðinnar. Fjölmargar litríkar sjálfsmyndir frá nemendum í áfanganum Efni og litir prýða anddyri skólabyggingarinnar. Frumleg og fjölbreytileg verk innblásin af Gylfaginningu fylla eina stofu. Þetta eru verkefni úr íslenskuáfanga á öðru þrepi. Efniviðurinn er fjölbreyttur, auk málverka og teikninga gefur að líta prjónaða peysu, verk úr perlum, teiknimyndasögur og fleira. Sérstaka athygli vekur ljósmyndaröð með leiknum atriðum úr Gylfaginningu, tekin í Kjarnaskógi við Akureyri. Þá skiluðu fjórir nemendur frumsömdu lagi með eigin texta sem þeir fluttu á sýningunni. Fjórmenningarnir og fleiri sáu um lifandi tónlist á meðan gestir og heimamenn nutu sýningarinnar. Óveður setti stórt strik í reikninginn við undirbúning sýningarinnar þar sem nær allt skólastarf féll niður síðustu viku annarinnar. Þrátt fyrir að kennarar væru hríðtepptir utan Ólafsfjarðar tókst að koma sýningunni upp á mettíma. Sýningarstjórinn Bergþór Morthens hengdi síðustu myndina upp fimm mínútum áður en sýningin var opnuð.
Lesa meira

Frestur á verkefnaskilum

Eins og varla hefur farið framhjá neinum hefur óveðrið í vikunni sett strik í reikninginn hjá okkur í MTR eins og svo mörgum landsmönnum. Rafmagnslaust hefur verið í Ólafsfirði og tölvukerfi skólans því legið niðri. Skólameistari hefur gefið kennurum heimild til að framlengja skilafrest þar sem þess er þörf. Frekari upplýsingar i Moodle.
Lesa meira

Gleðistund í Hrafnavogum

Nemendur og kennarar á námskeiðum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar í Ólafsfirði og á Dalvík gerðu sér glaðan dag í lok námskeiða haustannar. Námsgreinar voru íslenska og spænska og voru viðurkenningar afhentar á samkomunni. Hún var skipulögð með skömmum fyrirvara en þrátt fyrir það voru gestir á fimmta tug. Þetta var svokallað Pálínuboð þar sem gestir komu með veitingar á hlaðborð. Réttir voru fjölbreyttir enda þátttakendur upprunnir á ýmsum menningarsvæðum. Sýndur var dans frá Filippseyjum og farið í samkvæmisleik. Það er ánægjulegt að hin góða aðstaða í sal MTR skuli nýtast til samkomhalds af þessu tagi
Lesa meira

Jólasmiðja

Sköpunargleði og einbeiting skein úr svip gesta á jólasmiðju skólans í gær. Meðal gesta voru nokkrir nemendur grunnskólans. Þeir nutu eins og aðrir gestir leiðbeininga listgreinakennara skólans. Meðal annars voru steypt og skreytt kerti og málaðar ýmsar jólalegar fígúrur sem skornar voru út í laserskera skólans. Auk þess að næra andann á aðventunni í góðum félagsskap er stafrænni smiðju ætlað að efla skapandi hugsun í námi í samstarfi við nærsamfélagið. Hugmyndin er að bæði grunnskólanemar og íbúar hafi aðgang að slíkum smiðjum auk nemenda skólans. Þetta er sérstakt markmið í skólastarfinu og tengist bæði markmiðum ríkisstjórnarinnar og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Lesa meira

Innritun lokið

Innritun fyrir vorönn 2020 er lokið bæði í fjar- og staðnámi og skólinn fullsetinn. Nemendur sem hlotið hafa skólavist sjá stöðu sína í Innu.
Lesa meira