Fréttir

Fyrirkomulag skólastarfs til 25. nóvember

Fjarkennt verður áfram til 25. nóvember en nemendum er frjálst að mæta í skólann og vinna saman innan ramma sóttvarnareglna. Þessi ákvörðun er með fyrirvara um breytingu á sóttvarnareglum í framhaldsskólum.
Lesa meira

Íslensku menntaverðlaunin – tilnefning

Menntaskólinn á Tröllaskaga er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir að fara nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði. Skólinn er tilnefndur í flokknum framúrskarandi skólastarf ásamt Dalskóla, Leikskólanum Rauðhóli, Pólska skólanum og Tónskóla Sigursveins. Verðlaun verða einnig veitt í flokkunum framúrskarandi kennsla og framúrskarandi þróunarverkefni. Þá verða sérstök hvatningarverðlaun kynnt við afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna sem áformað er að verði á Bessastöðum föstudaginn 13. nóvember nætkomandi. Mark¬mið Íslensku menntaverðlaun¬anna er að vekja at¬hygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frí¬stund¬a¬starfi og auka veg umbóta í menntun. Það eru embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitar¬stjórnar¬ráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta¬vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sem standa að Íslensku menntaverðlaununum.
Lesa meira

Franska í miðannarviku

Hópur nemenda skemmti sér ágætlega við frönskunám í miðannarvikunni. Kennarinn, Sylvie Roulet, segir að þetta hafi verið uppgötvunarnám og krakkarnir hafi verið mjög tilbúnir að kasta sér út í það. Hún er reyndur kennari og hefur meðal annars kennt kennaranemum. Hún hefur starfað í sirkusskóla og segist hafa notað hugmyndir og tækni þaðan í miðannarvikunni. Meðal annars að nám geti verið leikur og nemendur eigi að treysta hópinn og vinna saman að lausnum. Krakkarnir í MTR hafi verið dugleg að leita á netinu, skiptast á upplýsingum, kenna hvert örðu og vinna saman sem hópur. Öll voru þau byrjendur og viðfangsefnin í samræmi við það, að kynna sig, læra að telja, nöfn litanna og slíkt. Franska er alþjóðlegt tungumál sem talað er í fjölmörgum ríkjum í flestum heimsálfum. Fleiri og fleiri tala málið því fjölgun er meiri á stöðum þar sem það er talað en að meðaltali á jörðinni.
Lesa meira

MTR fyrirmyndarstofnun

Menntaskólinn á Tröllaskaga varð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana að þessu sinni. Í fyrsta sæti varð Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum. Þetta er sama röð á þessum tveimur stofnunum og var fyrir tveimur árum en í fyrra var MTR í fyrsta sæti en FV í öðru. Við óskum þeim í Eyjum innilega til hamingju. Fimm stofnanir í þessum flokki hljóta sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnanir, Menntaskólinn á Laugarvatni, Samkeppniseftirlitið og Menntaskólinn á Egilsstöðum auk MTR. Meðalstórar teljast þær stofnanir sem hafa 20-49 starfsmenn. MTR hefur fjórum sinnum vermt efsta sætið í þessum flokki og þar með fengið sæmdartitilinn „Stofnun ársins“. „Það ber að þakka stéttarfélaginu Sameyki fyrir að framkvæma þessa könnun sem er ríkisstofnunum mikilvæg þar sem marktækar upplýsingar fást um líðan starfsmanna með ítarlegri könnun. Með því móti gefst eftirsóknarvert tækifæri til að fara vel yfir niðurstöðurnar og ná markvissum umbótum. Góð líðan starfsfólks breytir miklu á vinnustað þar sem einstaklingar eru stóran hluta lífsins. Þegar fólki líður vel næst betri samvinna milli þeirra sem eflir árangur stofunar til að sinna markmiðum sínum..“ sagði Lára Stefánsdóttir skólameistari MTR.
Lesa meira

Myndasögur á miðönn

Hvað eru myndasögur og hvernig virka þær sem tjáningarmiðill, var viðfangsefni í einum miðannaráfanganum. Áhersla var lögð á að skilja hvernig sjónræn frásögn er notuð til að segja sögu eða miðla hugmynd. Lefteris Yakoumakis, leiðbeinandi, segir að þetta hafi verið inngangsáfangi með áherslu á aðalatriði. Í æfingaskyni hafi nemendur skrifað stuttar sögur og prófað að miðla þeim á sjónrænan hátt. Það skipti máli hvernig slík frásögn hefjist og hvaða ferli sé síðan fylgt. Æfingarnar hafi miðað að því að skerpa á hæfileikum nemenda til að rita og teikna og leiðbeina um notkun þeirrar tækni við sjónræna miðlun. Þá var rætt um hvað þurfi til að ná árangri í heimi teiknimyndanna og hvernig nýta megi slíka færni í ýmsum atvinnugreinum. Leiðbeinandinn, Lefteris Yakoumakis, er listmálari og myndasöguhöfundur, búsettur á Siglufirði.
Lesa meira

Valvika - vorönn 2021

Þriðjudaginn 20. október hefst valvika fyrir vorönn 2021. Þá velja allir nemendur skólans sér áfanga fyrir komandi önn. Áfangaframboð má finna á vef skólans þar sem jafnframt eru áfangalýsingar. Auglýsingar frá kennurum vegna áfanga má sjá á Padlet-vegg. Nemendur eru beðnir að hafa samband við umsjónarkennara sína vegna valsins. Mikilvægt er að velja í valvikunni til að tryggja sér pláss í áföngum. Opnað verður fyrir innritun nýrra nemenda 1. nóvember.
Lesa meira

Taktu stjórnina - miðannaráfangi

Til eru aðferðir við að bæta líf sitt með skipulegum hætti. Nemendur í þessum áfanga hafa þjálfað samskipti, sjálfsaga, slökun og fleira sem gagnast við að ná betri tökum á námi og setja sér markmið fyrir framtíðina. Nemendur lærðu að hrósa og taka við hrósi frá öðrum, um styrkleika, fyrirmyndir, þakklæti og hamingju. Markmiðið er að kynnast sjálfum sér betur, bæta samskipti, auka sjálfstraust og draga úr kvíða. Nemendum finnst áfanginn áhugaverður og gagnlegur. Kennari er Sólveig Helgadóttir, ACC markþjálfi, sem hefur sérhæft sig í að leiðbeina ungu fólki. Vegna faraldursins fór nám í miðannaráföngunum þremur fram á jafn mörgum stöðum. Sólveig og nemendur hennar hafa haft bækistöð í Sandhóli, húsi Rauða krossins í Ólafsfirði.
Lesa meira

Skipulag 19.-23. október 2020

Fjarkennt verður vikuna 19.-23. október en nemendum er frjálst að mæta í skólann og vinna saman innan ramma sóttvarnareglna. Ákvörðun um vikuna 26.-30. október verður tekin í næstu viku.
Lesa meira

Skipulag 5. - 16. október 2020

Vegna samkomutakmarkana verður fjarnám í MTR vikuna 5.-9. október, nemendur mæta samkvæmt stundaskrá í fjarkennslustofur sínar sem finna má í kennslukerfinu Moodle. Vikuna 12.-16. október er miðannarvika og full mæting í staðnámi frá 08:10 - 15:15 mánudag til föstudags. Skólinn er ekki lokaður og geta nemendur því komið og unnið í skólanum ef þeir svo kjósa.
Lesa meira

Íslandsmet Mikaels

Mikael Sigurðsson, nemandi á tónlistar- og náttúruvísindabraut MTR, gerði sérlega góða ferð á suðvesturhornið í síðustu viku. Auk þess að vinna Söngkeppni framhaldsskólanna með félögum sínum Herði Inga, Júlíusi og Tryggva tókst Mikael að sjá og mynda flækingsfuglana elrigreip og heiðatittling. Þar með hefur hann náð því marki, yngstur allra, að sjá og mynda 200 flækningsfugla hér á landi. Mikael er aðeins 16 ára. Fuglana sá hann við Garðskaga og fylgja myndir hans af þeim með fréttinni. Það er heiðatittlingur sem var tvöhundraðasti fuglinn. Mikael hvetur fólk sem sér fugl sem það hefur ekki séð áður og gæti verið sjaldséður flækingur að láta sig vita eða tilkynna það á Birding Iceland á Facebook.
Lesa meira