Brautskráning

Hópmynd mynd GK
Hópmynd mynd GK

Tuttugu og sjö nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Tíu útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, fimm af náttúruvísindabraut, þrír af íþrótta- og útivistarbraut, tveir af kjörnámsbraut, einn af listabraut, myndlistarsviði og sex af stúdentsbraut að loknu starfsnámi. Tuttugu og þrír af þessum hópi eru fjarnemar sem búa víðsvegar um land og tveir erlendis. Samtals hefur 361 nemandi brautskráðst frá skólanum.
Lára Stefánsdóttir, skólameistari sagði að fjarnám og fjarvinna hefði einkennt skólastarfið á önninni. Það væri áhugavert að horfa á að brautskráðir nemar hefðu náð hæfni sem skipti máli til lengri tíma. Mikilvægt væri að kunna að vinna með þessum hætti. Það væri nauðsynlegt að kunna mismunandi vinnuaðferðir en mestu skipti að vinna jafnt og þétt. Venju samkvæmt væru nemendur með yfir níu í meðaleinkunn í grein verðlaunaðir en í fyrsta sinn væru núna veitt verðlaun fyrir þrautseigju. Lára hvatti nemendur til að huga að því hvað þeir tækju með í sína ferðatösku. Lífið væri ekki alltaf réttlátt og ýmislegt kæmi uppá, en hver og einn gæti ákveðið sjálfur hvað af því hann tæki með sér. Hún óskaði brautskráðum allra heilla og þakkað þeim fyrir góð kynni og samvinnu.
Tanja Dögg Sigurðardóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagði að það væri ekki sjálfgefið að ljúka stúdentsprófi. Allir hefðu þurft að hafa fyrir því. Hún sagðist vita um þónokkra sem hefðu verið búnir að gefa upp vonina um að ljúka stúdentsprófi en hefðu sannfærst um að reyna, hefðu skráð sig og tekist að ljúka náminu. Hún sagðist hafa lært að góðir hlutir gerist ekki af sjálfu sér, að þeim þurfi að vinna. Tanja Dögg sagði að á síðustu önninni hefðu sér fundist allir vegir vera færir. Hún þakkaði kennurum fyrir skemmtileg og lærdómsrík ár í MTR.
Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara kom fram að 442 nemendur voru skráðir í til náms þegar skólinn hófst í ágúst. Það eru um eitt hundrað fleiri en á haustönn 2019. Í fjarnám voru skráðir 379 og bjó meira en helmingur þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmennasta brautin var félags- og hugvísindabraut með 194 nemendur, 64 nemendur voru á náttúruvísindabraut, 58 á listabraut, 50 á kjörnámsbraut, 35 á íþróttabraut, 19 á grunnmenntabraut og 8 á starfsbraut. Þá voru 17 skráðir á stúdentsbraut að loknu starfsnámi. Sex af nemendum grunnmenntabrautar voru grunnskólanemar. Starfsmenn voru 27.
Vegna faraldursins var fámennt við útskriftarathöfnina en hægt að fylgjast með streymi fá henni. Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus Þorvaldsson, Mikael Sigurðsson og Tryggvi Þorvaldsson fluttu lag sem leikið var af myndbandi og sama aðferð var notuð til að flytja kveðjur til útskriftarnema frá kennurum.

Tengill á lag: https://www.youtube.com/watch?v=ARBRMtWZ7vI
Tengill á myndband frá kennurum: https://www.youtube.com/watch?v=AXZYpuSXTXY