Ljósmynd: G.K.
Þessa viku var svokölluð lýðræðisvika í MTR eins og í 26 öðrum framhaldsskólum á landinu. Þá er lögð áhersla á umræður og fræðslu um stjórnmál og mikilvægi þess að taka upplýsta ákvörðun áður en gengið er til kosninga. Nokkrir kennarar hafa leiðbeint nemendum í sameiginlegum vinnutímum, m.a. við að útskýra hugtök sem eru á flugi í stjórnmálaumræðunni en eru kannski ekki auðskilin fyrir byrjendur.
Hápunktur vikunnar var svo í dag þegar efnt var til skuggakosninga. Skipuð var fjögurra manna kjörstjórn auk tveggja varamanna og eins kennara sem skipulögðu kosninguna og sjá um talningu atkvæða. Kjörsókn var mjög góð, aðeins tveir mættu ekki á kjörstað svo það er greinilega mikill áhugi hjá nemendum á að hafa áhrif á þjóðmálin með atkvæði sínu.