26.02.2021
Nemendur í áfanganum ÍSLE2FM05 hafa síðustu þrjár vikur kynnt sér og rannsakað undirstöðuatriði um málsnið, hljóðfræði og mállýskur. Líka hafa þeir skoðað muninn á vönduðu formlegu málfari og óvönduðu óformlegu málfari og þar að auki hvernig formlegt málfar geti verið óvandað og eins að óformlegt málfar geti verið vandað. Eftir kynningu í fyrstu vikunni skiptu nemendur sér í hópa og hófust handa við rannsókn. Sumir fylgdust með málfari í völdum dagskrárliðum í útvarpi eða sjónvarpi en aðrir tóku viðtöl t.d. við afa eða ömmu, börn, ungling í Reykjavík, nýbúa eða kennara. Líka var hægt að skoða rapptexta eða uppistand. Hóparnir settu fram rannsóknartilgátur og prófuðu þær. Afurðum var svo skilað á sameiginlegt svæði nemenda og kennara í áfanganum. Eftir það fór fram jafningjamat og sjálfsmat á kynningunum. Þær voru líflegar og fjölbreyttar og þótti verkefnið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt þótt einstaka nemandi lenti í vandræðum með sinn hlut í hópvinnunni. Kennarar í áfanganum eru Kolbrún Halldórsdóttir og Margrét L. Laxdal.
Hér er sýnishorn úr áfanganum: Andri, Hafsteinn, Hrannar og Ragnar ræða við Lísebet og Þórarinn. https://www.youtube.com/watch?v=olPhekv0b5A&feature=youtu.be
Lesa meira
24.02.2021
Staðnemar og starfsmenn MTR fögnuðu tilslökun sóttvarnarreglna og frjálslegri samskiptum í dag. Nemendur nutu fræðslu um kynlíf, kynhneigðir, kynheilbrigði og getnaðarvarnir hjá Ástráði kynfræðslufélagi læknanema við Háskóla Íslands. Tímasetningin var tilviljun og engin bein tengsl á milli tilslökunarinnar og fræðslunnar, sem raunar fór fram á zoom. En nemendur tóku virkan þátt með aðstoð tækninnar og þar sem athöfnin fór fram í hádeginu var pizza í boði.
Lesa meira
23.02.2021
Þann 24. febrúar breytast sóttvarnareglur í framhaldsskólum og þar með hjá okkur. Í stuttu máli geta 50 verið í sama rými og þurfa nemendur og kennarar að hafa a.m.k. 1 metra fjarlægð sín á milli en annars nota andlitsgrímur. Í göngum og þar sem menn mætast noti allir andlitsgrímur. Á viðburðum tengdum starfi eða félagslífi skólans er hámarksfjöldi 150 manns.
Lesa meira
17.02.2021
Að venju var Menntaskólinn á Tröllaskaga opinn börnum á öskudaginn en ekki var hljóðkerfi að þessu sinni vegna covid. Nokkrir barnahópar komu samt og sungu um gamla Nóa, sem orðinn er að skíðamanni í Fjallabyggð og tóku fleiri hefðbundna slagara.
Nemendafélagið Trölli stóð fyrir búningakeppni og skörtuðu nemendur og starfmenn skrautlegum búningum. Fyrstu verðlaun fyrir búninga nemenda hlaut Jana Sól Ísleifsdóttir í gervi sjóræningja, önnur verðlaun hlaut Amalía Þórarinsdóttir í búnini Amy Winehouse og þriðju verðlaun fékk Ómar Geir Lísuson í gervi einstæðs föður. Ein verðlaun voru veitt í flokki starfsmanna og hlaut Sæbjörg Ágústsdóttir í gervi Tóta trúðs þau.
Framan af morgni gengu nemendur um og horfðu gaumgæfilega upp í loftið og inn í horn og skonsur. Þeir voru að leita fjársjóða (nammipoka) sem forysta nemendafélagsins hafði falið á ýmsum stöðum. Verðlaun nemenda fyrir búninga voru einnig í sætara lagi enda gott að hafa eitthvert mótvægi við allan harðfiskinn sem Björg Traustadóttir treður upp á mann og annan á þessum degi í nafni heilsueflandi framhaldsskóla.
Lesa meira
10.02.2021
Nemendur enskukennarans Anthony M. La Pusata í tungumálaskóla á Sikiley voru gestir í enskuáfanga hjá Tryggva Hrólfssyni í morgun. Anthony leggur sérstaka áherslu á hæfni í samræðum en í enskukennslu á Ítalíu er almennt nokkuð mikil áhersla á málfræði og ritun en minni á samræðuhæfni. Hann og nemendur hans voru í morgun að kynna sér hvernig framhaldsskóli virkar á Íslandi og áherslur í námi og kennslu í MTR, svo sem vendikennslu og leiðsagnarmat án lokaprófa. Ítölsku nemendunum fannst þeir íslensku frjálslegir í fasi og létu í ljósi að þeir gætu vel hugsað sér að flatmaga í sófum á meðan þeir læra eins og gjarnan er gert í MTR. Þeim fannst athyglisvert að rekast á Bergþór Morthens í nærverunni að kenna nemendum portrettmálun frá vinnustofu sinni í Gautaborg í Svíþjóð. Þá vakti athygi að allir nemendur yrðu að taka inngangsáfanga í listum án tillits til þess hvaða braut þeir væru á. Hugmyndin er að nemendurnir á Sikiley og í MTR bæti samræðuhæfni sína á ensku með æfingum síðar í vetur
Lesa meira
03.02.2021
Nemendur í kvennasögu hafa það verkefni í þessari viku að setja lög flutt eða samin af konum á Spotify lista. Fjöldi laga er þegar kominn inn á listann. Þar kennir margra grasa, allt frá Bríeti til Birgittu Haukdal, Grýlanna og Janis Joplin. Texti á að fylgja þar sem valið er skýrt. Áður hafa nemendur í þessum áfanga m.a. fjallað um kvennafrídaginn 1975 og kvenkyns rithöfunda og kvenpersónur í bókmenntum. Í stjórnmálafræði er fjallað um stefnur þessar vikurnar og núna eru feminisminn og nýfjrálshyggjan á dagskrá. Verkefni í fyrrgreindu stefnunni snúast meðal annars um Kvennalistann og Kvennaframboðin hér á landi á síðustu öld.
Birgitta Sigurðardóttir kennir kvennasöguáfangann og þar eru 23 nemendur en Hjördís Finnbogadóttir kennir stjórnmálafræðina og þar eru 53 nemendur.
Lesa meira
27.01.2021
Námsárangur var venju fremur góður á haustönninni. Meðaleinkunn í öllum fögum var ívið hærri en á síðustu vorönn og þetta er hæsta meðaleinkunn sem nemendur hafa fengið síðan skólinn hóf starfsemi. Allir nýnemarnir sem byrjuðu í haust náðu öllum áföngunum sem þeir voru í, sem verður að teljast mjög jákvæður árangur. Almennt virðast bæði staðnemar og fjarnemar hafa sýnt dugnað og þrautseigju á þessum erfiðu tímum þegar heimsfaraldur hefur truflað allt líf fólks. Vegna skipulags náms og kennslu í MTR var breytingin yfir í fjarnám auðveldari bæði nemendum og kennurum en víða annars staðar. Kennslukannanir í lok haustannar komu mjög vel út, nemendur voru í heildina ánægðir með kennsluna og greindu almennt frá því að líðan þeirra í einstökum áföngum væri góð eða mjög góð. Miðað við ástandið í samfélaginu er full ástæða til að gleðjast yfir þeim upplýsingum sem fram koma í kennslukönnunum.
Lesa meira
13.01.2021
Enn fjölgar nemendum í MTR. Skráðir í skólann í dag 13. janúar eru 494 nemendur. Það er um 30 nemendum fleira en við upphaf haustannar. Það er samdóma álit kennara að nemendur hafi gengið rösklega til verks í upphafi annarinnar og skil á verkefnum í lok síðustu viku voru mjög góð. Af nemendum skólans eru aðeins 72 staðnemar en 422 fjarnemar búa vítt um land og einhverjir í útlöndum. Síðari helming haustannar var allt nám fjarnám en vorönnin hófst á staðnámi sem gengur vel. Nemendur hafa verið duglegir að tileinka sér reglur um sóttvarnir og engin sérstök vandamál komið upp.
Lesa meira
02.01.2021
Staðnemar mæta í fjarnám mánudaginn 4. janúar en staðnám frá og með 5. janúar. Nemendur þurfa að panta mat í mötuneyti fyrirfram. Nemendur þurfa að mestu að vera með grímur þegar ekki næst 2ja metra bil í stofum. Grímur verða í skólanum.
Lesa meira
19.12.2020
Tuttugu og sjö nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Tíu útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, fimm af náttúruvísindabraut, þrír af íþrótta- og útivistarbraut, tveir af kjörnámsbraut, einn af listabraut, myndlistarsviði og sex af stúdentsbraut að loknu starfsnámi. Tuttugu og þrír af þessum hópi eru fjarnemar sem búa víðsvegar um land og tveir erlendis. Samtals hefur 361 nemandi brautskráðst frá skólanum.
Lesa meira