19.08.2020
Þegar liðið er á annan dag skólastarfs í upphafi haustannar í MTR eru nemendur og kennarar sammála um að allt hafi farið vel af stað þrátt fyrir ýmsar takmarkanir. Allir þurfa að venja sig við eins metra fjarlægðarregluna, að gangarnir eru aðeins ferðarými milli kennslustofa, að sprittþvo verður borðið sitt fyrir og eftir notkun og fleira af því tagi. Eins og venjulega þurfa sumir nemendur að breyta skráningu sinni og sníða smávægilega vankanta af skipulaginu. Sumir nýnemar hafa lýst sérstakri ánægju með vinnutímana þar sem nemendur velja sjálfir hvaða námsgreinum þeir einbeita sér að.
Lesa meira
13.08.2020
Skóli hefst þriðjudaginn 18. ágúst klukkan 8:10 og kennt verður að mestu þann dag samkvæmt stundaskrá. Fjarnám hefst eins og venja er á sama tíma. Í nýjum reglum um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er slakað á fjarlægðarmörkum í framhaldsskólum. Nú skal tryggja að hægt sé að viðhalda eins metra bili milli manna í stað tveggja metra sem er almenna reglan. Fyrir okkur í MTR þýðir þetta að hægt verður að hefja skólastarf með nokkurn vegin eðlilegum hætti.
Lesa meira
10.08.2020
Skráningu í fjarnám er lokið hjá skólanum og fullt í öllum áföngum. Næst verður innritað í nóvemberbyrjun fyrir vorönn 2021.
Lesa meira
05.08.2020
Skrifstofa skólans hefur opnað aftur eftir sumarfrí. Verið er að vinna úr umsóknum sem bárust um skólavist á meðan á fríi stóð og taka út nemendur sem ekki hafa greitt skólagjöld til að mynda pláss fyrir aðra sem voru á biðlista.
Lesa meira
23.06.2020
Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga er í leyfi frá 23. júní til 4. ágúst og skrifstofur skólans lokaðar. Nemendur sem hlotið hafa skólavist sjá stöðu sína í Innu. Við þökkum fyrir frábæran vetur og hlökkum til að byrja aftur í haust.
Lesa meira
02.06.2020
Einn vinsælasti valáfanginn í MTR á vorönninni fjallaði um afrekskonur á ýmsum sviðum mannlífsins. Birgitta Sigurðardóttir, kennari í upplýsingatækni fékk hugmynd að áfanganum snemma á síðasta ári. Markmiðið var að beina kastljósi að konum í nútíð og fortíð. Í fyrstu vikunni fengu nemendur að setja fram óskir um viðfangsefni og verkefnaskil. Hugmyndir þeirra féllu vel að hugmyndum kennarans en nemedur bættu þó einhverju við það sem Birgittu hafði dottið í hug.
Efni áfangans var þemaskipt. Í upphafi skoðuðu allir sketsinn úr síðasta áramótaskaupi þar sem kvenkyns fréttastjóri og karlkyns fréttamaður ræddu verkefnaskil og hann nefndi aldrei á nafn konurnar sem voru gerendur í fréttunum. Önnur þemu voru t.d. afrekskonur í vísindum og íþróttum, frumkvöðlar, aktivistar, fatlaðar konur, rithöfundar, myndlistarkonur, tónlistarkonur o.fl. Verkefnin sem nemendur skiluðu voru á formi myndbanda, hlaðvarpa, ritgerða, veggspjalda, glærukynninga og skýrslna. Þetta er einkar fróðlegt efni sem varpar ljósi á mikilvægt framlag kvenna á fjölmörgum og ólíkum sviðum. Efnið er aðgengilegt hér: https://sites.google.com/mtr.is/saga2kk05/fors%C3%AD%C3%B0a?fbclid=IwAR2ndrT9dO2yre2oNf_Tb4ISxBKHHqR8dDT792WhtUIxNgtG04qlusu87ic
Lesa meira
23.05.2020
Tuttugasta brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram við mjög óvenjulegar aðstæður í dag. Þrjátíu og tveir nemendur brautskráðust en samtals hafa 322 útskrifast frá skólanum. Tólf brautskráðust af félags- og hugvísindabraut, sjö af íþrótta- og útivistarbraut, fimm af kjörnámsbraut, þrír af myndlistarsviði listabrautar, þrír af náttúruvísindabraut, einn af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og einn af starfsbraut. Af þeim 32 sem brautskráðust voru 22 fjarnemar sem koma víða að. Í upphafi vorannar voru nemendur við skólann 388. Þar af voru 312 í fjarnámi. Meira en helmingur þeirra býr á höfuðborgarsvæðinu. Á vorönninni voru nemendur flestir á félags- og hugvísindabraut 172, næst flestir voru á náttúruvísindabraut 63, á listabraut voru 44 og 35 á íþróttabraut.
Lesa meira
15.05.2020
Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er með óhefðbundnu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu. Þar sem við í MTR hugsum bara í lausnum þá verður sýningin þetta árið í stafrænu formi. Hún verður opnuð laugardaginn 16. maí kl. 8:00.
Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/vor2020
Best virkar að skoða hana í Google chrome vafranum.
Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrrými. Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum og ljósmyndaáföngum. Hlekkir eru á vefsíðunni sem veita aðgang að verkum nemenda úr ýmsum öðrum áföngum. Meðal annars ljóð sem nemendur hafa samið og fleiri verkefni úr íslensku, líka verk um jákvæða sálfræði og kvennasögu, svo eitthvað sé nefnt. Líka tónlist, umfjöllun um götulist á netinu og áhugaverð podköst um lífið á dögum Covid-19. Það eru yfir tvö hundruð myndverk á stafrænu sýningunni og endurspegla þau vel kraftmikið og skapandi starf á önninni.
Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri.
Lesa meira
15.05.2020
MTR hefur stigið þriðja skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, fyrstur framhaldsskóla landsins. Þorbjörg Sandra Bakke, starfsmaður Umhverfisstofnunar, afhenti viðurkenningu á þessu í skólanum í dag. Tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað, kennari á náttúruvísindabraut.
Lesa meira
06.05.2020
Niðurstöður könnunar sem Sigríður Ásta Hauksdóttir, námsráðgjafi gerði meðal staðnema skólans og foreldra þeirra bendir til þess að andleg líðan nemendanna sé svipuð núna og hún var áður en skólinn skellti í lás og öll kennsla færðist á netið. Jafnframt kemur fram að foreldrar og nemendur eru sammála um að fjarkennslustofurnar (google meet) virki vel og nemendur fái skýrar leiðbeiningar og nægjanlega leiðsögn. Það gangi nokkuð vel að mæta í tíma, halda rútínu og skila úrlausnum verkefna á réttum tíma.
Nemendur voru beðnir að nefna þrjú lýsingarorð sem lýstu líðan þeirra daginn sem þeir svöruðu. Algengustu orðin sem sem þeir nefndu voru gleði og kvíði en örlítið færri nefndu stress. Foreldrar voru beðnir að velja þrjú orð sem þeir töldu lýsa líðan barnsins síns. Algengasta orðið var leiði en nokkuð færri nefndu einmana og eirðarleysi.
Þátttaka í könnuninni var valfrjáls. Spurningalisti var sendur til sextíu staðnema en nítján svör bárust. Foreldrar þrjátíu og eins nemanda, yngri en átján ára, fengu spurningalista en þrettán svör bárust.
Lesa meira