26.03.2020
Námsþjónusta í Menntaskólanum á Tröllaskaga er eins og nám og kennsla komin á netið.
Allir nemendur geta óskað eftir fjarviðtali við náms- og starfsráðgjafa og við sálfræðing skólans. Hægt verður að taka kvíðanámskeið á netinu og hafa nemendur lýst verulegum áhuga á því. Þá geta nemendur notfært sér þjónustu markþjálfa í fjarskanum. Form til að sækja um þjónustuna er opið á forsíðu kennslukerfis skólans. Þar geta nemendur líka komið með hugmyndir að annari þjónustu sem þeir telja að gæti nýst þeim. Þetta eru erfiðir tímar fyrir nemendur, forráðamenn, kennara og starfsmenn alla og mikilvægt að við stöndum öll saman þannig að námið gangi vel. Við þurfum því að hlú vel hvert að öðru og sérstaklega unga fólkinu okkar. Vernda þarf andlega heilsu ekki síður en líkamlega og er eitt flóknasta viðfangsefnið að halda gleði og einbeitingu.
Frekari upplýsingar og þjónustu veitir Sigríður Ásta Hauksdóttir, náms og starfsráðgjafi sem hefur netföngin namsradgjof@mtr.is og sigga@mtr.is.
Tæknilega aðstoð veitir Gísli Kristinsson, kerfisstjóri á gisli@mtr.is og líka í síma 8490696
Lesa meira
25.03.2020
Ein og hálf vika er liðin síðan skólahúsi MTR í Ólafsfirði var lokað og öll kennsla og önnur þjónusta við nemendur var flutt í netheima. Það er samdóma álit kennara skólans að umskiptin hafi gengið vel. Skil nemenda á verkefnum í lok síðustu viku hafi verið svipuð og venjulega, mæting í kennslustundir sé ekki verri en venjulega og jafnvel betri í sumum tilvikum. Einn kennari nefndi að fjarnemar væru meira en áður að hafa samband og leita eftir aðstoð. Annar hafði orð á því að það væru meiri samskipti við nemendur sem ættu erfitt með samskipti auglitis til auglitis. Sá þriðji sagði að nemendur væru fljótir að laga sig að nýjum vinnubrögðum og hefðu sýnt frumkvæði í að mynda hópa svo þau gætu unnið saman á netinu. Almennt segja kennarar að nemendur séu duglegir og jákvæðir. Einn orðaði það svo: „Mér persónulega finnst þetta mjög notalegt og ganga vel. Nemendurnir sem ég tala við eru líka að láta mig vita af hreyfingunni sinni og senda mér oftast snap af sér þegar þau eru í útivist, hvort sem það er göngutúr, hlaup, hjólreiðar, gönguskíða- eða vélsleðaferð“. Hólmar Hákon, kennari á starfsbraut segir að það gangi vel með sína nemendur á brautinni. Þau mæti í tíma og séu að skila vel. Eitthvað vantaði þó uppá dugnaðinn við að koma sér út og hreyfa sig og var þá gripið til þess ráðs að búa til pepphóp á „snapchat“ sem nemendur kalla "Drullaðu´ðérút".
Lesa meira
20.03.2020
Allt hefur gengið vel fyrstu vikuna, nemendur eru duglegir að mæta í tíma samkvæmt stundaskrá. Við tökum stöðuna eftir helgi aftur og allar ábendingar vel þegnar. Sigurður Mar Halldórsson sem kennir listljósmyndun og frumkvöðlafræði tók upp gott myndband sem hann kallar „Undarlegir tímar“ með skilaboðum til sinna nemenda sem við öll í skólanum gerum að okkar.
Lesa meira
16.03.2020
Fyrsti breytti dagurinn eftir að skólahúsnæðum framhaldsskóla var lokað gekk ákaflega vel. Nemendur mættu nánast allir í tíma samkvæmt stundaskrá og unnu virkilega vel. Öll starfsemi gekk hnökralaust í dag þannig að við horfum bjartsýn fram á veginn. Við hvetjum alla aðstandendur og aðra í umhverfi nemenda til að ræða við þau um námið, forvitnast um hvað þau eru að læra og sýna verkum þeirra áhuga. Það styður þau allra best.
Lesa meira
13.03.2020
Nú hafa yfirvöld tekið ákvörðun um að loka húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga og staðbundinni viðveru nemenda vegna covid-19 veirunnar. Því flytjum við okkar vinnu alfarið á netið og höldum ótrauð áfram. Verkfærin til þess eru þau sömu og þið þekkið en glöggvið ykkur á skipulaginu. Engar breytingar verða hjá fjarnemum.
Lesa meira
11.03.2020
Í einum miðannaráfanganum fengu nemendur fræðslu um möguleika akrílmálningar í víðum skilningi. Áfanginn hófst með umræðu um hvað væri málverk og hvað væri það ekki. Einnig var rætt hvort falleg málverk væru endilega góð listaverk og hvernig líta ætti á ljót málverk!
Út frá umræðunni fóru nemendur að prófa sig áfram með efnivið og hugmyndir.
Lesa meira
10.03.2020
Nemendur og starfsmenn MTR eru að skipuleggja viðbrögð sín við Covid-19 faraldri. Í vinnutíma í dag funduðu Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Karólína Baldvinsdóttir, kennari sem er hjúkrunarfræðingur að mennt, með nemendum og gerðu grein fyrir viðbrögðum skólans og svöruðu spurningum nemenda. Lára lagði áherslu á að nú væri mikilvægt að nýta tímann vel, hver nemandi þyrfti að bera ábyrgð á námi sínu í enn ríkari mæli og kennarar væru boðnir og búnir til aðstoðar. Við byggjum að því að þekkja fjarvinnu vegna óveðursdaga ef til þess kæmi að ekki væri hægt að sækja skóla. Enginn afsláttur verður veittur af námi og kennslu og sérstakir frestir til verkefnaskila verða ekki veittir vegna faraldursins. Haldið verður áfram eins og verið hefur og önninni lokið á sama tíma og venjulega. Formbreyting getur hins vegar orðið á samskiptum að því leyti að starfsmenn noti tækni, svo sem Google meet, í stað þess að mæta á vettvang í skólann í Ólafsfirði. Hver starfsmaður tilkynnir nemendum sínum um þann hátt sem viðkomandi hefur á kennslu sinni í tímum á stundatöflu. Nemendur voru hvattir til að halda vel hver utan um annan á þessum óvissutímum og styðja hver annan við að halda áfram og ljúka námi sínu á önninni. Vont væri að missa einingar sem nemendur væru langt komnir með. Karólína fór yfir hegðun Covid-19 veirunnar og bent var á að ungt og hraust fólk veiktist yfirleitt ekki illa. Samfélagið væri að verja þá sem viðkvæmir væru fyrir og hvatti hún alla til að taka virkan þátt í því. Búið er að fresta heimsókn nemenda frá Danmörku til haustsins og verið að skoða með áformaða ferð MTR- nema til Portúgals - hvort hugsanlegt sé að fresta henni líka.
Lesa meira
08.03.2020
Nú hefur embætti landlæknis lýst yfir neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19 veirusmits. Mikilvægt er að fylgja í hvívetna leiðbeiningum landlæknis sem má finna hér. Viðbragðsáætlun og viðbragðsleiðbeiningar MTR má sjá á vef skólans á forsíðu.
Lesa meira
06.03.2020
Nemendur sem völdu táknmálsáfanga í miðannarvikunni hafa kynnst samfélagi og menningu heyrnarlausra í gegnum íslenska táknmálið. Þau lærðu grunninn í samskiptum á táknmáli eins og að kynna sig, skiptast á grunnupplýsingum og halda uppi einföldu samtali. Þá fengu þau líka að spreyta sig á að læra og syngja dægurlög á táknmáli. Áfanganum lauk með nokkurskonar "partý tíma" með leikjum þar sem aðeins var talað táknmál. Nemendur fengu líka tækifæri til að spyrja um táknin sem þau voru forvitin um en voru kannski ekki í námsefninu. Leiðbeinandi í áfanganum var Unnur Ósk Unnsteinsdóttir, táknmálstúlkur hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.
Lesa meira
06.03.2020
Í miðannarvikunni hefur hópur nemenda endurnýtt gamla hluti og búið til nýjar vörur. Nemendur öfluðu sér hráefnis, rannsökuðu það, greindu og mátu möguleikana á nýtingu. Í vettvangsferð um bæinn og heimsókn í nokkur fyrirtæki var aflað fanga og fróðleiks um smíði og framleiðsluaðferðir. Meðal hluta sem til urðu er borð sem hefur brúsa fyrir fætur en brotnar flísar skreyta plötuna, stólar úr rörum og líka stólar úr frauðplasti. Gamall þrýstikútur varð að fótstykki fyrir lítið borð og lampa en rör úr fótboltamarki heldur ljósinu uppi. Þá eru markmannshanskar að öðlast framhaldslíf sem blómapottar. Lokaskrefið er síðan að stilla vörunni upp til kynningar eða auglýsingar. Almenn ánægja er með námskeiðið og orðaði einn nemandinn það svo að sjónsviðið hefði stækkað varðandi hvað hægt væri að gera úr gömlum hlutum. Leiðbeinandi var Dagur Óskarsson, vöruhönnuður.
Lesa meira