Í Ólafsfirði. Lára Stefánsdóttir
Nú erum við í Menntaskólanum á Tröllaskaga komin aftur til starfa eftir sumarleyfi. Sumarið hefur leikið við okkur hér á norðurslóðum og því má gera ráð fyrir að flestir komi glaðir og úthvíldir til starfa eftir sumarið. Verið er að ganga frá stundatöflum, fara yfir hverjir hafa greitt skólagjöld, afskrá þá sem ekki borguðu og taka inn nemendur af biðlistum ef pláss myndast. Kennarar eru byrjaðir að ræða saman upphaf annar, hugmyndir og viðfangsefni. Öll vonumst við til að skólastarf raskist sem minnst í vetur en allt kemur það í ljós og við tökumst á við þau verkefni sem upp koma með bros á vör.