18.12.2020
Í dag fékk Menntaskólinn á Tröllaskaga 4. græna skrefið. Græn skref er verkefni á vegum Umhverfisstofnunar en fjármagnað af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Stjórnandi verkefnisins í skólanum er Unnur Hafstað og hefur hún verið traustur leiðtogi og leiðbeinandi fyrir aðra starfsmenn stofnunarinnar.
Lesa meira
14.12.2020
Skráningu í fjarnám er lokið hjá skólanum og fullt í öllum áföngum. Næst verður innritað í aprílbyrjun fyrir haustönn 2021.
Lesa meira
11.12.2020
Haustsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er með óhefðbundnu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu. Þar sem við í MTR hugsum bara í lausnum þá verður sýningin þetta árið í stafrænu formi. Hún verður opnuð laugardaginn 12. desember kl. 8:00.
Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/syningar/haustsyning-2020
Best virkar að skoða hana í Google chrome vafranum. Í apple tölvum þarf að nota Safari vafran, í símum og spjaldtölvum þarf að hlaða inn artsteps appinu.
Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrrými. Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum og ljósmyndaáföngum, íslensku og heimspeki. Hlekkir eru á vefsíðunni sem veita aðgang að verkum nemenda úr ýmsum öðrum áföngum. Sýningin endurspeglar vel kraftmikið og skapandi starf á önninni.
Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri.
Lesa meira
11.12.2020
Nemendum sem eru að ljúka námi í MTR býðst að gera stórt verkefni að eigin vali sem metið er til fimm eininga í sérstökum áfanga. Að þessu sinni nýttu fjórir útskriftarnemar tækifærið.
Guðni Berg skoðaði kosti þess að koma upp leiksvæðum inni í bæjum sem nýta mætti bæði vetur og sumar. Niðurstaða hans var að kjöraðstæður væru á Dalvík og í Ólafsfirði til að skipuleggja svæði fyrir yngri börn þar sem þau gætu rennt sér á skíðum í litlum brekkum og stundað aðrar vetraríþróttir. Á sumrin mætti nota svæðin fyrir margvíslegar íþróttir og leiki. Slík svæði myndu auka öryggi barna og veita þeim margvísleg ný tækifæri. Þá væri hagræði að hafa svæðin í göngufæri við heimili barnanna. Myndin sem fylgir fréttinni er skjáskot úr kynningu Guðna. Leiðbeinandi hans í verkefninu var Lísebet Hauksdóttir.
Svala Marý Sigurvinsdóttir fjallaði um þunglyndi unglinga. Hún gerði grein fyrir einkennum, orsökum og afleiðingum þunglyndis. Jafnframt sagði hún frá úrræðum og hvert unglingar geta leitað eftir aðstoð vegna þunglyndis. Svala Marý skilaði lokaverkefni sínu í formi heimasíðu og bæklings sem hún hannaði og myndskreytti. Leiðbeinandi var Sigríður Ásta Hauksdóttir.
Ásta María Harðardóttir rannsakaði hvort kynjamunur kæmi fram í leikjum barna á þriðja ári. Athugun var gerð á leikskóla í Kópavogi og fylgst með tveimur kynjablönduðum hópum. Niðurstaðan var að tilgáta um kynjamun var staðfest, í báðum hópum tóku strákar frumkvæði í leik og stúlkur fengu ekki að taka þátt nema fá leyfi frá strákunum. Leiðbeinandi við verkefnið var Hjördís Finnbogadóttir.
Bjarki Magnússon fjallaði um afleiðingar covid-19 í íþróttaheiminum í lokaverkefni sínu með sérstakri áherslu á bandarísku NBA deildina í körfuknattleik. Þar eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir undir og voru útbúin sérstök æfingasvæði þar sem leikmenn lokuðu sig inni mánuðum saman og hittu ekki aðra en iðkendur í sömu grein. Leiðbeinandi Bjarka var Óskar Þórðarson.
Kynning á verkefnunum fór fram á Google Meet eins og skólastarf hefur að mestu leyti gert á síðari hluta haustannar. Jóna Vilhelmína Héðinsdótir, aðstoðarskólameistari stýrði kynningunni.
Lesa meira
09.12.2020
Nemendur í skapandi tónlist hafa skipulagt tónleika til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar
og nágrennis. Þeir fara fram í sal skólans Hrafnavogum á föstudagskvöld. Tónleikarnir hefjast
klukkan 19:30 og verður streymt hér: https://www.youtube.com/watch?v=to6q7InTXjs
Lesa meira
26.11.2020
Nemendur skólans hafa óskað eindregið eftir því að skólastarfi sé ekki raskað frá núverandi formi þegar einungis tvær vikur eru eftir af önninni. Eftir ítarlegar samræður starfsmanna, nemenda, stjórnenda og fleiri hefur því verið ákveðið að fresta staðnámi fram í janúar. Staðnám hefst þá eftir skipulagi miðað við sóttvarnareglur hverju sinni. Minnt er á að nemendur geta komið í skólann til að læra.
Lesa meira
24.11.2020
Þann 30. nóvember n.k. verður staðnám innan ramma þeirra sóttvarnareglna sem nú gilda. Öllum nemendum með mætingaskyldu ber að mæta. Kennt verður frá 08:10 - 12:45. Eftir þann tíma verða vinnutímar í fjarnámi. Nemendum verður skipt í rými og geta þeir ekki farið úr því rými í önnur. Þeir geta farið á salerni með grímur og sóttvörnum fyrir og eftir þá för. Nánari upplýsingar verða birtar síðar. Þangað til heldur fjarnám áfram.
Lesa meira
20.11.2020
í gær tók Menntaskólinn á Tröllaskaga þátt í kynningum á „Beyond
borders“ í Eindhoven í Hollandi. Viðburðurinn var rafrænn og
skipulagður af Brainport Development sem er klasi samstarfsaðila
atvinnulífs og skóla. Við erum að sækja um Erasmus+ verkefni með
Brabant Collage í Hollandi sem er partur af þessum klasa.
Þema viðburðarins var „Hnattrænt samstarf, íbúar jarðar og
tungumálakunnátta“. í Erasmus+ umsókninni sem ber yfirheitið
„Menntun, heildræn nálgun náms og kennslu í stafrænum heimi“ eru auk
okkar og Hollendinganna skólar frá Portúgal og Spáni.
Kynningin fór fram í gegnum Beam nærverurnar og var varpað frá þeim
inn í rafrænt ráðstefnukerfi þar sem allt að 300 manns voru að
fylgjast með úti í Hollandi. Skólameistari Lára Stefánsdóttir og Ida
Semey kynntu. Hollendingarnir stýrðu nærverunni í skoðunarferð um
skólann og fjallað var um sögu skólans, markmið, námsframboð, kennslu
og námsaðferðir sem einkenna Menntaskólann á Tröllaskaga og eru
hornsteinn Erasmus umsóknarinnar.
Lesa meira
16.11.2020
Staðnemar í MTR bera sig almennt vel en margir hverjir eru þó orðnir frekar þreyttir á covid-ástandinu og vilja komast aftur í skólann. Þetta kom fram í símtölum umsjónarkennara við umsjónarnemendur sína fyrir helgina. Flestir sögðu að sér gengi vel halda sig að náminu en sumum gengur það síður og segja að sér gangi betur að skipuleggja námið þegar þeir eru í skólanum. Dæmi voru um að nemendur hefðu lent í þeim vandræðum að vaka fram eftir nóttu í hámhorfi eða að spila tölvuleiki við vini sína og því átt erfitt með að vakna í skólann á morgnana. Þá sögu nokkrir nemendur að þeim þætti betra að læra heima en í skólanum. En langflestir sakna samvista við skólafélaga og starfsmenn skólans og vilja gjarnan að þessu ástandi fari að linna.
Lesa meira
03.11.2020
Innritun í fjarnám hófst 1. nóvember 2020. Þar má sjá hvaða áfangar eru í boði á vormisseri.
Lesa meira